föstudagur, nóvember 30, 2007

Þá er það staðfest. Góðkynja var það. Ég var bjartsýn allan tímann og mér fannst bara ekki passa annað en þetta væri góðkynja en það er samt auðvitað léttir að fá það staðfest. Þá er þessi pakki búinn og ég held áfram að safna í mig kröftum til að halda áfram lífinu með bros á vör og gleði í hjarta. Það er svo mikið eftir að gera og upplifa og ég hlakka svo óstjórnlega til að takast á við allt sem framundan er.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Iss nú er sko nóg komið af sjúkratali, fuss og svei! Best að snúa sér að öðru. Eru ekki jólin að koma og svona? Hmmm, skammdegi og ljós í skammdeginu. Ég held ég hafi bara aldrei á ævinni haft jafn mikinn tíma til að undirbúa jólin. Er að hugsa um að fara að skoða uppskriftir fyrir jólamatinn; forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Drykk, smákökur, konfekt og aðrar kökur. Svo væri ég til í að föndra eitthvað. Er það ekki upplagt fyrir svona heimalinga eins og mig? Ég verð að hafa hugann við eitthvað, annars bilast ég. Kannski að það sé hægt að finna eitthvað sniðugt dúllerí á netinu...hó hó hó

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Jæja, kerlingin bara mætt á svæðið. Komin heim í faðm fjölskyldunnar í litla yndislega kofann á Sogaveginum. Fékk sem sagt að fara heim í gær og bara við ágætis heilsu. Aðgerðin heppnaðist víst vel; ekkert grunsamlegt sást og þeir náðu æxlinu í heilu lagi, sem var víst frekar mikið atriði. Verra hefði verið ef það hefði sprungið og sýkt kviðarholið. Ég mæti svo í heftatöku á föstudaginn og þá fæ ég líka svar úr ræktuninni. Þetta fór bara eins og best verður á kosið.

Ég hef það bara ágætt, hélt satt að segja að ég yrði miklu meira kvalin og á rosalegum verkjalyfjum. Ég finn auðvitað fyrir þessu, bæði innvortis og svo fyrir skurðinum en get ekki sagt að ég kveljist beint. Svo tek ég bara panodil og vostar -ótrúlegt alveg! Ég verð samt að passa mig að ætla mér ekki um of, ég er fljót að þreytast ef ég er of lengi á fótum og svo má ég ekki lyfta neinu, beygja mig niður eða teygja mig upp.

Maður er náttúrulega í góðu yfirlæti á Hótel Smára og ekki hægt að kvarta. Á sömu stofu á spítalanum lá kona sem var mikið veik og að ég held með krabbamein. Ég prísa mig sæla að hafa bara þurft að fara í þessa litlu aðgerð miðað við hvað hún er að ganga í gegnum aumingja konan.

Nú verð ég bara að halda andanum uppi og reyna að fá ekki "the blues" sem er víst algengt hjá konum í mínum sporum. Hringingar og heimsóknir eru sko vel þegnar. Ef ég sef þá bara svara ég ekki. Ég á eftir að vera ein alla daga á meðan strákarnir eru í sínum stofnunum, þannig að það er bara gott mál að fá símtal eða heimsóknir.

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Jæja, þá er það stóri dagurinn á morgun. Regína leggst undir hnífinn....*hrollur*

Ég fékk þær góðu fréttir í dag að ekkert meira hefði sést við sneiðmyndatökuna og þetta fyrirbæri mældist 15 x 15 sentimetrar. Þokkalegasta stærð bara!

Ég get ekki lýst því hvað fólk í kringum mig er búið að vera hjálpsamt og yndislegt og ég veit að mér verða sendir svo margir góðir straumar á morgun að þetta getur ekki farið öðruvísi en vel.

Fékk lánaðar bækur og laptop í vinnunni og fékk svakalega góðan stuðning frá frábærum vinnufélögum og ekki síst yfirmanni mínum. Mikið er maður nú ríkur að þekkja svona mikið af góðu fólki...ég verð bara orðlaus.

Þetta gæti verið svo miklu miklu verra. Þetta er svolítið eins og að fara í keisaraskurð, nema ég slepp við hríðarnar og það er ekkert barn hehe. Ég vona að ég sleppi með bikiní skurð en læknirinn var ekki alveg viss svo það getur verið að ég verði skorin lóðrétt líka. Anyways...bara fá þetta burt er númer eitt. Hvenær er maður svosem á bikiní?

Ég verð á spítalanum í 2 til 4 daga og mæti örugglega á netið um leið og ég get...maður er náttúrulega háður ;)

Þangað til -hafið það gott og verið góð hvort við annað...

mánudagur, nóvember 19, 2007

Þá er ferlið komið í gang. Raunveruleika- og óraunveruleikatilfinningar skiptast á og hausinn verður bara hálf skrítinn og þreyttur við að meðtaka þetta allt saman. Í stuttu máli var ég skoðuð hátt og lágt og frædd um aðgerðina og spurð sömu spurninganna af þessum og hinum starfsmanni spítalans. Þetta tók u.þ.b. fjóra tíma af deginum og svo kom ég bara heim og lagði mig. Ég hélt, eins og undanfarið, þegar ég vaknaði að þetta hefði allt saman bara verið draumur.
Það á að fjarlægja annan eggjastokkinn, það er á hreinu. Ef í ljós kemur eitthvað meira í aðgerðinni, gæti meira verið fjarlægt en það er víst frekar ólíklegt. Það bendir allt, enn sem komið er, til þess að þetta sé góðkynja æxli, sem kallast tvíburabróðir, jafnvel tvö kíló að þyngd. Ég fékk þá útskýringu að þetta væru ruglaðar frumur í eggjastokknum sem bara settu allt í gang eins og þær ættu að búa til barn. Svo bara stækkar þetta og stækkar og því stærra sem þetta er, því meiri líkur eru á því að þetta sé góðkynja, því illkynja verður víst ekki stórt, eða á a.m.k. erfiðara með það. Svo eru fleiri punktar sem benda til að þetta sé góðkynja; þetta er hreyfanlegt, ég er ung og ég hef ekki verið veik. Ég fer svo í tölvusneiðmyndatöku á morgun þar sem hægt verður að rannsaka þetta betur.
Það er ekki laust við að ég kvíði fyrir þessu en hlakka líka til að losna við þetta. Þetta er bara viðameiri aðgerð en ég gerði mér grein fyrir. Svipað og keisaraskurður, skorið á sama stað og svipað langur tími fer í að jafna sig. Það var ekki alveg á prógramminu hjá mér. Góðu fréttirnar eru þær að þó að eggjastokkurinn verði tekinn, hefur það engin áhrif á frjósemi né hormónastarfsemi. Fjúkk, því við erum ekki alveg til í að hætta kannski alveg strax að framleiða börn.
Já og svo eitt í lokin: Mikið var ég hissa á því að maður þarf að borga fyrir að leggja á bílastæðum spítalans...HNEYKSLI SEGI ÉG, HNEYKSLI!!!

föstudagur, nóvember 16, 2007

Næsta vika:

Mánudagur: Innskrift og undirbúningur.
Þriðjudagur: Röntgenmyndataka.
Fimmtudagur: Aðgerð.

Þetta stefnir í afar áhugaverða viku. Nýr kafli í reynslubókina sem er eiginlega byrjaður að skrifa sig. Ætli það sé ekki best að taka því bara rólega um helgina og njóta tilverunnar og tímans með karlinum og krökkunum. Þetta verður allt í lagi, ég er búin að ákveða það.

Svakalegur léttir var að fá símtalið frá spítalanum í dag og að heyra að eitthvað prógramm er farið í gang. Ætli ég verði ekki að gefa honum annan séns eftir að ég reiddist honum svo mikið um daginn fyrir að vilja ekki taka á móti mér í skoðun. Mér var víst troðið í aðgerðina á fimmtudaginn, fegin er ég. Kannski ætti maður bara að hafa einhverja trú á þessu heilbrigðiskerfi eftir allt saman.

Það er ferlega skrítið hvernig heilinn í manni virkar. Núna þegar ég veit hvað þetta er, finnst mér ég finna miklu meira fyrir því. Ég er samt alls ekki kvalin, ég bara finn þetta einhvernvegin betur. Þetta er aðskotahlutur sem ég þrái að losna við og það sem allra fyrst.

Ferlega getur maður líka verið klikkaður; ég er farin að hlakka til að lesa og lesa og kannski skrifa líka og teikna á meðan ég er að jafna mig...hehehe alltaf gott að hafa eitthvað til að hlakka til.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Ég er oft í hálfgerðum vandræðum með hversu persónulegt ég vil hafa þetta blogg mitt. Núna er komið upp mál sem ég hef aðeins þurft að hugsa mig um hvort ég ætti nokkuð að vera að skrifa um. Eftir smá umhugsun ákvað ég að gera það...í "versta" falli fengi ég kannski bara stuðning og jafnvel reynslusögur frá öðrum.

Málið er að á mánudaginn fór ég til kvensjúkdómalæknis og þá kom í ljós að ég er með æxli við eggjastokkinn. Læknirinn gat ekki með sínum tækjum mælt nákvæmlega stærðina né séð frá hvorum eggjastokknum þetta er. Hún sagði samt að þetta væri a.m.k. kíló og er svipað að stærð eins og legið þegar kona er gengin 16 vikur á meðgöngu. Það eru 85-90% líkur á því að þetta sé góðkynja og ég held að það komi ekki í ljós fyrr en ég verð skorin upp. Ég bíð núna eftir að spítalinn kalli mig í aðgerð.

Ég er þess vegna kannski svolítið skrítin þessa dagana og get ekki beðið eftir að komast í aðgerðina. Það er samt rosalegur léttir að hafa fengið þessa skoðun eftir að spítalinn neitaði að taka við mér fyrir nokkru! Ég veit núna a.m.k. hvað er í gangi því ég vissi að eitthvað væri þarna, ég finn svo greinilega fyrir þessu.

Ég hef ekkert verið veik og líður þannig séð vel. Þetta er bara ónotatilfinning sem ég vil endilega losna við og komast í aðgerðina sem fyrst svo hægt sé að skera þetta burt. Þá vitið þið hvar ég er ef ég skyldi nú hverfa aðeins frá blogginu.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Takk svo mikið fyrir gærkveldið sæta fólk! Hlakka til næst!

Love ´yall!!!