laugardagur, júní 26, 2004

Fólk er fífl!

Nú er ég hætt að skilja. Ég sem ætlaði að vera svo obboðslega dönsk og pottþétt og var það líka en allt kom fyrir ekki. Sendi boðskortin með 10 daga fyrirvara með idiotproof leiðbeiningum og skrifaði meira að segja s.u. (svar udbedes=svar óskast) senest torsdag d.24.juni! Jú, einn afboðaði sig og þá gerði ég auðvitað ráð fyrir hinum. Þetta endaði í 5 strákum af 12. Aumingja afmælisbarnið vildi enn bíða eftir gestunum þegar 40 mínútur voru liðnar af afmælinu, alveg viss um að þeir væru á leiðinni. Þegar hann sagði "þetta er ömurlegt", langaði mig bara að segja "já veistu það ástin mín, að fólk er fífl"!

Sem betur fer rættist úr og hann varð ánægður með daginn þrátt fyrir allt. Næst býð ég bara fíflunum símleiðis.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Frumburðinum spillt!

Deginum var eytt í Field´s þar sem keyptar voru afmælisgjafir handa afmælisbarninu. Snáði er ekki heima, er búinn að vera í ferðalagi síðan á þriðjudag og kemur loksins heim á morgun. Hann græddi aldeilis á því að vera ekki heima á afmælisdaginn sinn, því foreldrarnir söknuðu hans svo mikið að þeir gátu ekki hætt að kaupa gjafir. Þetta endaði í sjö pökkum! Við hlökkum hrikalega til að fá hann heim í afmælisköku og pakkaopnanir. Var að fatta að þetta er hans síðasta afmæli sem einkabarn og kannski ágætt að hann fái gjafir eftir því.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Hinn heittelskaði fékk hádegismat og fatakaup í H&M í afmælisgjöf. Loksins fékk ég hann til að kaupa sér öðruvísi buxur en gallabuxur.

Mikið gerir grámyglurigning mig syfjaða.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Auðvitað reddaði kerlingin þessu með kökuna. Fann gamlan Føtex-flöskumiða og seldi fleiri flöskur og gat þannig keypt í kökuna. Hann fattar þetta reyndar á bökunarlyktinni þegar hann kemur heim en það er allt í lagi. Hún kemur líka á óvart.

Tókuð þið eftir þessu? Rock on Morrissey!

Og að lokum þetta: Heja Sverige!

Oj, ég er ömurleg kærasta. Í öll þau 10 ár sem við S höfum verið saman, get ég talið á fingrum annarar handar hversu oft ég hef gefið greyjinu afmælisgjöf. Mér datt reyndar í hug sálfræðileg skýring á þessari leiðinlegu hegðun minni. Nefninlega að ég á afmæli á aðfangadag og kann einfaldlega ekki á þessa afmælishluti. Lélegt? Kannski.
Hann á afmæli á morgun og ég í klípu. Ég var búin að ákveða að nota tækifærið í kvöld á meðan hann er að vinna og baka köku handa honum. Nei, tókst að klúðra því. Ég gleymdi nebbla að fara í bankann og skipta ávísuninni feitu, þannig að ekkert verður úr kökubakstri, í kvöld að minnsta kosti.
Svo er stóra spurningin...hvað í andskotanum á ég að gefa honum? Nú ætla ég ekki að klikka! Hann skal fá sinn afmælispakka á morgun og hananú!

mánudagur, júní 21, 2004

Skin og skúrir.

Þessu mega óléttar konur hreinlega ekki við.
-Að fá óvæntan feitan tékka frá kommúnunni og vondar peningafréttir frá kommúnunni sama dag. Hormónarnir dansa trylltan stríðsdans og fjölskylda mín er ótrúlega heppin að vera ekki heima núna til að verða ekki fyrir barðinu á mér.
Þá er besta ráðið að leggjast aðeins í rúmið og grenja úr sér mestu gremjuna. Passa sig á því að vera ekki of lengi að því, svo ekki myndist það slæmir pokar undir augunum að maður komist ekki út í búð til að færa björg í bú. Slökkva svo á vandamálunum með því að kveikja á tölvunni og skella sér á vit netheimsins og lesa um líf og pælingar annarra.
Ætli ég hafi misst af The Bold and the Beautiful? Það er fátt eins passandi verandi á bömmer.

laugardagur, júní 19, 2004

Maður getur alltaf á sig blómum bætt. Hér kemur eitt, frændi minn skilst mér. Þrælskemmtilegur finnst mér.

Hjúkk, nú get ég loksins horft á fréttir stöðvar tvö.

Ég var þarna frá kl.13 til 20 og var ekki vör við 700 manns. Þetta var annars fín skemmtun og satt er að það rættist úr veðrinu. Úrhellisrigning breyttist í sólarglætu með smá rigningu sem mér finnst alltaf frekar súr upplifun en skemmtileg þó.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Ég á ekki til orð!

Ég þori ekki að linka beint á síðuna en þið verðið að smella á linkinn sem Fellibylur gefur upp í pósti sínum, dagsettan 14. júní.

Enn af útvarpi

Loksins jákvæðir hlutir að gerast í íslensku útvarpi. Doktorinn snúinn aftur á Skonrokk á laugardögum á eftir King Kong. Treysti því að honum bregðist ekki bogalistin.

Hæ hó jibbíjei og jibbiíjei, það er kominn sautjándi júní!

Ég byrjaði sko að syngja þetta um leið og ég vaknaði. Það var alveg ekta 17. júní í dag, nema ekki í miðbæ Reykjavíkur. Meira að segja rigningin lét ekki á sér standa. Fórum í Jónshús og keyptum okkur íslenskt súkkulaði og hlustuðum á Mosfellsbæjarkór, ef ég fer rétt með nafnið. Hann var voðalega krúttlegur, samansafn af söngáhugafólki sem söng, meira af ánægju en færni, vel valin lög við undirleik segulbands, alveg skemmtilega hallærislegt dæmi. Svo voru tveir hljóðfæraleikarar sem ég man ekkert hvað heita. Þau léku íslensk þjóðlög á fiðlu og kontrabassa. Mikið var gott að heyra rammíslensk þjóðlög, ég fór strax að hugsa um harðfisk, malt, hangikjöt og kjötsúpu,mmmmm.....Mikið vildi ég samt að Jónshús væri stærra eða réði a.m.k. yfir stærri samkomusal, ég held að það veiti ekkert af því. Hlakka til laugardagsins, þá verða sko flott hátíðahöld niðrá strönd, sama hvernig viðrar auðvitað.

þriðjudagur, júní 15, 2004

...eða jú, þetta:

Rúv vefurinn sökkar feitt! Hvað er eiginlega vandamálið hjá þeim þarna? Tíma þeir ekki að borga almennileg laun svo þeir geti ráðið fólk sem er starfi sínu vaxið? Eða er þetta allt ríkisstjórninni að kenna? Hvað er svona f***ing erfitt við að hafa beinar útsendingar í lagi og sömuleiðis upptökurnar? Sem íslenskur ríkisborgari, skattgreiðandi og einn eigenda Ríkisútvarpsins finnst mér ég eiga kröfu á þessu og hana nú!

Dæs...

Stundum hef ég ekkert að segja og þá er best að sleppa því.

föstudagur, júní 11, 2004

Ég er nú meiri kerlingin!

Í gær átti ég von á gesti, þó ekki beint auðfúsugesti (er það ekki skrifað svona?). Í skóla sonar míns tíðkast nefninlega að kennarinn heimsæki nemendur sína í svona hyggeligt spjall eða skole/hjemmesamtale, eins og þetta kallast. Reyndar kannast aðrar íslenskar mæður ekki við þetta sem eiga börn í sama skólanum. Kannski er þetta bara í hans bekk....en allavega ég sem sagt stóð í þeirri meiningu að hann Jan kennari ætti að koma í heimsókn klukkan 15:45 í gær. Ég var fyrir löngu búin að fá miða heim þar sem ég átti að merkja við þann tíma dagsins sem hentaði best og fékk svo meldingu til baka þar sem fyrrgreindur heimsóknartími var tilgreindur. Ég, eins og sannri húsmóður sæmir, stóð á haus allan daginn og þreif allt hátt og lágt fyrir heimsóknina góðu. Var eiginlega að brenna á tíma, því ég náði rétt svo að skúra kl. 15:40. Ég sem var búin að ákveða að það ætti ekki að vera greinilegt að ég væri að þrífa áður en hann kæmi með því að allt væri angandi í skúringasápulykt. Þetta átti að vera voða "kasúal", átti að líta út fyrir að það væri alltaf svona hreint hjá mér...hahaha....það sem manni dettur í hug. Svo leið og beið og aldrei kom Jan. Mér datt í hug að hann væri kannski enn með gömlu adressuna mína og hefði bara farið húsavilt svo að ég ákvað að hringja í hann þegar klukkan var orðin fjögur. Hann svaraði ekki, svo að ég ákvað að vera bara fegin eftir allt saman, ég var hvort eð er ekkert búin að hlakka til að fá kennarann í heimsókn, finnst það satt best að segja hálfasnalegt. En u.þ.b. fimm mínútum seinna hringir hann og ég spyr hvernig standi á því að hann hafi ekki komið. Þá var það ég sem misskildi þetta allt saman. Það var ég sem átti að koma í skólann og hann lét mig sko vita af því að hann hefði setið og beðið eftir okkur...æ æ æ. En fyrst ég var í símanum gat hann alveg gengið frá þessu símleiðis. Sem betur fer var erindið ekkert hrikalega mikilvægt. Hann var bara ánægður með stákinn og hann plumar sig vel í skólanum og er góður og duglegur strákur.
Það getur komið sér ágætlega að vera útlendingur stundum og hvað þá að vera með lækkaða greindarvísitölu í þessu ástandi. Jan var ekkert súr, sagði bara að svona nokkuð gæti alltaf gerst. Eins gott að vera í náðinni hjá Jan.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Útvarp Ísland

æji ég er komin með hundleið á Tvíhöfða. Hann Jón greyjið fer svo í taugarnar á mér. Hann er svo lengi að koma hlutunum út úr sér og ef það á að vera eitthvað fyndið þá er það alveg misheppnað finnst mér. Svo er hann alltaf að leika kerlingar eða perrakarla, hann er orðinn ansi þreyttur þessi sami brandari alltaf. Hann er að fara að brenna út eins og Laddi hérna um árið. Eina leiðin til að redda þessum þætti er að fá fleiri gesti og að þeir geri fleiri sketsa en þeir eru oft helv. góðir. Já, og NOTABENE spila almennilega músík!
Ég er nefninlega algert útvarpsfrík og hreinlega verð að hafa útvarpið í gangi þegar ég er heima. Rás tvö getur líka verið ágæt en líka alveg hrikalega leiðinleg, sérstaklega finnst mér einn eða tveir útvarpsmenn bera af, leiðindalega séð. Guðni Már Henningsson eða eins og við skötuhjúin köllum hann í gríni, Guðna Hár Menningsson. Svo er það þessi Hrafnhildur eitthvaðdóttir sem er alltaf eins og hún sé á túr og spilar Rod Stewart og Bó Halldórs eins og henni væri borgað fyrir það...eða fær hún borgað fyrir það..hmmm? Og hvenær ætlar þessi blessaða útvarpsstöð að fatta að það er vont útvarpsefni að heyra í honum Jónda Bónda í Súgandasveit nyrðri röfla um túnsprettu og fengitíma í tíma og ótíma? Fyrirgefiði, hvað kemur mér það við? Á ég ekki bara að hringja í útvarpið og tala um hvernig gengur að þrífa hjá mér og svona, alveg er það jafn skemmtilegt.

föstudagur, júní 04, 2004

O sei sei.

Margt hefur á dagana drifið hjá Regínu, hinni heima"vinnandi" húsmóður. Já vinnandi í gæsalöppum því mér verður alls ekkert úr verki. Það er svo merkilegt að þegar maður hefur nógan tíma gerir maður ekki neitt. Æji, ég geri þetta bara á morgun, segi ég alltaf og á meðan safnast rykið fyrir og óhreinataushrúgan staflast upp þangað til ekki eru til nærbrækur né sokkar til að vera í...oj bara. Það er helst að þegar rignir eins og í dag að maður hreyfi á sér sitjandann, annars er hann bara kyrr á teppi úti í garði á góðviðrisdögum.

Í vikunni fengum við minnsta næturgest sem nokkurntíma hefur sést hér á þessu heimili og þó víðar væri leitað. Nýfæddur og yfirgefinn kettlingur. Kallinn heyrði í honum harmakveinin og tók hann heim þar sem hann hugðist bjarga lífi hans. Mamma hans, flækingslæðan, hafði ungað út út sér 5 kettlingum í húsasundi einu hér í nágrenninu. Kettlingagreyjið var það nýr að hann var ennþá með naflastrenginn og auðvitað staurblindur. Við hugsuðum um hann eins og ungabarn, fengum lánaða sprautu hjá einni nágrannakonunni til að geta komið ofan í hann mjólk, vöfðum hann í handklæði og settum hann ofan á ofninn til að halda á honum hita. Sonurinn varð svo glaður greyjið og var alveg búinn að ákveða að kisi litli væri sko frændi hennar Flixu, kisu sem við áttum á Íslandi. Hann var meira að segja farinn að hlakka til þegar þau myndu hittast á Íslandi. Dramatískast var þó þegar þeir feðgar fóru að skila kisa. Það var gert með miklum trega. Við vorum alveg búin að ákveða að halda honum, jafnvel þó að dýralæknirinn vildi aflífa hann, því hann ætti ekki möguleika á að verða eðlilegur köttur, hvað sem það nú þýðir. Það sem gerði útslagið var að við vildum ekki að taka sénsinn á að ég fengi bogfrymilsótt, því þá gæti ég misst fóstrið. Málið er að þessi sótt er mun algengari hér í DK en á Íslandi, gat nú verið. Einhver sagði okkur að læðan myndi afneita kettlingnum sínum, því nú væri manneskjulykt af honum. Æji, við ætluðum bara að vera góð.

Meira um viðburði liðinna daga á morgun...

Hér á hægri væng er komin Sigga Lísa, nágranni, Hafnfirðingur, kennari, bumbulína og ég veit ekki hvað og hvað.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Hei! Takið afstöðu!

Ég ætla að herma eftir frænda og hvet alla til að gera slíkt hið sama.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Sólin er svo mikið að skína að ég hef ekkert mátt vera að því að blogga. Koma tímar koma ráð...