föstudagur, desember 21, 2007

Jóla jóla jóla...

Þetta er yndislegur tími. Við erum búin að vera dugleg að breyta og bæta hér í kofanum og þetta er alltaf að taka á sig betri mynd. Flestar gjafir komnar í höfn, jólakortin send, búið að baka og éta tvær sortir og ég veit ekki hvað og hvað. Það er ótrúlega ljúft að hafa tímann svona fyrir sér þó úthaldið sé nú ekki alveg eins og það á að vera. Ég verð stundum að hætta í miðju kafi og leggjast en ég held áfram og ætla í vinnuna strax eftir áramótin takk fyrir. Get ekki beðið. Ég get svarið það þetta er örugglega í fyrsta skipti sem ég hlakka til að fara í vinnu. Svo er rúsínan í pylsuendanum að upplifa jólin í gegnum Helga Magnús. Þetta eru fyrstu jólin hans svona með einhverju viti. Núna eru til dæmis allir með húfu jólasveinar og gamlir menn með skegg líka....hahaha. Ég hlakka alveg svakalega til aðfangadags, þá verð ég líka 34 ára kerlingartetur. (Shit)

miðvikudagur, desember 12, 2007

Hvar fæ ég buxur á 12 ára strák sem kosta ekki milljón en eru samt ekki algjört drasl?

þriðjudagur, desember 11, 2007

Æ, nú vantar alveg helming jólastemmningarinnar eftir að snjórinn leystist upp. Þá er ekkert annað að gera en að jólast almennilega. Hvernig væri nú til dæmis að taka fram jólaskraut og skrifa jólakort, kannski að það hjálpi?

laugardagur, desember 08, 2007

Þetta eru voðalega skrítnir dagar. Ég má ekkert reyna á mig en á samt voðalega erfitt með að gera ekki neitt. Ég reyni að gera eitthvað til að tapa ekki geðheilsunni. Er búin að lesa nýja Arnald til dæmis. Kláraði hana reyndar á tveimur dögum á spítalanum. Voðalega fannst mér lítið varið í hana, ég var búin að fatta plottið í miðri bókinni. Núna er ég að lesa Dan Brown sem mér finnst mun betri og svei mér þá barasta spennandi og skítsæmileg. Svo er ég með krossgátublað í gangi líka og er meira að segja loksins byrjuð að skrifa söguna sem ég er búin að vera á leiðinni a skrifa í mörg ár. Stundum er ég samt frekar einmana og lítil í mér. Æ, ég nenni samt ekki að vera að vorkenna mér. Ég hef það nú bara mjög gott þegar allt kemur til alls. Það koma bara móment svona af og til.
Hmm...þarf að fara að setja inn myndir af hvolpinum Mola og Helga Magnúsi með nýja drengjakollinn sinn. Bara að ég fyndi fjandans snúruna...

þriðjudagur, desember 04, 2007

"Staða Íslands miðað við aðrar þjóðir hefur versnað í öllum námsgreinum sem svonefnd PISA-könnun nær til, mest í lesskilningi en minnst í stærðfræði. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundi í menntamálaráðuneytinu í morgun."
Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvernig getur árangur íslenskra nemenda verið verri en danskra? Mér finnst þetta mjög undarlegt. Í öll þau ár sem Benni minn var í grunnskóla í Danmörku þurfti hann aldrei að læra heima, aldrei að taka próf og satt að segja höfum við gert grín að því hvað skólinn sem hann var í var lélegur og metnaðarlaus. Svo þegar hann kemur heim í Breiðagerðisskóla er hann að drukkna í heimalærdómi og prófum og nú hugsar maður "jæja nú er barnið loksins farið að læra eitthvað"! Er það rétt? Hvernig fara eiginlega þessar PISA kannanir fram? Getur verið að skólinn hér sé bara svona miklu erfiðari og þess vegna komi þetta svona út. Eru sömu spurningar lagðar fyrir öll lönd eða er hvert land að meta sjálft sig? Ég held að allir sem hafa búið í Danmörku geti tekið undir það með mér að skóli þar er almennt léttari en á Íslandi. Getur verið að þeir komi betur út en við því skólinn er léttari hjá þeim? Nú ef öll löndin eru metin út frá sömu forsendum, vonandi, þá er eitthvað mikið að hér. Þá er greinilegt að það ber ekki árangur að leggja svona mikið á nemendur, það hefur öfug áhrif. Mér finnst ekki eðlilegt að barn í 6 ára bekk (Benni) sé látið skrifa sögu heima þegar hann er enn að læra að lesa og skrifa. Það verður að passa að börn fái hæfilega erfið verkefni, þau verða bara óörugg og fyllast minnimáttarkennd ef verkefnin eru of erfið.
Svo skil ég ekki alveg hvernig á að hækka menntunarstig kennara þegar ekki er hægt að manna skólana af menntuðum kennurum eins og staðan er í dag. Það er fínt að hafa metnað fyrir þessu og ekkert að þessari hugsjón en hvernig á að framkvæma þetta? Þetta er alveg eins og að byggja fullt af leikskólum og elliheimilum en svo fæst ekki fólkið til að vinna störfin. Þetta lítur allt saman voðalega vel út á pappírum og vinsældir þeirra stjórnmálamanna sem þessar ákvarðanir taka aukast fyrir bragðið, -er það kannski tilgangurinn? Mér finnst alveg óþolandi þessi íslenska skammtímahugsun. Hvenær ætlum við að læra að hugsa málin til enda? Jú, menntamálaráðherra segir að það verði að hækka laun kennara, gott og blessað og alveg rétt hjá henni. Málið er bara að hún hefur ekki vald til þess. Ég vona að þessi breyting hafi áhrif til hins betra, bæði fyrir árangur nemenda og laun kennara en er því miður vantrúuð á að þetta sé leiðin. Laun kennara hafa ekki verið mannsæmandi í áratugi og það þarf held ég eitthvað nálægt kraftaverki sem hægt er að kalla hugarfarsbreytingu hjá þeim sem ráða til að laun þeirra verði leiðrétt.
Það er bara því miður svartur, ljótur blettur á þessari annars yndislegu þjóð sem kallast græðgi og skammsýni sem stjórnar allt of mörgu og smitar út frá sér og verður þess valdandi að þeir sem minna mega sín, börn, öryrkjar, sjúklingar og gamalmenni verða afgangs þegnar því þetta fólk er ekki að græða heldur þarf að græða það.
En hvað er hægt að gera? Hvernig er hægt að snúa þessari þróun við? Ég held að allir séu sammála um að eitthvað þurfi að gera, a.m.k. eru allir sem ég þekki á sömu skoðun og ég. Ég trúi því líka að fólk sé almennt góðhjartað og vilji að okkur í þessu landi líði vel og höfum sómasamleg kjör og lifum mannsæmandi lífi. Fátækt á ekki að vera til, fólk á ekki að þurfa að vera á götunni og ekki eiga fyrir mat, það er meira að segja í lögum landsins! Við vitum að til er nógu andskoti mikið af peningum, þeim er bara svo herfilega misskipt. Ég er til dæmis með 5 sinnum lægri laun en æðsti yfirmaður minn. Margir eru með svo há laun að þeir vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana á meðan aðrir vita ekki hvernig þeir eiga að hafa efni á næstu máltíð. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessu. Mér finnst þetta skammarlegt og mér finnst að stjórnmálamenn ættu að skammast sín mest, því valdið liggur hjá þeim til að breyta þessu. Hvernig getur það verið réttlátt þegar það var einhver svakalegur afgangur af ríkissjóði en sjúkrahúsin svelta, leikskólar geta varla starfað og fleiri grunnstoðir samfélagsins geta varla starfað vegna peningaskorts. There is something rotten in the state of Iceland!
Kannski er bara málið að hætta að treysta á stjórnvöld til að gera eitthvað og gera eitthvað sjálfur? Er lýðræðið að virka? Maður er alltaf rífandi kjaft út í horni yfir hinu og þessu en það skilar auðvitað engu. Æ ég veit það ekki, maður kýs þetta fólk og svo finnst manni það ekki gera nóg. Ekki það, það vinnur örugglega mikið og allt of mikið, eins og sönnum Íslendingi sæmir en hverju skilar það? Það er kannski lærdómur til að draga af þessu öllu saman: Afköstin eru ekki meiri þó álagið sé meira. Hvað ætli gerist ef það yrði fært í lög að bannað væri að vinna meira en 8 tíma á dag, 5 daga vikunnar?

sunnudagur, desember 02, 2007

Það er kominn tími á punktablogg:

  • Ég skil ekkert í þessu Facebook en er með af því allir eru með.
  • Ægilega er þetta sorglegt með drenginn sem keyrt var á í Keflavík. Hver ætli sé sagan á bak við bílstjórann?
  • Ég komst að því í dag að Hagkaups verslunarferð er of mikið fyrir mig, heilsufarslega og fjárhagslega séð.
  • Jess, nú ætla ég að finna jólaskrautið og setja það upp smátt og smátt.
  • Heyrði fyrsta jólalagið í dag....Ég kemst í hátíðarskap...
  • Er ekki einhver vírus í tölvunni manns ef það koma stundum endalauuuuuuuuuuuuuuuuuuusir stafiiiiiiiiiiiiiiiiiir af sjálfu sér og tölvan er voðalega lengi að starta sér?
  • Lífið er yndislegt, ég geri (næstum) það sem ég vil.
  • Við fengum okkur hvolp í vikunni. Hann heitir Moli og er fæddur 18. september 2007. Hann er blandaður Labrador, íslenskur og Border Collie, en mest Labrador. Mórauður í hvítum sokkum. Hann er hrikalegt krútt og fyrirferðarmikill ungi sem pissar og kúkar út um allt (en þó alltaf á gólfið). Við hlökkum mikið til að fara með hann á hlýðninámskeið.
  • Það eru víst engar fréttir en hrikalega eru þessi Laugardagslög leiðinleg ojjjjjjjjjjj. Það er ekki nema einhver grínlög sem er hlustandi á. Mér finnst þetta ansi dýrt spaug.
  • Ég tel mig vera femínista en mér finnst kynsystur mínar eiga það til að ganga of langt þegar þeirra markmið virðist vera að gera konuna að æðra kyni frekar en jöfnu karlkyninu.
  • Ég veit að það blundar í mér listamaður, eins fyndið og það kannski hljómar, ég er bara að bíða eftir að hann komi út úr skápnum.
  • Mig langar í Gasolin plötur og Kim Larsen plötur, de er superfede man!
  • Ég fékk aðeins of miklar upplýsingar hjá lækninum sem skar mig: Görnunum er ýtt upp til að komast betur að svæðinu. Og eggjaleiðarinn var orðinn svo teygður og langur að það varð að taka hann líka. Bjakk, þetta er bara ekki huggulegt en varð samt að deila því með ykkur múhahahah!
  • Man ekki meira í bili, verið þið sæl!