mánudagur, febrúar 28, 2005

Kvarti kvart

Þá er ég aðeins farin að kíkja út eftir margra daga inniveru. Ekki laust við að maður sé að klikkast á þessu. Æ, hvað er ég annars að kvarta undan einhverri flensu þegar þetta eru ekki alvarlegri veikindi en það.
Úti er ógeðslega kalt en daginn er farið að lengja sem betur fer. Það styttist óðum í sumarið, get varla beðið eftir því að geta farið að kvarta undan hita frekar en kulda...hahaha...alltaf getur maður kvartað undan einhverju.
Jæja, andleysið er þvílíkt þessa dagana svo þetta verður ekki lengra í bili.
Segi bara að lokum að ég er búin að bæta aðeins við myndum í albúm 2.

Vi ses!

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Pestarbæli

Jæja, þar kom að því að veikindin komu í heimsókn. Byrjuðu á Benna sem var veikur allt vetrarfríið greyjið en er orðinn frískur núna. Litli bróðir er búinn að vera lasinn í þrjá daga, var kominn með 38.5 í gær er er hressari í dag. Er bara alger krúsídúlla, veikur í fyrsta skipti á ævinni. Svo er Smári orðinn slappur en ekki kominn með hita ennþá, vonandi sleppur hann.

Ég líka 7-9-13!

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Fleiri myndir...

Ég er í dugnaðarkasti og má ekkert vera að því að blogga núna. Ætlaði bara rétt að henda inn þessum myndum sem ég er búin að sitja sveitt við að minnka og færa svo í albúmið. OOhhhh...sumar, hiti, bíddu hvað er nú það?

Gleðilegt sumar!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Svakalegur sunnudagur.

Svakalega var gott veður í dag.
Svakalega fór ég í góðan göngutúr í dag.
Svakalega steikti ég góðar lummur úr hafragraut í fyrsta skipti í dag.
Svakalega er ég heppin að eiga svona svakalega sæta, góða og yndislega stráka.
Svakalega er svakalegt skrítið orð núna.

laugardagur, febrúar 19, 2005

ein í koti

buhuuu...ég er ein heima í kvöld og ég nenni því ekki...buhuu...

föstudagur, febrúar 18, 2005

loksins!

Þá er ég loksins búin að drullast til að henda inn eitthvað af myndum og ég lofa að vera duglegri héðan í frá. Þetta er hluti af desembermyndum, flestar teknar á Íslandinu.

Wúalla...

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

já, grunaði ekki Gvend...fyrsta tönnin er farin að láta á sér kræla. Gvöð hvað ég er montin!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Í fréttum er þetta helst:

Ja hérna. Það er bara allt að verða vitlaust í DK.
Ógurlegt lestarslys sem á ekki að geta gerst og þetta var lest sem maður hefur oftar en einu sinni stigið upp í. Sem betur fer lést enginn að ég held.
Svo var sjálfsmorð Eriks úr Krøniken í sjónvarpsfréttum sama kvöld og þátturinn var og á forsíðum blaðanna og höfundur krafinn skýringa. Skilst að baunaheimilin séu alveg í uppnámi og fólk spyr sig hví, hví? Höfundur gaf þá skýringu að þetta væri raunveruleiki, sjálfsmorð gerðust líka í alvörunni...núúú...haaaa??? Þetta var stórfrétt í einu blaðinu en smá frétt að móðir hefði verið drepin fyrir framan börnin sín...í alvörunni sko. Er allt raunveruleikaskyn flogið út í buskann eða hvað? Maður spyr sig.
Nú svo þetta með hana Henriettu Kjær, fjölskyldu- og neytendaráðherra. Hennar ferli er mögulega lokið af því að hún borgaði sófann og gardínurnar með gúmmítékka. Reyndar er maðurinn hennar að taka á sig sökina en það skiptir líklegast engu máli. Ekki nóg með það, heldur tóku þau lán á háum vöxtum, sem hún sem ráðherra hafði ráðið fólki frá að gera...æ hún er í vondum málum. Svo situr dómsmálaráðherra Íslands þægilega í sínum stól, brosandi út að eyrum, þó hann hafi brotið lög. HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ ??? Hvernig er hægt að láta menn komast upp með svona? Skilettekki....arrrggg...ég er brjáluð!

Af mér er það svo að frétta að ég er hætt í þessu hundleiðinlega DDV drasli. Fékk nóg af þessu og er búin að úða í mig sælgæti, kökum og kóki síðan og hefur aldrei liðið betur.
Kíló eru kúl og rokka feitt!

Krass búmm bamm sklabúmm!

p.s. á einhver baby-alarm sem hann/hún er hætt/ur að nota?

laugardagur, febrúar 12, 2005

Speki dagsins.

Þegar manni langar í súkkulaði, þá fær maður sér súkkulaði,
þegar manni langar í bjór, þá fær maður sér bjór,
þegar manni langar í sígarettu, þá fær maður sér sígarettu
....og ekkert helvítis samviskubit!

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Bla

Jæja, aðeins búin að taka til á síðunni. Óvirkir fengu að fjúka og komast ekki aftur á blað fyrr en það verður eitthvað aksjón í gangi. Bætti svo Elínu kollegíbúa, skólastelpu og pössunardömu við...jíííhaaa. Alltaf gaman að því...

Díses, ég er alveg í ruglinu. Er nebbla með súkkulaðifráhvarfseinkenni, ekki gaman.

Við HM og þrjár aðrar ungamæður skriðdrekuðumst í babybíó í morgun og sáum Meet the Fockers..alveg ágætismynd bara. Langar eiginlega að sjá hana aftur heima í DVD. Gvööð ég er svo þreytt núna...merkilegt hvað maður þarf alltaf eitthvað að vaka þegar maður er að drepast úr þreytu..hmmm

ZZzzz...

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Bööömmer

Fúlt...kílóið plús einn þriðji er komið aftur. Þetta er eitthvað skrítið og veldur ei kátínu. Bööö er að missa móðinn. Hvernig getur þetta staðist? Kannski best að láta vigtina alveg vera, allavega er ég alveg í fílu út í hana. Kúkalabbavigt...ullllll og grett!!!

Fruss

mánudagur, febrúar 07, 2005

Mánudagur til mæðu

Við fórum alla leið upp í IKEA í dag til að kaupa tvo hluti og þeir voru svo ekki til! OHHH pirr! Ekki nóg með það, heldur tók ferðalagið allt of langan tíma. Við ætluðum nefninlega að vera voðalega sniðug og fara frekar í IKEA í Tåstrup en ekki i Glostrup eins og áður, til að vera fljótari. Vorum sem sagt í stuttu máli lengur. Svo náði ég ekki að fara í DDV til að stíga á vigtina...svekk.

En fussumsvei, skítt með það, því að nefninlega ég, Regína Hjaltadóttir, er búin að missa hvorki meira né minna en 1,3 kíló á fyrstu vikunni minni. O hvað ég er stolt af þessum árangri. Þetta er fínt pepp og best að halda áfram. Mig langar ekki einu sinni að svindla. Ég neita því þó ekki að súkkulaðiþörfin hefur sko kallað en þá hugsa ég bara nei ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó....heilaþvottur, það er sko málið. Djöfull væri ég samt til í að spóla áfram, mér finnst tíminn eiginlega silast áfram og ég vil helst bara missa kílóin öll á nó tæm. Þannig gengur það víst ekki...no pain no gain.

Já fyrst maður er kominn á enskar nótur þá er ekki úr vegi að koma með smá tilkynningu. Ég tók um það ákvörðun í vikunni að ég ætla fara í ensku í háskólanum næsta haust. Eins og Danske Bank segir: "Gør det du er bedst til". Ég vaknaði bara einn morgunninn og sá ljósið. Þetta var eitthvað svo einfalt allt í einu. Ég ætla bara að læra það sem mér finnst skemmtilegt, lífið er allt of stutt í eitthvað annað. Mig langar að verða framhaldsskólakennari og þá bara geri ég það. Einfalt mál. Ég hlakka þvílíkt til að byrja. Rosalegur léttir er að vera búin að taka ákvörðunina.

Annars var helgin góð. Við Smári enduðum hana með því að fara út að borða og HM fór í sína fyrstu pössun á meðan. Við fórum á indverska staðinn á Amagerbrogade og fengum vondan forrétt en góðan mat. Það var líka bara kominn tími til að við færum eitthvað að kærustuparast enda héldum við upp á 11 ára kærustuparaafmælið okkar í leiðinni. En aumingja HM þótti erfitt að láta passa sig. Grét alveg svakalega í klukkutíma og vildi ekki sjá platmjólkina sem ég skildi eftir handa honum því ekkert gekk að mjólka mig. Hann var alveg náfölur greyjið og aldrei hef ég áður séð hann svona úrvinda af þreytu, greyjið litla. Mér fannst ég ægilega vond að hafa skilið hann svona eftir. Svona er maður bara mikil ungamamma. Þetta þýðir samt ekki að ég eigi ekki eftir að láta hann í pössun aftur, ég er alveg búin að jafna mig á þessu og hann er örugglega búinn að steingleyma öllu.

Well læt þetta duga í bili...túrúlú!

föstudagur, febrúar 04, 2005

Bloggedí blogg...

Bloggleti mikil hefur hrjáð mig undanfarið. Er líka búin að vera í sjálfsheilaþvotti og það fer mikil orka í það. Ég byrjaði ekkert í DDV-inu af fullum krafti fyrr en á þriðjudaginn var. Þetta er aðeins meira vesen en ég átti von á en venst örugglega með tímanum. Ég er alveg til í að fórna nokkrum kílóum í það. Mér finnst ég vera heppin að vera heimavinnandi til að hafa tíma í þetta. Þetta krefst nefninlega svolítils skipulags og tíma. Þegar maður þarf að borða 2x 300 grömm af grænmeti á dag, er nauðsynlegt að það sé fjölbreytt og gott. Um daginn var ég tildæmis 45 mínútur að jórtra á hvítkálssalati, nenni því sko ekki aftur. Þetta er samt líka gaman, mér finnst ég alltaf vera að borða eitthvað gott og verð þægilega södd af matnum. Málið er bara að halda áfram og trúa því að þetta beri árangur. Þetta virðist allavega virka, ég veit ekki hvað margar "fyrir" og "eftir" myndir ég er búin að sjá. Mér finnst þær mjög mótíverandi. Svo ætla ég auðvitað að vera pía í sumar sem er aðal ketsjið.

Allt gott að frétta að öðru leyti. Kallinn í skólanum, frumburðurinn líka og HM vex og dafnar eins og vera ber. Hann er reyndar eitthvað að vesenast á nóttunni núna og sefur stutta dúra í einu. Ég er að pæla í hvort ég ætti að byrja að gefa honum smá oggu ponsu graut áður en hann fer að sofa. Æji mér finnst voða erfitt að fá ekki almennilegan svefn þó ég geti lagt mig á daginn þegar hann sefur væri ég líka til í að gera eitthvað annað, auk þess nær maður einhvernveginn aldrei þreytunni almennilega úr sér með svona stuttum lúrum. Ég hugga mig bara við það að þetta er stutt tímabil á æfinni og svo margar dýrmætar stundir sem ég upplifi með ungabarn sem koma aldrei aftur og eins gott að reyna að njóta þess bara.

Ég verð að fara að koma með fleiri myndir, ég má bara ekki vera að því núna. Ætla að næla mér í nætursvefn...hvenær ætli hann vakni núna?

Góða nótt.
R.