Æ ég nenni þessu ekki
föstudagur, desember 19, 2008
mánudagur, desember 08, 2008
sunnudagur, desember 07, 2008
föstudagur, nóvember 28, 2008
Dagurinn var erfiður í dag. Undanfarnir dagar hafa verið erfiðir. Niðurskurður og aftur niðurskurður. Jafnvel meiri niðurskurður eftir þennan. Ég þakka fyrir að hafa vinnu og finn hrikalega til með þeim sem misstu vinnuna í dag. Núna er kreppan komin að hjartanu, fólk grætur og á erfitt...
Knús á alla sem eiga erfitt...
Skrifaði Regína klukkan 19:36 |
miðvikudagur, nóvember 05, 2008
þriðjudagur, nóvember 04, 2008
Já bla bla bla. ég er enn að meðtaka þetta ástand, enn að átta mig á því að þetta er ekki einhver draumur eða martröð kannski frekar. Annars er ég hamingjusöm sko...hef bara áhyggjur af framtíðinni, er brjálæðislega reið yfir þessu og er óendanlega hneyksluð á því að þetta gat farið svona illa. Iss við erum bara rétt farin á kíkja á topp ísjakans, það á margt ljótt eftir að komast upp á yfirborðið. Manni er skapi næst að flytja bara til útlanda og gefa skít í þetta. Sjáum til, það væri auðvitað hrikaleg synd og ekki til að bæta ástandið ef fólksflóttinn verður mikill. En þegar allt kemur til alls verður maður að hugsa um fjölskylduna sína og sjá börnunum sínum fyrir sómasamlegum lífsskilyrðum. Þó ég vilji kosningar alveg absalút, því að ég er á því að það eigi að reka óhæft fólk úr vinnunni sinni, þá þykist ég vita að ekkert skárra takið við. Svona er maður alveg búinn að missa gjörsamlega trúna á stjórnmálamönnum og ekki var hún mikil fyrir.
Skrifaði Regína klukkan 10:09 |
fimmtudagur, október 16, 2008
Allt í einu fékk ég svolítið kvíðakast út af þessu ástandi öllu. Hvað ef verðbólgan verður svo mikil að við náum bara ekki endum saman? Getum ekki selt íbúðina, höfum ekki nóg fyrir mat og öðrum nauðsynjum? Hvað ef ég missi vinnuna? Hvað ef við neyðumst til að flytja úr landi? Æ þetta er skelfilegt. Nú reynir virkilega á að maður taki einn dag í einu og njóti augnabliksins.
Eitt sem ég þoli ekki í þessu öllu er þegar ekki má tala um sökudólga. Jú auðvitað verðum við að einbeita okkur að því að leysa málin en það er sérsktakt fólk í vinnu til þess, ráðherrar og fræðingar. Almenningur og blaðamenn ættu ekkert að bíða með að rannsaka fortíðina og varpa ljósi á þá sem bera ábyrgð. Nú er komið nóg af því að menn á Íslandi komi sér alltaf undan ábyrgð og sleppi stikkfrí frá þeirra gjörðum. Það er óþolandi að horfa uppá stjórnmálamenn, bankamenn og viðskiptamenn benda hvor á annan og enginn vill axla ábyrgð á hruni Íslands. Maður veltir því fyrir sér hvort ástæðan fyrir því hversvegna ríkisstjórnin er svona treg að þiggja hjálp frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sé að hún hafi hugsanlega eitthvað að fela? Er hún að kaupa sér tíma svo hún geti komið einhverju óþægilegu undan? Við vitum öll að kolkrabbinn er sprellifandi og að hagsmunatengsl stjórnmálamanna og viðskiptalífsins eru svo sannarlega til staðar.
Ég er virkilega sár og reið yfir því að þetta gat yfirhöfuð gerst. Það má vel vera satt að lausaféskortur í Bandaríkjunum hafi hrint þessari kreppu af stað. Ég skil heldur ekki hvernig í ósköpunum það gat gerst. Hvað voru allir þessir pólitíkusar, hagfræðingar, viðskiptafræðingar og guðmávitahvaðfræðingar eiginlega að hugsa? Kunna þeir ekki að leggja saman tvo og tvo? Gat enginn þeirra séð það fyrir að ef endalaust er lánað ódýrt að þá verða peningarnir einhverntíman búnir? Eru menn virkilega svona blindir í trú sinni á þessa ósýnilegu hönd markaðarins að frekar láti þeir allt fara til andskotans heldur en að grípa inní? Hvurskonar eiginlega bull er þetta? Öllu frelsi fylgir ábyrgð segja þeir. Jú mikið rétt, en það er nú bara einu sinni þannig að það er til fullt af fólki og kannski er það í meirihluta sem ræður einfaldlega ekki við takmarkalaust frelsi. Það reynir að komast eins langt og það mögulega getur, og alltaf lengra og lengra því það er jú enginn sem stoppar það. Nákvæmlega eins og í barnauppeldi; þú veitir börnunum ekki frelsi fyrr en þau kunna að fara með það. Fullorðnir eru ekkert öðruvísi. Stjórnleysi leiðir ekkert gott af sér.
Nú þegar fall kapitalismans blasir við eru "þeir" samt ennþá að lofa hann og ætla ekki enn að sjá ljósið. Þeir kvika ekki frá því að rétt hafi verið að einkavæða bankana. Sorglegt. Þetta er ofsatrú og engu líkara en að um "cult" sé að ræða. Geir H. og félagar hefðu getað gert eitthvað fyrir lifandis löngu til að hindra að fall Íslands yrði svona hátt en gerðu ekkert, hlustuðu á engin viðvörunarorð, voru bara þægilega blindir í stólunum sínum og lugu að okkur almúganum og sögðu að allt væri í stakasta lagi. Frekar færi allt til andskotans en að ríkið grípi inn í markaðinn. Þykir þeim virkilega vænna um þessa nýfrjálshyggju sína en velferð okkar á Íslandi? Nú eiga þessir sömu menn að bjarga því sem bjargað verður og ekki má tala um ábyrgð eða finna sökudólga. Mér finnst bara ekkert of snemmt að skipta út þessari ríkisstjórn og leyfa fólki að taka við stjórn sem ekki skapaði þær aðstæður sem urðu til þess að setja landið okkar á hausinn.
Samt er ég ekkert hress með stjórnarandstöðuna heldur, sýnir það ekki veikleika hennar að hafa horft uppá allt þetta gerast og hafa ekki getað gert neitt annað en að kvabba? Þurfum við ekki bara einhverja flinka, óháða útlendinga sem kunna að stýra þessu stóra fyrirtæki sem Ísland er. Þá loksins yrðu kannski hagsmunapot og vina- og ættartengsl úr veginum svo hægt sé að stjórna fjármálum þessa lands af einhverju viti. Staðan er nú bara þannig að maður treystir engum hér lengur.
Skrifaði Regína klukkan 11:11 |