laugardagur, desember 31, 2005

Árið

Jebbs...nú eru bara sjö og hálfur tími eftir af þessu ári. Við erum að undirbúa kvöldið, Smári að gera forréttinn, humarsúpu og ég að strauja og svoleiðis. Við ætlum að borða hjá nágrönnum, íslenskt lambalæri og ítalskan ís í eftirrétt. Namm. Svo veit enginn hvað fysta nótt ársins 2006 ber í skauti sér. Nýja árið verður gott, ég finn það á mér.

Gleðilegt ár!

fimmtudagur, desember 29, 2005

Jeminn...það bara kyngir niður snjó hér og það er allt að verða vitlaust...gaman!

miðvikudagur, desember 28, 2005

læri læri tækifæri...er ekki að gerast!

mánudagur, desember 26, 2005

Jólabræðurnir í ár! Posted by Picasa

Jólin

Jæja, þetta heppnaðist alveg ljómandi vel bara. Maturinn var vægast sagt geggjaður og ég held að við höfum bara önd hér eftir á aðfangadag. Smári bara eldaði sína eigin útgáfu og þetta var bara meiriháttar hjá honum. Við borðuðum reyndar mjög seint, eða eitthvað rétt fyrir 10, stefnum á hálftíu næstu jól.

Svo er HM loksins byrjaður að labba. Það bara gerðist á aðfangadag. Hann var nú reyndar farinn að labba á milli okkar og húsgagna og svona, en nú er hann bara óstöðvandi og labbar óstuddur og ókvattur út um allt. Það er alveg magnað að heyra fótatökin á parkettinu þegar hann er berfættur. Jesús minn hvað það er rúsínulegt!

Í gær var svo smá svona jólaboð í "festrúminu" og þangað mættu nokkrir Íslendingar með mat og drykk. Það var bara hið huggulegasta, gaman að hitta einhverja svona þegar maður á enga fjölskyldu hér (reyndar á ég mjög stóra fjölskyldu hér en þekki hana bara ekki neitt).

Nú fer hversdagurinn að koma. Ég er að hugsa um að leyfa honum að koma bara á morgun því þá verð ég að taka upp þráðinn í lærdómnum. Ég er alveg með hnút í maganum því ég er ekki á áætlun ef ég á að ná að komast yfir allt efnið fyrir prófin....úff púff!

En best að njóta dagsins í dag. Hér er yndisleg pönnsulykt og jólastemmning bara.

Hmm...hvaða nammi á ég að gúffa í mig núna.....?

föstudagur, desember 23, 2005

Takk stelpur mínar fyrir falleg orð.
Jæja, nú komu jólin bara. Læddust einhvernvegin aftan að mér. Það er furðulegt með mig og jólaskapið. Ég er alltaf í rífandi jólastuði voðalega snemma, svona í lok nóvemer og byrjun desember. Svo er eins og það bara sé búið, þangað til á Þorláksmessu eða jafnvel bara á aðfangadag. Jólaskapið kom einmitt aftur í dag, eða eiginlega bara svona um sjöleytið í kvöld. Þá vorum við fjölskyldan í verslunarferð í ISO, hinni títtnefndu búð hér handan við hornið. Eyddum auðvitað allt of miklu, enda í einni af dýrustu búðum bæjarins. En þetta er allt saman þess virði. Maður verður að leyfa sér stundum að leyfa sér aðeins meira. Aðalatriðið er samt auðvitað fjölskyldustundirnar. Ég og aðrir meðlimir hennar hlökkum ósjórnlega til að sjá svipin á hvoru öðru þegar við opnum pakkana. Svo verður auðvitað frábær matur. Að þessu sinni önd, ætlum að prófa nýja uppskrift, það verður mjög spennandi að smakka.

En eins og svo oft áður þá tókst mér ekki, sökum aumingjaskaps og almennrar leti að senda nein jólakort, hvað þá að kaupa þau og skrifa á þau. Það er líka bara allt í lagi þannig séð, því ég fékk ekki eitt einasta, þannig að ég þarf ekki að hafa alveg eins mikinn móral yfir því (hehehe).

En það þýðir ekki að ég sé ekki að hugsa til fjölskyldu minnar á Íslandi, í Noregi, í Svíþjóð og á himnum. Ég geri því eins og ég gerði um síðustu jól og sendi hér með rafræna en þó aðallega hugræna jólakveðju til allra í fjölskyldunni minni, allra vina og vinkvenna minna, í hvaða landi sem þeir eru akkrúrat þegar þetta er lesið.

Að öllu bulli slepptu, sem sagt:

Gleðileg jól, allir saman!

fimmtudagur, desember 22, 2005

þriðjudagur, desember 20, 2005

ég skil...það er semsagt pís of keik að setja inn myndir hér. Jííí, gaman, nú er von á fleiri myndum og ég ætla að drífa í því að setja upp albúm aftur...bara ekki alveg núna, er svo bissí að jólast.
En þetta er semsagt Helgi Magnús á 1. árs afmælisdaginn sinn, 5.október. Posted by Picasa

mánudagur, desember 19, 2005

Helgin ofl.

Jæja, kominn tími til að blogga aðeins. Við erum búin að hafa það gott um helgina. Létum loksins verða að því að drullast á Spiseloppen, eða sko ég lét Smára gefa mér það í afmælisgjöf (pantaði borðið meira að segja sjálf). Vá hvað það var spes. Aðkoman alveg hræðileg og klósettið viðbjóður (með smurningu á setunni) en salurinn bara kósý, þjónustan svona þokkaleg en maturinn var bara ÆÐISLEGUR! Það er ekki spurning að við hjónaleysin eigum eftir að fara þangað aftur. Við borguðum 560 kall fyrir hreindýrasteik, grænmetisrétt, 1/2 rauðvín, tvo deserta og kaffi og eitt kókglas. Þetta var sko alveg hverrar krónu virði og vel það. Jæja, eftir matinn fórum við í smá labbitúr um Christianshavn og þræddum nokkrar götur sem við höfum ekki labbað áður og vorum svo bara komin heim svona um hálf ellefu. Helgi Magnús var í fyrstu næturpössuninni á 5.hæðinni og gekk hrikalega vel þangað til hann tók upp á því að vakna klukkan hálf sjö, barnapíunni til ómældrar ánægju. Aftur á móti sváfu foreldrarnir langþráðum samfelldum svefni alla nóttina og vöknuðu ekki fyrr en hálf eitt! Um kveldið kom hún svo og spúsi hennar í spil og mat og var það hið huggulegasta. Nú get ég stært mig af því að hafa spilað popppunktsspilið og unnið líka!
Sunnudagurinn fór svo í smákökubakstur Smára og Regína gerði lítið annað en að sofa og drekka kaffi og safna samviskubiti yfir því að vera ekki að læra. Jú hvaða vitleysa, ég þvoði auðvitað helling af þvotti og þreif svefnherbergið. Það var heldur betur bætt fyrir samviskubitið í lærið í dag því ég setti persónulegt met í hagfræðilestri og þau undur og stórmerki hafa auk þess gerst að mér er farin að finnast hún bara virkilega skemmtileg. Ekki nóg með þetta, heldur afrekaði ég líka að fara niðrí skóla og hitta þar "coachinn" minn og ræða við hana hugmyndir um lokaritgerð. Já ég get bara verið ánægð með afrakstur dagsins og síðustu daga og stefni bara á að halda því þannig.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Maður verður alltaf að vera eins og allir hinir...skrifaðu nafnið þitt í komments og...


1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.

það væri algjör bónus ef þeir sem kommenta venjulega ekki gerðu það núna, er annars nokkur að lesa þetta drasl?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Jæja loksins dreif ég í þessu:

Hej.
Jeg er en islænding som ser tit jeres vejrprogram med stor fornøjelse, foruden en ting som jeg simpelt hen ikke kan tåle at se på længere. Jeres kort af Island er helt forkert! Jeg undrer mig over hvorfra i har al den is der ligger over hele landet på TV skærmen hver eneste aften. Jeg foreslår at jeres dygtige medarbejdere kigger på sagen og retter denne forfærdelige fejl.
På forhånd tak,
Regína Hjaltadóttir.

-tölvupóstur sendur til TV2. Skyldu þeir gera eitthvað í þessu?

sunnudagur, desember 11, 2005

Vá hvað síðustu dagar hafa verið ömurlegir. Ég er búin að vera lasin og er bara rétt núna að jafna mig. Ekki búin að fara í eitt einasta próf en tek sjúkrapróf í janúar. Í dag leiddist mér svo mikið að mér fannst ég vera Palli þegar hann var einn í heiminum. Ég fór samt út með HM og leyfði honum að róla aðeins og fór svo út í búð en þó að fullt af fólki væri á vegi okkar fannst mér ég samt vera ein í heiminum. Undarleg tilfinning sem ég fæ oft. Er ég biluð? Furðulegt hvað humørinn bara sveiflast upp og niður stundum óforvarendis. Ég er alveg búin að vera voða glöð og ánægð með lífið í þó nokkurn tíma og svo bara er eins og að jörðin gleypi mig stundum og sogi mig niður í eitthvað hyldýpi sem erfitt er að komast upp úr. Þar er ég einmitt núna. Ég sé nú samt glitta í ljós...kannski jólaljós bara. Best að drífa sig í átt að því...

fimmtudagur, desember 01, 2005

jamm...

Æ, hvað það er orðið jóló og kósý hjá okkur. Við erum búin að vera voða duglega undanfarna daga að gera fínt hjá okkur. Smári fór bara að eigin frumkvæði og náði í bor og boraði eins og óður maður og áður en ég vissi af voru komnar langþráðar hillur inn til Benna og nýtt, brilljant skrifborð í stofuna og fleira smálegt. Þetta er að verða snilldaríbúð bara, þó ég segi sjálf frá. Ekki seinna vænna en að fara að koma sér fyrir eftir 3ja og hálfs árs búsetu í DK.

En að öðru alls óskyldu máli...Hvað er með þessa sviðshönnun í nýja Kastljósinu? Það er eins og týnt hafi verið til einhverju afgangsleikmunadrasli úr geymslunni í sjónvarpshúsinu og því öllu hrúgað á settið, kveikt á einhverjum ljóskösturum og wuallahhhh....ÓGEÐSLEGA FLOTT. Mér finnst alveg erfitt að horfa á þáttinn núna. Ekki finnst mér settið mikið skárra á þessu nýja NFS en þó er það aðeins hóflegra. En nafnið...alveg ömó. Hefði átt að vera bara Fréttastofan, finnst mér...svona sjálfsánægjunafn, eins og þetta sé eina Fréttastofan á Íslandi...hehe. Já þeir ættu að ráðfæra sér við mig þessir gæjar ha?

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Alveg er merkilegt hvað ég er duglega að gera annað en það sem ég á að vera að gera...læra!!! En hingað og ekki lengra, nú er kominn tími til að standa sig! Eina svindlið í dag verður klipping. Ég er búin að ákveða að láta faxið fjúka og hlakka mikið til.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Viðbjóður dauðans!

Í gær átti ég viðbjóðslegasta morgun ever! Það byrjaði á því að þegar ég var nýkomin á fætur og á leiðinni á tojarann kemur Benni og ælir á gólfið og svo í klósettið. Mmmm...hver dreymir ekki um ælu svona í morgunsárið? Jæja, svo ætla ég að taka Helga Magnús upp úr rúminu sínu en geng alveg á þvílíkan kúkafýluvegg. Sá litli var með æðislegan súran niðurgang upp á bak...nammm!
Jæja, ég geng frá því máli og tel mig nokkuð seif, nema hvað að Benni bendir mér á kakkalakka í eldhúsinu, ekki einn, heldur tvo...vel stóra!

Takk fyrir bless, ég hraða mér út frá þessu ógeðslega heimili og niður á metróstöð (því nýja hjólið mitt er bilað). Nei, ógeðið hætti ekki að elta mig. Þegar ég er á leiðinni niður rúllustigan sé ég gamlan karl með einhvern mesta viðbjóð sem ég hef augum barið um æfina. Út frá kinninni hékk einkver viðbjóðsleg brún kúla, örugglega æxli, svipað stórt og golfkúla, dinglandi, glansandi ógeeeeeeð!!! Oj, ég fæ æluna upp í háls núna þegar ég hugsa um þetta.

Þetta stoppar ekki þarna...ó nei, því þegar ég fór á klósettið í skólanum, tók á móti mér þessi líka æðislegi kúkur í klósettinu með tilheyrandi lykt. Hvað er að fólki? Af hverju sturtar það ekki niður eftir sig? Og hvað er málið með klósettpappírinn alltaf út um allt gólfið?

föstudagur, nóvember 04, 2005

Jæja, Frissa kæra vinkona er mætt aftur á bloggið.....veiii

...og ég var að klára síðustu hópavinnuna, EVER vonandi, a.m.k. í þessu námi. Það er auðvitað búið að ganga á ýmsu eins og von er....helmingur hópsins gerði ekkert og svona...æðislega gaman!

Svo er bara næsta próf og verkefni og próf og verkefni og próf og próf og próf.

wish me luck!

þriðjudagur, október 25, 2005

Brot úr degi

vei vei vei...loksins er ég heil. Ég á mitt eigið nýja hjól sem enginn hefur hjólað á nema ég sjálf. Mér finnst ég þvílíkt hafa öðlast frelsi... er ekki lengur háð þessum déskotans metró eða sveittum og andfúlum strætó....yess!!! Ég kýs sko heldur mína eigin svitafýlu eftir heilsusamlegan og hressandi hjólreiðatúr í skólann eða hvert annars sem ég hef þörf fyrir að fara. Þá er bara eftir að græja HM svo hann verði maður með mönnum, farþegi á hjólhesti en ekki hinum fyrrnefndu metró eða strætó. Regngallinn var keyptur í dag, sömuleiðis stígvél og kuldaskór og bara barnastóllinn og hjálmurinn eftir og þá er það komið.

Já, það eru engin smá afrek í gangi. Maður er bara kominn á fullt í pólítíkina...he he he. Ég var að koma af, að sjálfsögðu allt of löngum, íbúafundi kollegísins þar sem kosið var í nefndir og er semsagt orðin fullgildur meðlimur í umhverfisráðinu...hohoho...GÍFURLEGT alveg. Gaman að því.

Að lokum: SAUMÓ HJÁ MÉR MIÐVIKUDAGSKVÖLD KLUKKAN 9.

sjáumst!

sunnudagur, október 23, 2005

Fríð búið

Úff hvað mér finnst erfitt að haustfríið sé búið. Alvara lífsins tekur við á morgun og ég býst við mánudegi með stóru M-i á morgun. Ég gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera, svona skólalega séð en náði þó að gera slatta hér heima. Við erum búin að vera svolítið að breyta og bæta og þetta er bara allt hið heimilislegasta og allir ánægðari með nýja fyrirkomulagið en það gamla.

Ég fæ alltaf einhvern móral í þessum fríum, finnst að ég ætti að gera eitthvað allt annað en ég er að gera. Fara í ferðalag til dæmis og svona. Það er bara ekki mikið fjárhagslegt svigrúm þegar maður er í námi og málið er bara að sætta sig við það og gera það besta úr því litla sem maður hefur úr að moða. Enda tekst það nú bara með ágætum. Við erum sem betur fer mjög heimakær öll og eigum ekki erfitt með að láta okkur líða vel saman. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég er orðin ansi þreytt á kollegíumhverfinu og er farið að dauðlanga til að stinga aðeins af í einhverja krassandi paraferð, engin börn, uppvask eða þvottur.

Það er auðvitað óraunhæft amk í bili. Nú er það skólinn sem tekur allan minn tíma næstu 8 vikurnar eða svo. Ég er að reyna að fyrirbyggja samviskubitið yfir að vanrækja fjölskylduna og heimilið. Vanrækslan verður bætt með jóladúllerí, smákökubakstri, dekri og öðru þvíumlíku í jólafríinu sem mér skilst að byrji um miðjan desember. Vá, hvað það verður geggjaður léttir það frí. Þá verð ég búin með alveg helling af prófum og næ þeim auðvitað öllum með stæl...vona ég.

Jæja, ætli það verði ekki lítið skrifað hér inn næstu vikurnar. Ég hef heldur ekki frá neinu að segja býst ég við og heldur ekki tíma né orku í að vera mikið að blogga.

Bið ykkur bara vel að lifa þangað til næst, en auðvitað heldur maður áfram að kíkja á netið og svona...

fimmtudagur, október 13, 2005

Hann Helgi Magnús vill endilega koma á framfæri thøkkum til allra sem komu í afmælisveisluna á sunnudaginn..."takk fyrir frábærar gjafir, nú hef ég loksins skemmtilegt dót til ad leika mér med". Hann er annars búnn ad vera veikur alla vikuna, med vont kvef og hita og er líka ad fá fjóra jaxla sem hefur audvitad sín áhrif. Smári er búinn ad vera fastur heima med hann og ég varla búin ad sjá hann neitt, thví ég er alltaf í skólanum.

Ég sit hér uppí skóla núna og er ad undirbúa mig fyrir munnlegt próf sem verdur i fyrramálid. Djøfull verd ég feginn thegar thad er búid. Madur hefur varla neitt samband vid umheiminn thessa dagana og ætli ad thad verdi ekki bara thannig út thessa ønn. Jæja alltaf gott ad taka tarnir, er thad ekki bara? Sá uppskerir sem sáir...hmmm.

fimmtudagur, október 06, 2005

Alveg á kafi

Æ, fyrsti afmælisdagurinn hans Helga Magnúsar leið í gær eins og venjulegur dagur. Ég er alveg á kafi í verkefnavinnu í skólanum og má ekkert vera að því að vera mamma en bæti honum þetta upp á sunnudaginn. Semsagt öllum sem vilja koma í afmæli í Børnerummet klukkan 3 er hér með boðið.

Við skilum þessu hópaverkefni af okkur á mánudaginn og eigum svo að presentera á þriðjudaginn. Hópavinnan er búin að ganga rosalega vel, reyndar hef ég aldrei áður verið í svona góðum hóp. Meira að segja getur vel verið að ég þurfi bara að hætta að segja "ég þoli ekki hópavinnu". Það er líka bara eðalfólk í þessum hóp, þrjár dúndurstelpur, ég, Gyða Íslendingur og Rita frá Litháen.

Nú ætla ég bara að láta verða að því að fara senmma að sofa og taka svo morgundaginn með trompi.

góða nótt mín kæru...

fimmtudagur, september 29, 2005

Baktal

Voðalega finnst mér ömurlegt þegar fólk þarf að úthúða öðru fólki, eins og ég rakst á á netinu áðan. Nánar til tekið var verið að tala eða frekar skrifa um Jónínu nokkra Benediktsdóttur á þekktum, íslenskum net-fjölmiðli . Mér finnst enginn eiga skilið svona umtal í fjölmiðlum. Það er ekki hægt að stjórna því sem fólk talar um sín á milli en það er hægt að hafa siðferðislegar reglur um svona lagað í fjölmiðlum. Nú getur vel verið að þær séu til og hugsanlega leyfi ekki að meinyrði, illt umtal eða slúður séu birt á netinu, ég þekki það ekki en vona að í okkar litla og nútímalega landi séu þessar reglur til í einhverri mynd.

Mér finnst eiginlega brjóstumkennanlegt að þetta fólk, sem mér sýnist vera fáir aðilar sem skrifa oft, hafi virkilega ekkert annað betra við tímann að gera en að velta sér upp úr annara manna vandamálum og ætti kannski frekar að nota tímann í að einbeita sér að bæta sitt eigið líf. Væri heimurinn ekki betri og friðsamari ef allir nýttu tíma sinn og orku í það?

Ég viðurkenni að ég hef tekið þátt í baktali, bæði með því að tala og að þeigja. Ef út í það er farið, veit ég ekki hvort er verra. Ég held að það sé best að hlusta á samviskuna sem er ég trúi að sé inni í okkur öllum og baktala ekki aðra. Það framkallar bara neikvæðar hugsanir og best að kæfa það strax í fæðingu. Það er ekki nema sanngjart að gefa þeim sem rætt er um tækifæri til að verja sig. Þannig að maður ætti ekki að segja neitt um aðra sem maður myndi ekki segja við aðra.

Mér varðar bara akkúrat ekkert um einkalíf fólks sem ég í ofanálag þekki ekki neitt og hef ekki einu sinni séð. Þetta Baugsmál virðist vera voðalega ljótt allt saman og greinilega miklar tilfinningar í gangi. En við hin, "almenningur", eigum auðvitað rétt á upplýsingum um viðskiptalegar fréttir af þessu máli. Ég held að fjölmiðlar ættu að hlusta á samviskuna og birta ekki baktal í fjölmiðlum en sinna frekar upplýsingaskyldu sinni sem við eigum kröfu á og birta það sem máli skiptir en ekki eitthvað ómerkilegt slúður. Eða er almenningur kannski ekki samviska fjölmiðlanna lengur, heldur eigendur þeirra?

Ég ætlaði að setja linkinn á þetta baktal um Jónínu í textann en hætti við, því þá finnst mér ég vera að taka þátt í þessu rugli.

Nú er hver ábyrgur fyrir sjálfum sér!

miðvikudagur, september 28, 2005

Don´t worry, be happy!

æ hvað þetta er eitthvað grár dagur. Ég fór ekki í skólann því Smári og HM eru veikir og maður er í því að hugsa um liðið og þrífa. Þetta var eiginlega ekki heppilegur tími fyrir veikindi því það er nóg að gera í skólanum og hópavinna í gangi og allt. Svo er ég líka eitthvað slöpp en samt ekki beint veik...óþolandi, getur þetta ekki bara verið annað hvort eða?

Ég reyni bara að brosa og hugsa jákvætt, setti Spilverkið í spilarann og svo Abbey Road og eldaði svo grjónagraut handa okkur. Maður á víst ekki að vera upptekinn af því sem maður getur ekki breytt og ég get víst ekki breytt því að Smári sé veikur og dagurinn hafi þess vegna ekki farið í það sem ég vildi. Þess vegna ætla ég ekki að sóa orku í að svekkja mig á því, frekar bara að nota tímann í að njóta þess að vera heima með yndislegustu strákum í heimi og fegra heimilið.

Svei mér þá, kíkir ekki bara sólin akkúrat núna á milli skýjanna. It´s a sign!

mánudagur, september 26, 2005

Klukk

Loksins var ég klukkuð, hjúkk að ég var ekki skilin útundan mar. Hmmm, já fimm staðreyndir um mig sem ekki allir vita. Ókei:

  1. Ég fæ mér morgunmat áður en ég bursta tennurnar.
  2. Ég er óforbetranlegur nautnaseggur.
  3. Ég þoli ekki sjálfstæðisflokkin og fæsta sem eru í honum. (sorrý Sigurlaug)
  4. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða ógeðslega fræg leikkona og söngkona.
  5. Mig dreymir um að eiga hús í Flatey á Breiðarfirði, eitt stykki á Spáni, eitt í Hafnarfirði, kannski eitt í Reykjavík, veit það ekki og eitt í Danmörku. Þetta er bara svona til að byrja með svo ég þurfi aldrei að búa of lengi á sama staðnum því ég er flökkukind og flækingssál. Ég veit að þetta er óraunhæft já já en ef maður á ekki sína drauma hvað á maður þá?
Ja hérna... ég hélt að ég yrði í algjörum vandræðum með þetta en ég gæti sko alveg haldið áfram. Kannski að ég komi með framhald seinna.

þriðjudagur, september 20, 2005

Já já, ég hef bara ekkert að segja...gaman að segja frá því.

fimmtudagur, september 15, 2005

Fyrir ekki svo löngu síðan fannst mér sólarhringurinn heldur langur. Núna er hann allt of stuttur.

þriðjudagur, september 13, 2005

já já, þið segið það....

sunnudagur, september 11, 2005

geeegt agera

Jeminn, ég er alveg að drepast úr stressi. Það er rosa pressa í gangi í skólanum. Mikið af mikilvægum verkefnum, stór próf í desember og svo þarf ég að finna fyrirtæki til að skrifa ritgerð fyrir, fyrir 1. nóvember. Vá þrisvar sinnum "fyrir" í einni setningu. Svo er maður náttúrulega tveggja barna móðir, stundum held ég reyndar að ég sé þriggja barna móðir....hehemm, best að fara ekki nánar út í það. Stundum finnst mér þetta allt saman óyfirstíganlegt en veit samt innst inni að ef ég vil láta þetta ganga upp þá geri ég það bara. Ég verð orðin róleg um leið og ég er búin að finna fyrirtæki og ákveða hvað ég ætla að skrifa um, þarf semsé að ákveða það líka fyrir 1. nóv. Ég er a.m.k komin á smá skrið, búin að kaupa tvær bækur og aðeins byrjuð að lesa. Og í sambandi við ritgerðina er ég að pæla í íslensku fyrirtæki sem er líka í Danmörku...svona uppá framtíðarvinnu á Íslandi. Sneeeðugt hmm?

þriðjudagur, september 06, 2005

hmm..jæja, bara 400 grömm farin þessa vikuna. Enda er ég búin að svindla doldið og verð að viðurkenna að ég er orðin ansi þreytt á því að þurfa að borða svona mikið grænmeti. En það þýðir ekkert að gefast upp....takmarkinu skal náð!

sunnudagur, september 04, 2005

Hasar

Jæja, fórum loksins út saman fjölskyldan í dag. Við skelltum okkur á sirkus Arena. Voða löng sýning en flott. Tókum lest heim og ekki vildi betur til en að allir farþegar voru beðnir að yfirgefa lestina því það var einhver yfirgefin taska í henni. Úúú, hasar. Það skrítna var að þetta snerti mig ekki, ég var ekkert stressuð eða hrædd. Hugsaði bara um hvar væri best að ná strætó heim.

föstudagur, september 02, 2005

Veikindi

oj...hér eru allir búnir að vera veikir í nokkra daga. Uppköst og niðurgangur og þesskonar skemmtilegheit. Namm. Ég er öll að skríða saman sem betur fer, held að ég treysti mér meira að segja út í búð. Uppvaskinu er nánast slátrað og allt að færast í eðlilegt horf á heimilinu. Kannski að það verði meira að segja elduð íslensk kjötsúpa í kvöld. Nammi namm!

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Í fitufréttum er þetta helst...

...það fóru 700 grömm þessa vikuna. Var pínu svekkt að það hafi ekki verið meira en aftur á móti ánægð með að vigtin fer þó niður en ekki upp.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Jæja, þá er fjölskyldan sameinuð á ný. Yndislegt, bara yndislegt. Helgi Magnús ræður sér ekki fyrir kæti, skríkir og hlær. Mikið er gott að vera saman.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Allt að gerast

Loksins, loksins koma strákarnin mínir annað kvöld. Það er eins og þeir hafi verið í burtu í þrjá mánuði en ekki þrjár vikur. Ég get ekki lýst því hvað ég hlakka til að fá þá aftur heim. Það verður heldur betur spennandi að sjá viðbrögðin hjá HM, kannski að hann sé bara búinn að gleyma þeim. Svo er hann farinn að gera fullt af nýjum hlutum síðan þeir fóru svo það verður líka skrítið fyrir þá að sjá hann. Talandi um stubbinn litla, þá er allt smám saman að ganga betur á vuggestuen. Ég hef verið að sækja hann snemma þessa vikuna svo þetta hefur verið hálfgerð aðlögun í annað skipti.

Í næstu viku verður svo allt á fullu, ég þarf að kaupa fullt af námsbókum fyrir ca 2000 kall, takk fyrir túkall! Brjálað að gera í skólanum og ég þarf líka að fara að finna fyrirtæki til að skrifa verkefni fyrir. Það er bara verst að ég hef ekki hugmynd hvernig verkefni mig langar að gera eða fyrir hvern. Dæs, pressan maður. Svo er ég ekki ennþá búin að drullast til að sækja um SU, það er bara tómt vesen og leiðindi að fylla þetta drasl út.

En jæja, best að drífa sig í háttin svo ég geti safnað kröftum fyrir tiltektina á morgun. Ég þarf nefninlega að breyta þessu rónalega heimili í vistarverur sem hæfa fjögurra manna fjölskyldu. Það á örugglega eftir að taka allan daginn. Gaman gaman en ég hlakka svoooo til að fá strákana heim!

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Bara skáldleg í dag...

Já, þetta var bara góður dagur, þessi fyrsti í nýja bekknum. Allt annað andrúmsloft í gangi og rúsínan í pylsuendanum var að það er íslensk stelpa í bekknum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hitti Íslending yfir höfuð í skólanum.

Ótrúlegt, kannski að lukkan sé að snúast mér í hag...því syng ég þennan brag...í dag...er þetta ekki frábært lag?

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er ég loksins búin að bæta inn hlekkjum, þannig að þetta fer að líkjast almennilegri bloggsíðu bara. En ég vil fá strákablogg, ég skora hér með á alla kærastana til að fara að blogga...þetta er engin stelpuíþrótt sko!

Ho ho!

Regína minnkar.

Var að stíga af vigtinni og bara verð að deila þessu með heiminum. Það eru nefninlega 1,7 kíló farin á einni viku og 7,2 kíló í allt frá því að ég var þyngst.

DDV rúlar!

mánudagur, ágúst 22, 2005

Niðurstaða

Well, well, well....búin að hugsa og hugsa og komin er niðurstaða, loksins. Ég fór í skólann í dag og fékk að skipta um bekk, þannig að nú er ég komin í námið á ensku, nenni ekki þessum dönum lengur. Það er örugglega miklu betra að vera bara með útlendingum í bekk og tala ensku. Ég er orðin hundleið á því að vera eini útlendingurinn.

Ekki byrjaði fyrsti skóladagurinn vel á mánudaginn var. Mér leið bara eins og í sex ára bekk eða eitthvað. Það átti nefninlega að fara af stað hópaverkefni og kennarinn vildi fá lista yfir hópana og enginn vildi vera með mér í hóp! Ojjj þetta var ömurlegt maður. Þetta endaði með því að kennarinn þurfti að draga út hóp sem mér var þröngvað inní. Voðalegt mál! Ohhhh, hvað er að þessu liði? Ein sagði sko "við erum ekkert að reyna að vera vond, við bara erum svo vön því að vera í okkar hóp og þekkjum hvort annað og vitum hvernig við vinnum saman" dööööhhh, bla bla bla. Vá hvað ég er ógnandi maður!

Sem betur fer er ég farin úr þessum þroskaða bekk og þarf ekki að gera mig að fífli fyrir framan þetta lið. Ég var alveg komin á það að hætta bara í skólanum og fara að vinna og flytja svo bara til Íslands. Gleyma bara skóla forever, ég fékk bara alveg upp í enni af þessu helvíti.

En nei nei, það þýðir ekkert annað en að bretta bara upp ermar og ydda blýjantana og spýta í lófana og rétta úr bakinu og allt það. Hana nú! Djöfull verður þetta erfitt samt, omægod ég er með þokkalegan hnút í maganum yfir þessu. Gulrótin er samt sko 400 þúsund kall í mánaðarlaun, raunhæft er það ekki? Ég hlýt að geta lagt á mig 2 ár í bókalestur og sjálfspíningu fyrir betri laun en það sem ég fengi sem ómenntuð...hmmm?

Það sem gerir þetta líka bærilegra er að ég er búin að finna áhugavert efni fyrir 3.ja árið, nebbla bissness enska með aukafagi eins og tildæmis kommunikation. Best að hugsa samt ekkert allt of langt fram í tímann, það getur ýmislegt breyst í kollinum hennar Regínu sem skiptir um skoðun jafn oft og sokka og er alltaf jafn sannfærð í hvert skipti. Já það er ekki alltaf gaman að vera hún.

En aumingja Benni minn þarf að vera í 2 til 3 ár lengur í Danmörku, hann sem þráir ekkert heitara en að flytja til Íslands. Mér finnst ég ferlega eigingjörn og ósanngjörn mamma að halda honum hér en samt veit ég að þetta borgar sig á endanum. Við verðum bara að finna einhverjar leiðir til að láta honum líða betur hérna og gera honum lífið bærilegra á meðan hann er hér. Hann er ekki alveg sá meðfærilegasti nefninlega. Gelgjan er alveg á fullu og meira að segja fyrsta graftarbólan farin að láta á sér kræla og barnið bara 10 ára! Jesús, ég vona að hann verði ekki með unglingaveikina lengi.

Jæja, það var aldeilis að það frussaðist úr málbelgnum hjá mér í dag...hver nennir annars að lesa svona langt blogg? Ekki nenni ég því oft.

...þangað til næst, góðar stundir.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

hmm...hugsi hugsi hugsi

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

#(/"&%($"#%(($?'>-*/!&%$#"*+

ó mæ god...allt hringsnýst í höfðinu á mér. Ný plön kannski í fæðingu. Að minnsta kosti miklar pælingar fram og til baka. HM lætur öllum illum látum og ég ætla að láta lækni kíkja á hann, líst ekki á þetta hjá honum. Ég er eins og undin tuska á kvöldin og nenni lítið að blogga. Nú hef ég aðeins kíkt í heim einstæðra mæðra.

Þrjúhundruðþúsundfalt HÚRRA fyrir þeim!!!

föstudagur, ágúst 12, 2005

Litli vælukjói

Litli strákurinn minn er orðin nýr karakter eftir að pabbi hans og stóri bróðir fóru til Íslands. Hann mótmælir öllu og er sífellt vælandi. Ferlega skrítið. Ekki datt mér í hug að þetta hefði svona mikil áhrif á svona lítið barn. Hann vill ekki einu sinni sofna sjálfur á kvöldin eins og hann gerði alltaf, þannig að nú er ég með hann í prógrammi. Ekkert gaman. Vona að þetta fari nú að skána og hann fari að taka gleði sína á ný.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Buin að redd'essu...saumó as planed í kvöld.

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Ansans ári!

Debetkortið mitt er útrunnið og ég peningalaus og Smáralaus. Verð líklegast að aflýsa saumó annaðkvöld.

bömmer

Dí...loksins þegar maður er einn í koti og hefur tíma fyrir sjálfan sig þá þarf maður auðvitað að eyða honum í þrif. Nei nei, það er ágætt, mér finnst amk best að þrífa þegar ég er ein, þá er enginn að flækjast fyrir mér á meðan.

Mikið déskoti er Earl Grey annars gott með hunangi!

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Bla...

Allt í einu hætti blár að vera uppáhalds liturinn minn, hann sem er búin að vera það alveg síðan ég var lítil. Kannski að maður sé að þroskast eitthvað haaa?

Ákvað semsé að breyta bloggútlitinu í kjölfarið ( tek það fram að brúnn er ekki uppáhalds liturinn minn sko) ...set fítusana inn þegar ég er í stuði. Nú ætla ég að hlamma mér í sófann og leita að einhverju þolanlegu drasli í kassanum til að sóa tímanum svona rétt fyrir svefninn.

Á morgun er svo planið að sækja um SU...gangi mér vel!

Grasekkja

Það er skrýtin stemmning hjá mér þegar þetta er skrifað. Ég sakna strákana minna alveg svakalega mikið og finnst voða tómlegt án þeirra. Ég verð bara að passa mig á því að hafa nóg að gera þennan tíma sem þeir eru í burtu. Það verður svo sem ekki vandamál því af nógu er að taka. Skólinn hjá mér byrjar eftir viku og það er ýmislegt sem ég ætla að klára að gera áður. Mikið verður skrýtið að byrja í skólanum og enginn Smári heima til að tala við um daginn sem leið....snökt snökt...

laugardagur, ágúst 06, 2005

hmmm...jæja, er ekki alveg að standa mig í þessu bloggi. Einhver ládeyða í gangi í þeim málum.

Allt er gott að frétta, feðgarnir á leið á klakann á morgun og ætla að vera í 3 vikur. Það verður skrítið að vera hér ein með lilla en samt gott að vissu leyti. Ég sé fram á sjónvarpsfrí og grænmetisát svo eitthvað sé nefnt. HM stóð upp í gær, hann bara varð að sjá hvað var ofan í skúffunni í nýja skenknum og var meira að segja kominn langt með að rífa hana úr...hehehe krúttið.

Well, that´s all folks, í bili.

mánudagur, júlí 25, 2005

Haust í lofti...

Á meðan Íslandsbúar baða sig í sólargeislum er grátt og blautt hjá okkur Hafnarbúum. Mér finnst það bara mjög fínt, var satt að segja orðin þreytt á þessum hita. Þetta inniveður gefur mér orku og ég er alveg að farast úr dugnaði. Búin að taka þvílíkt í gegn og plana breytingar og punt fyrir veturinn.

Þetta haustveður minnir mann á að stutt er í alvöruhaustið og hversdagslífið fer að taka við. Smári byrjar í skólanum 1. ágúst og Benni þann áttunda og ég einhverntíman um miðjan ágúst. Helgi Magnús fékk stysta sumarfríið, hann byrjaði fyrir viku á vuggestue. Það gengur mjög vel, við erum bara með hann í rólegri aðlögun, fyst við höfum góðan tíma. Ég skildi hann eftir í fyrsta skiptið í dag og skellti mér EIN á Fisketorvet í tvo tíma og eyddi mörgþúsund ímyndunarkrónum í allskonar hluti sem mig vantar.

Yndislegt.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Í stuttu máli...

Jæja, við erum löngu komin úr ferðalaginu. Fórum til Diernæs strandar og leigðum hytte eða kofa. Ferlega fínt bara. Yngri strákurinn varð veikur á leiðinni þangað, fékk 39 stiga hita en var orðinn fínn daginn eftir. Ætli það sé ekki tannatakan sem veldur. Tennur númer sjö og átta eru nefninlega við það að koma upp. Svo afrekaði hann líka að byrja að skríða, þannig að nú er hann sífellt í könnunarleiðangri um alla íbúðina, voða gaman.

Já við vorum ánægð með staðinn og förum örugglega aftur í svona ferð, kannski á annað svæði, bara svona til að sjá meira. Annars var þetta á góðum stað, rétt við landamæri Þýskalands og nýttum við okkur það að sjálfsögðu og skruppum í dagtúr til Flensborgar. Ég bjóst nú ekki við miklu, þannig að borgin sú kom mér á óvart í kósýheitum og fegurð.

Það sem fleira var gert í stuttu máli þetta; farið í Løvens hulle í Odense, slæpast á ströndinni, farið í gókart, billjard, minigolf, "hoppepude", étin pizza í Haderslevi, Sønderborg skoðuð, farið í Sommerland syd, spilað og étið og haft það huggulegt. Held ég sé ekki að gleyma neinu.

Á heimleið varð svo eldri strákurinn veikur og fékk líka 39 stiga hita og ældi greyjið en þetta stóð yfir stutt sem betur fer, hann var orðinn hress tveimur dögum seinna.

Allt í allt, góð ferð sem hristi okkur saman þó stutt væri.

mánudagur, júlí 11, 2005

hiti og sviti

við ætlum í ferðalag

fimmtudagur, júní 23, 2005

Hann á afmæli í dag
hann á afmæli í dag
hann á afmæli hann Smári
hann á afmæli í dag

Hann er þrjátíuogþriggja í dag
Hann er þrjátíuogþriggja í dag
Hann er þrjátíuogþriggja hann Smári
Hann er þrjátíuogþriggja í dag

Veiiii!

sunnudagur, júní 19, 2005

Mamma er löngu farin....nenni ekki að blogga þessa dagana, ekki að það hangi sérstaklega saman sko.

sunnudagur, júní 12, 2005

Jæja, lítið bloggað meðan mamma er í heimsókn. Alltaf er hún jafn óheppin með veður. Í þriðju heimsókn hennar til kóngsins köben fær hún ekkert nema leiðindaveður en góðan félagsskap. Já það er eins gott að voga sér ekki að vera neikvæður á meðan Pollýanna þykist hér ráða ríkjum.

Annars er þetta helst; HM hættur á brjósti fyrir tveimur dögum og mamman orðin frjáls ef svo má segja. Vei!

Allir kátir og enginn reiður, það er nú fyrir öllu.

Mig langar á Duran Duran og U2 tónleika...buuu-huuuu..

Túrúlú!

mánudagur, júní 06, 2005

Hvar er amman?

Ég horfi oft á morgunsjónvarpið á TV2, Go´morgen Danmark. Þátturinn er ágætur út af fyrir sig, þægilegur í morgunsárið meðan maður nuddar stýrurnar úr augunum og fær sér kaffi. Mér finnst samt ferlega asnalegt hvernig fólk er ráðið í þáttinn. Þau standa sig reyndar alveg með prýði þau sem eru þarna en það vantar alveg jafnvægi í þetta. Kvenkynið er ungt, fallegt og sexý en karlkynið komið með grátt í vanga eða ýstrubelg og kynþokkinn á undanhaldi. Annars er mér alveg sama um kynþokkan, þarf það endilega að vera skilyrði fyrir því að vera í sjónvarpi? Já, að minnsta kosti gildir það um konur. Auk þess er ég viss um að meiri hluti áhorfenda á þessa þætti a.m.k. eru konur! Eru það þær sem vilja endilega hafa þessar ungu sexý konur á hverjum morgni? Ég held einhvernvegin ekki. Það eru frekar þeir sem stjórna og ráða fólkið á sjónvarpsstöðinni, ég leyfi mér að fullyrða að það séu karlmenn. Svo þegar maður fer að hugsa málið er þetta víðar svona. Ég væri alveg til í að hafa svo sem eins og eina ömmu í þættinum, gráhærða, mjúka og hrukkótta. Rosalega væri það kósý. Hún gæti til dæmis kennt okkur yngri konunum að prjóna, hekla og sauma, ekki veitir af og áhuginn er örugglega fyrir hendi.

Hvað kom annars fyrir kvennabaráttuna? Ég man svo vel eftir því þegar ég var lítil þegar kvennalistinn var og hét og verið var að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Þá hugsaði ég með mér hvað ég væri nú heppin að þegar ég yrði fullorðin yrðu kynin jöfn og búið væri að leiðrétta ójafnréttið. Konur myndu sko alveg fá sömu laun og karlar og þær væru líka bankastjórar og forstjórar. Annars getur maður svo sem líka kennt sjálfum sér um að einhverju leyti er það ekki? Það er nú ekki eins og maður sé að gera mikið í málunum sjálfur. Frekar situr maður frústreraður í sófanum og bíður eftir því að aðrir berjist fyrir rétti sínum.

Við ættum kannski bara að taka okkur saman stelpur og mæta með kröfuspjöldin niðrí bæ og berjast fyrir ömmu. "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!"

Ha?!

fimmtudagur, júní 02, 2005

Gott á mig!

Var að koma úr fýluferð alla leið niðrá Islandsbrygge. Við ætluðum að fara að skoða vöggustofuna hans HMs en það var ekki búið að opna hana. Þetta kostaði mikla göngu í grenjandi rigningu. Stákarnir héldu svo áfram í aðra fýluferð í bíó, ætluðu á Star Wars en hún var svo ekki sýnd fyrr en eftir tvo og hálfan tíma, þannig að þeir fengu sér bara sjeik og komu svo heim. Ég ákvað að labba heim og fékk út úr þessu hinn ágætasta göngutúr í skítaveðri.

Það besta við svona fýluferðir er að koma heim aftur...ahhh og fá sér kaffibolla og hlýja sér aðeins undir teppi.

P.S. Fíla eða fýla...hmmm fýla held ég.

miðvikudagur, júní 01, 2005

oj...

Grár dagur og ég læt mér leiðast. Kem engu í verk enda heilinn bara hálfvirkur út af svefntruflunum.

Sá litli vaknaði oft í nótt eins og undanfarnar nætur. Nú á að fara að taka á honum stóra sínum og gera eitthvað í málunum. Samkvæmt fræðunum á barn á hans aldri að geta sofið í gegnum nóttina í 11 til 12 tíma. Vá, ef það væri hægt væri ég önnur manneskja. Skrítið hvað maður venst þessu samt ótrúlega.

Ég er hætt að gefa honum brjóst á næturna og á daginn, hann sem sagt fær bara brjóst á morgnana og á kvöldin. Hann virðist bara vera sáttur við þetta sem betur fer. Spurning að fara að grípa til aðgerða og leggja í prógramm til að hann læri að sofna sjálfur, þá á hann að fara að sofa í gegnum nóttina líka.

Það er örugglega best að drífa bara í þessu áður en hann fer að geta sest eða staðið upp í rúminu og hvað þá áður en hann fer að tala. Frekar er ég til í að leggja á mig nokkur erfið kvöld og nætur en að halda þessu áfram endalaust. Við verðum að fá að sofa á næturna sérstaklega þegar ég er byrjuð í skólanum. Svo er auðvitað betra fyrir barnið sjálft að fá almennilega hvíld og djúpan svefn.

Legg málið í nefnd og fundinn verður heppilegur tími í prógrammið sem fyrst.

mánudagur, maí 30, 2005

Óþolandi ömurlegur kúnni í okurbúllunni

Dæs maður. Fór í ISO áðan sem er, fyrir þá sem ekki vita, matvörubúð í dýrari kanntinum, vonandi þarf ég ekkert að fara þangað aftur. Mig vantaði barnamat og fisk í kvöldmatinn og þar sem hvorutveggja fæst einmitt í einni og sömu búðinni, nemlig í ISO, fór ég þangað. Svo þegar ég kom að kassanum og búin að versla þetta plús aðeins meira auðvitað og búin að týna allt draslið upp á færibandið uppgötvaði ég að ég átti eftir að vigta kirsuberin....ohhh. Fullt af fólki í röð fyrir aftan mig og ég heyrði það alveg hugsa eins og ég geri alltaf sjálf...."hálfvitinn þinn!" Svo þegar ég kom að vigtinni var enginn takki fyrir kirsuber svo kassastrákurinn veifaði til mín með uppgjafarsvip að ég ætti bara að koma, sleppa því að vigta.

Jæja, kemur svo að aðal dæminu, mómentinu mínu. Helvítis draslið kostaði yfir 400 krónur! Ég var bara með 200 kall og 74 krónu flöskumiða. Svo stóð ég eins og asni og endurtók "firehundredeflefleflefle....?firehundredeflefleflefle....?" "Ertu alveg viss um að þetta sé rétt?" -Tek það fram að það var meira segja tilboð á barnamatnum! Jú jú allt rétt. Ég bara fór í baklás á staðnum, alveg eins og fáviti, tuðaði bara eitthvað að ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera, bíddu vantaði ekki hvað, hundrað og fimmtíu kall, leitaði í vösunum þó að ég vissi að þar væri ekki meiri peningur. Kassa gæjinn var farinn að rúlla augunum til samstarfsstúlkunnar, engum datt náttúrulega í hug að opna annan kassa þó að röðin væri orðin löng og dumkopfinn ég að tefja fyrir í þokkabót. Svo sagði hann, ég get bara dregið vörur til baka....svo byrjuðum við að týna til baka þangað til upphæðinni sem ég gat borgað var náð. Oooohhh, óþolandi helvíti að lenda í þessu.

Þetta kom reyndar mjög oft fyrir mig á Íslandi í denn. Þá var mér alveg sama og fannst þetta meira fyndið en hitt. Núna bara fór ég alveg í klessu. Skrítið. Kannski að það sé ekki sama hvernig maður er fyrirkallaður.

laugardagur, maí 28, 2005

Áfram stelpur!

Hryllilega var gaman í gær. Við vorum þegar mest lét held ég bara 18 stelpur hér úti að leika okkur í gærkvöldi. Fórum í brennó og bjóró...hehehe. Þetta verður örugglega endurtekið, kannski förum við í kýló líka og bara fleiri leiki.

Já, stelpur eiga líka að leika sér, á hvaða aldri sem er. Eitthvað annað en mömmó sem við erum í á hverjum degi. Tökum strákana til fyrirmyndar, þeir eru alltaf endalaust að leika sér.

mánudagur, maí 23, 2005

Bros...

Ég held að hin margumrædda Pollýanna sé komin í heimsókn til mín. Lífið er ekkert nema yndislegt. Rigning eða sól, skittirekkimáli. Fjölskylda og vinir, það er málið! Ég tekst brosandi á við þennan dag sem næstu daga...víííí!

laugardagur, maí 21, 2005

Jibbíkóla...

Jæja er ekki bara taka tvö á þetta Júróvisíon? Ég ætla að minnsta kosti að opna rauðvín og borða ís og íslenskt nammi þó að við séum ekki með. Jú jú, frat að við duttum út en óþarfi að fara í fýlu...það gengur bara betur næst hehehe.

Áfram Norge.....þeir eru sko langflottastir!

fimmtudagur, maí 19, 2005

Ahhhh..

Heima er best!

fimmtudagur, maí 05, 2005

Alveg að fara...

Jæja, allt á síðustu stundu fyrir Íslandsferðina. Það er nú bara eins og það á að vera. Það verður skrítið fyrir okkur fjölskylduna að vera svona aðskilin og ég hlakka bara strax til að koma aftur heim í heiðardalinn...hehehe ætli það séu nokkuð til dalir hér í pönnukökulandinu?

Kannski að maður bloggi aðeins frá Íslandi, það er aldrei að vita. Jæja best að drífa sig að pakka og ganga frá síðustu hlutunum.

Hasta la vista!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Nu må det være nok!

Í dag tók ég ruslið með mér í hraðbankann og í síðustu viku í Danmark (barnavörubúð). Þetta er náttúrulega bilun!

sunnudagur, maí 01, 2005

Ísland, gamla Ísland

Jæja þá er það frágengið...við HM förum til Íslands á fimmtudaginn í knús- og stuðningsferð. Veitir ekki af þegar alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni.

föstudagur, apríl 29, 2005

Skrýtna tilvera

Stundum er svo erfitt að skilja tilganginn með lífinu. Hversvegna eru ástvinir okkar teknir frá okkur of snemma? Reynum að njóta á meðan er.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag,
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir, sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir, sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

En það er margt um manninn á svona stað,
og meðal gestanna sífelldur þys og læti.
Allt lendir í stöðugri keppni um að koma sér að
og krækja sér í nógu þægilegt sæti.

En þó eru sumir, sem láta sér lynda það,
að lifa úti' í horni, óáreittir og spakir,
því það er svo misjafnt, sem mennirnir leita að,
og misjafn tilgangurinn, sem fyrir þeim vakir.

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl,
þó deilt sé um, hvort hótelið sjálft muni græða.
En við, sem ferðumst, eigum ei annars völ.
Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn,
og viðbúnaður, er gestirnir koma í bæinn,
og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn.
En áhyggjan vex, er menn nálgast burtferðardaginn.

Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss,
að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss,
er dauðinn, sá mikli rukkari, réttir oss
reikninginn yfir það, sem var skrifað hjá oss.

Þá verður oss ljóst, að framar ei frestur gefst
né færi á að ráðstafa nokkru betur.
Því alls, sem lífið lánaði, dauðinn krefst,
í líku hlutfalli og Metúsalem og Pétur.

Tómas Guðmundsson.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sumir fara en aðrir koma í stað...

Bæti hér með Siggu litlu frænku minni við linkana góðu. Hún er reyndar ekkert lítil lengur nema síður sé, gengur með sitt annað barn. Gæti maður orðið stærri? Það er bara ég sem er svona gömul, ég man nebblega svo vel eftir henni þegar hún var lítil...pínulítil með bleyju og skrækan róm og kleip allt og beit. Hún er sem betur fer hætt á bleyjunni og að bíta og vonandi að klípa en röddin liggur enn hátt. Velkomin kæra frænka!

Hún Ausa mín önnur enn "minni" frænka er greinilega hætt þannig að hún fer út af listanum.

Já og næstum búin að gleyma...Rúna vinkona, AKA múgímama, bætist við líka.

Sjúbbdírarírei!

mánudagur, apríl 25, 2005

Mér finnst að það ætti að banna að hafa fiskbúðir lokaðar á mánudögum...

laugardagur, apríl 23, 2005

Börn og minningar

Jamm...ætli það sé ekki best að blogga smá. Hmm...það sem drifið hefur á daga mína síðan síðast. Ég man eiginlega ekki eftir neinu nema tannatöku HMs. Ég uppgötvaði mér til hálfgerðrar skelfingar að tönnin sú þriðja er að kíkja úr efri gómi, þannig að það er ekki furða þó greyjið litla láti aðeins í sér heyra. Ég bíð spennt eftir Bonjella sendingu frá Íslandi, skilst að það geti bjargað nætursvefni foreldra....ohhh get ekki beðið.
Annars er hann voða góður, er bara aðeins að láta til sín taka. Rekur upp ógurleg öskur stundum, svona þegar hann er að láta vita af sér. He he he, ótrúlegt hvað þessi litlu kríli eru mannaleg svona snemma, hann ekki nema sex og hálfs mánaða gamall og lætur stundum eins og skapvont gamalmenni. Hann er ekkert mikið að færa sig úr stað. Veltur sér reyndar oft fram og til baka en er ekki farinn að mjaka sér áfram né aftur á bak. Maður bíður spenntur eftir því eins og öðrum framförum í þroska. Í dag "dansaði" hann í fyrsta skipti. Það var ótrúlega fyndið og sætt.

Stóri bróðir er auðvitað líka að þroskast og breytast. Ótrúlegt að bráðum séu 10 ár síðan hann fæddist. Hann byrjaði um mánaðarmótin í klúbb. Það er svona eldri deild í dagvistinni, voða flott. Hann bara varð 2 árum eldri daginn sem hann byrjaði...he he he, gelgjan alveg að drepa hann stundum. Alltaf að setja vax í hárið og svona. Samt er ekki kominn áhugi á hinu kyninu ennþá, það kemur víst fyrr en síðar.

Úff, ég man svo vel eftir því sjálf hvernig var að vera 10 ára. Þá var ég skotin í strák í annað skipti á ævinni. Hann hét Árni Heimir og hljóp eins og stelpa og spilaði á píanó. Ég man að hann var alltaf í flauelsbuxum með pínu feit læri og í Nokia stígvélum. Já, og í úlpu með svona loðkragahettu ...hehehe, æðisleg tíska. Maður var alveg alvöru skotinn...fékk rosa fiðrildi í magann og fór alveg í kleinu þegar viðkomandi var nálægt. Svo var ég reyndar líka alltaf skotin í Svenna síðan úr Ísaksskóla. Já og Fidel, hann var nú voða sætur, solítið svona súkkulaði týpa...hehehe og besti vinur hans og Svenna (og Tedda) og bekkjarfélagi okkar var enginn annar en handboltahetjan Ólafur Stefánsson, mér fannst nú ekkert varið í hann.

Já, það rifjast margt upp:
moonboots, skærgrænar grifflur, legghlífar, eyrnaskjól, Grýlurnar, gamli góði Hlunkurinn, mjólkurbúðin í Tónabæ, Tónabíó, Words don´t come easy, Billy Jean is not my lover, Á vellinum dansa þeir vikivaka, brennó, fallin spýta, "eina króna", gloss með jarðarberjabragði, sjónvarpsleysi á fimmtudögum, Dallas á miðvikudögum, Húsið á sléttunni, Stundin okkar, Sunnudagshugvekjan, Löður, Lög unga fólksins, Rás 2 byrjar, Tívolíið á Klambratúni, Bóbó á Holtinu og rónarnir á Hlemmi, balletttímar í Skúlatúninu, packmannspilakassar, litað hársprey, tjullpils, ruslapokakjólar og svartur varalitur, leikfimitímar hjá Jónínu Ben, kaupmaðurinn á horninu, 50 aura kúlur....

Maður sér það þegar maður lítur til baka að góðar minningar eru gulls ígildi.
Það er málið, að búa til góðar minningar fyrir börnin sín.

föstudagur, apríl 15, 2005

Ljúfa líf...

Mikið var hressandi að fá sér rauðvínstár í góðum félagsskap í gærkveldi. Takk fyrir mig. Gott í dag líka að chilla á legepladsen með litlu gríslingana, kjafta við mann og annan og grilla puslur. Veðrið lék við okkur, ekki of heitt og ekki of kalt, yndislegt. Þetta er gott samfélag hér, hver perlan á fætur annarri. Mikið er ljúft þetta kollegílíf, þess verður saknað þegar því líkur og annað tekur við.

Þetta verður dúndurgott sumar, finn það á mér.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hugsi....kabúmm!!!

Jæja, haldið´ekki að stúlkunni hafi tekist að ná sér í betalingsseðil í ræktina. Næsta skref er svo að taka passamyndir og borga. Vá, þetta er svo erfitt. Svo byrja, það er nú enn annað. Svona er ég núna...allt er svo erfitt...kann ekki að framkvæma, bara hugsa og hugsa og hugsa þangað til hausinn springur.

Talandi um sprengingu...þessa sögu kom frumburðurinn með um daginn. Sagðist hafa lesið þetta í sögubók í skólanum, sko í faginu sögu!
Í seinni heimstyrjöldinni eignaðist par nokkuð stúlkubarn hér í Kaupinhávn. Vegna þess hve mikið var af sprengingum og látum var hún skírð í flýti Raqueta Bombardina.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Suma daga er brunnurinn bara tómur...

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Svefnleysi

Þá er tíminn enn einu sinni á flugi. HM orðinn hálfs árs. Eftir annað hálft ár verður hann orðinn eins árs. Vá hvað ég er góð í reikningi! Greyjið litla er alltaf vaknandi á næturna og aumingja mamman líka. Veit ekki alveg hvers vegna hann er að vakna svona oft, kannski að hann vilji bara hafa það kósý og fá sér sopa. Kannski eru fleiri tennur á leiðinni, veit ekki. Er búin að prófa að gefa honum pela fyrir nóttina í von um að hann svæfi betur. Hann drakk alveg 250 ml í gærkvöldi plús brjóst svona klukkutíma seinna en var samt alltaf að vakna. Ég held að þetta sé sem sagt ekki hungur. Svo vildi hann ekki pelann í kvöld. Æ, svo ætlaði ég að byrja á að venja hann á að sofna sjálfur í rúminu með grát aðferðinni en við gáfumst upp. Er hann ekki of lítill? Hann kann ekkert að sofna sjálfur því hann sofnar alltaf á brjóstinu. Ég er að verða steikt, nei ég meina steiktari í hausnum á þessu svefnleysi. Ég þrái SVO 8 tíma svefn! Svo er hann á góðri leið með að flytja í rúmið okkar á alla 140 sentímetrana okkar, svo við sofum eins og spítukallar og herðarnar bólgnar. Ég sofna bara alltaf þegar ég gef honum og næ ekki að flytja hann aftur í rúmið hans.

Já, þetta er vesenið sem er í gangi núna. Voðalega þætti mér vænt um reynslusögur og ráðleggingar frá ykkur stelpur.

góða nótt (vonandi) !

sunnudagur, apríl 03, 2005

Sól og vor

Jæja loksins kom vorið. Ég ætla að rifja upp gömul kynni mín við hana sól.

föstudagur, apríl 01, 2005

Nú er ég orðin stór.


Þegar ég var lítil/unglingur fannst mér alveg geggjað að foreldrar mínir hefðu lifað Bítla tímabilið fyrir heilum tuttugu árum. Semsagt in the eighties voru tuttugu ár frá the sixties. Nú eru tuttugu ár frá the eighties....vá, og ég er oft að segja Benna frá hinum og þessum lögum og hljómsveitum sem voru vinsælar þegar "við pabbi þinn vorum unglingar". Æji, þetta er voða skrítið eitthvað.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Ha ha ha...frekar fyndið:

Smári fór í klippingu í dag og án þess að vera spurður voru snyrtar á honum augabrúnirnar. Er hann þá ekki officially orðinn kall?

Eurotrash

æ, mikið skelfing er þetta vont júróvísíón lag hjá okkur Íslendingum. Auðvitað eiga þau að vera það en þetta finnst mér alveg sérstaklega ömurlegt.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Æfingin skapar meistarann.

Í dag er einn af þessum dögum þegar mér verður ekkert úr verki. Því meira sem ég hugsa um hvað ég á eftir að gera, því síður geri ég það. Einhvernvegin tekst mér að láta daginn líða án þess að hafa gert neitt nema drukkið kaffi, étið eitthvað, sinnt unganum og jú kannski farið nokkrum sinnum á klósettið. Ég nenni ekki einu sinni út í búð, þó að veðrið sé fallegt kveikir það ekki einu sinni löngun til að fara út. En svo, ef ég þekki mig rétt, verð ég komin með svo mikið samviskubit í kvöld að ég fer að hugsa um allt það sem ég ætla að gera á morgun, ælta sko að bæta fyrir letina í dag. Það er samt engin trygging fyrir því að eitthvað verði úr áætlununum góðu...kannski að morgundagurinn verði bara endurtekning á þessum degi.

Hvað varð af því "að njóta líðandi stundar"? Best að gefast ekki upp á að æfa sig í því. Þetta hlýtur að koma ef ég æfi mig bara nógu mikið. Ætli það sé ekki svipað eins og þegar ég var að byrja að læra á bíl. Þá fannst mér alveg óhugsandi að ég ætti einhverntíma eftir að ná tökum á því, það var allt of erfitt. Of margir hlutir að hugsa um í einu. Svo kom auðvitað að því að ég fór að keyra eins og herforingi, án þess að hugsa um tuttugu hluti í einu. Undirmeðvitundin sá um meirihlutann af því. Hún er nefninlega alveg magnað fyrirbæri sem ég held að við nútímafólkið vanmetum og kunnum kannski ekki alveg að notfæra okkur betur. Við hljótum að geta til dæmis kennt undirmeðvitundinni að njóta líðandi stundar. Ef undirmeðvitundin væri læs, gæti ég til dæmis skrifað henni þetta bréf:

Kæra undirmeðvitund Regínu.

Viltu gjöra svo vel að læra eftirfarandi:

Njóta líðandi stundar.
Vera jákvæð og bjartsýn.
Ekki borða óhollan mat né drekka óholla drykki.
Vera þolinmóð við börnin þín.
Rækta líkama og sál á hverjum degi (nema kannski á sunnudögum).

Hmm...dettur ekki fleira í hug í bili...enda er bara hafragrautur í hausnum mínum.

Með fyrirfram þakklæti,

þín Regína.

sunnudagur, mars 27, 2005

Páski pásk...

Páskaeggjaleit, íslenskt páskalambalæri eldað í ömmustíl....mmmm. Bökuðum beibírúþ en þorðum svo ekki að borða hana því það voru ekki pasturíseraðar (ætli það útleggist ekki sem gerilsneytt á ástkæra ylhýra) eggjarauður í kreminu. Vissuð þið að sénsinn að fá salmonellu úr eggjum hér í DK er 1 á móti 10 og enn meiri líkur úr kjúklingi. Maður getur ekki einu sinni treyst því þó það standi salmonella frit á pakkningunum. PASSA SIG!!!

En...

Hvað er eiginlega að sofa í hausinn á sér? Hvaðan er þetta komið? Af hverju segir maður þetta? Þýðir þetta að sofa einstaklega fast eða vel? Ég heyrði þetta eða las, réttara sagt, í fyrsta skipti fyrir nokkrum mánuðum og er alltaf að rekast á þetta aftur og aftur. Þetta meikar engan sens fyrir mér. Ég verð að fá útskýringu á þessu.

Skilittekki!

Vorboðinn ljúfi.

ok nú er vorið deffinetlí að koma...klukkan er búin að færast fram um klukkutíma. Svo þið þarna á Íslandi, gerið ráð fyrir því þegar þið hringið næst til Danmerkur!

Hvernig er það annars...er ég sú eina sem get ekki hlustað á Ruv?

föstudagur, mars 25, 2005

Hér koma nokkrir punktar sem hafa komið upp að undanförnu hjá mér...svolítið málsháttar inspireraðir í anda hátíðanna.

  1. Oftar brotna langar neglur en stuttar.
  2. Ekki er sama fiskari og Fischer.
  3. Ekki er gaman að villast á leið í afmæli.
  4. Oft rætist úr þegar síst skyldi.
  5. Alltaf kemur vorið um síðir.
  6. Betri eru tveir göngutúrar en einn.
  7. Höfundur sjónvarpsþáttana Dallas er David Jacobs.
  8. Ís getur verið ókeypis...ótrúlegt en satt!
  9. Myndir á vegg gera herbergin lifandi.
  10. Hver einasti sentímetri skiptir máli.
  11. Betur fara skór í hillu en á gólfi.
  12. Sjaldan leynast rúm í vandrehöllum.
  13. Það er alltaf Sherlock Holmes fílingur í þoku.
  14. Rólur eru líka fyrir sex mánaða.
  15. Maður ER manns gaman.
  16. Sumir föstudagar eru lengri en aðrir.
  17. Gott er að klára hafið verk.
  18. Jákvæðni léttir lund og líf.
Ekki meira í bili....

-Gleðilegan pásk!

þriðjudagur, mars 22, 2005

Anyone???

Djööhhh...Smári er að vinna bæði á föstudags og laugardagskvöldið og ég nenni ekki að vera ein buuhhhuuu. Hvað er planið hjá fólki, er einhver laus í heimsókn, spil, rauðvín, spjall....eitthvað!!????

...ein desperate eitthvað...

Hvernig skiptir maður um template án þess að kommentin og linkarnir og allt fari til fjandans?

mánudagur, mars 21, 2005

Ævintýri Kjarvals á loppemarkaðnum.

Jamms...komið að bloggstund. Þetta hefur verið ágætis helgi í heildina litið. Í stuttu máli tiltekt, göngutúr, gestir og loppemarked. Rosalegur loppemarked í Bella Center. Vá vá og aftur vá. Mig langaði í svo mikið af dóti. Sá þarna meðal annars eeeeldgamlan síma, svona með snúningsapparati, viðarkassi sem maður hengir á vegg. Ógeðslega mikið af flottum myndum og plakötum frá öllum mögulegum tímum, geeeðveikt flotta lampa og ljós, pendúlklukkur og eldhúsklukkur, silfur og postulín....ég hefði léttilega getað fyllt eins og einn sendiferðabíl af dóti sem mig langaði í.

Svo gerðist eitt voða furðulegt. Smári rakst á listaverk hjá einum sölukarlinum. Þetta var málverk af Snæfellsjökli og undirskrift listmálarans var Jóhannes. Okkur þótti þetta líkjast Kjarval verki en án þess að vera neinn sérfræðingur efast ég um að hún sé ekta. Karlinn hafði komist yfir þetta verk ásamt nokkrum öðrum eftir einhvern frægan færeyskan málara fyrir slikk. Hann ætlaði að selja verkið á 100 kall en þá hafi einhver Íslendingur bent honum á að þetta gæti verið mjög verðmætt. Giska á últra heiðarlegt gamalmenni, skrítið að viðkomandi hafi ekki bara keypt myndina á 100 kall og látið svo meta hana. Mér fannst mjög spúkí að það vantaði ártal og undirskriftin hjá Kjarval er vanalega JS Kjarval en ekki Jóhannes. Svo var myndin eitthvað svo "flöt", vantaði einhvernvegin Kjarval effektana. Samt hefði nú verið svolítið kúl að hafa hana uppi á vegg hjá sér þó hún væri ekki ekta. Þetta var ótrúlega furðulegt atriði eitthvað, frekar ævintýralegt. Við gátum sko alveg ímyndað okkur að verkið gæti alveg hafa lent á einhverju háaloftinu hjá einhverjum Dananum sem vissi ekkert um Kjarval, enda var það frekar illa farið. Kjarval var kannski hér í Kaupmannahöfn ungur að árum og málaði þetta fyrir til dæmis gistingu. Hann þekkti svo vel íslenska náttúru að hann hafði jökulinn alveg í hausnum, þurfti öngva fyrirmynd.

Það er sko alveg á hreinu að ég ætla á næsta stóra loppemarked og þá með pening í buddunni. Skilst að maður geti fylgst með hvar og hvenær þeir eru á www.aok.dk

föstudagur, mars 18, 2005

Bæ bæ Ísland!

Nú er ég búin að fá nóg af Íslandi. Ekki það að mér þyki ekki vænt um land og þjóð, þvert á móti. Ég ætla bara að taka mér góða pásu frá fréttum, Silfri Egils, Íslandi í dag, Kastljósi og öllu þessu. Já og framvegis verður sko bara hlustað á DR og ekkert RUV kjaftæði! Ætli maður kíki ekki bara svona einu sinni í viku og tékki á því hvað er að gerast heima og ekki meir. Ég bý nú einu sinni í útlöndum og eins gott að vera þar bara. Ég neyðist nú samt til að fylgjast með húsnæðismarkaðnum heima út af íbúðinni og hinni eilífu spurningu...eigum við að selja og þá hvenær?

Hmm jæja, klukkan er að verða tíu og ekki búið að éta kvöldmat ennþá. Ólifnaður er þetta! Ussussussussuss.

Eyjó peyjó kom annars í heimsókn og var auðvitað hlekkjaður við tölvunna med det samme og reddaði fullt af drasli fyrir okkur og bað mig svo að syngja fyrir sig á plötuna sína. OOO bara gaman...hlakka til.

Meira síðar...túrúlú!

fimmtudagur, mars 17, 2005

Smá update

Jeminn hvað það er gott að vera komin aftur til netheima. Samt ágætt líka að fá smá breik. Tölvan okkar fór nebbla í fokk og nú er barasta búið að kaupa nýja og það besta af öllu...nýjan skerm, flatskerm sko...19"....ohh ég er bara algjör pæja með þessar græjur.

Það er nú ýmislegt búið að gerast á meðan. Aðallega hjá litla kalli....hann er eitthvað að flýta sér að verða stór...er kominn með tvær tennur og farinn að velta sér á magann. Svo er hann alltaf að verða flinkari og flinkari að beita fingrunum. Hann er voða duglegur að nota dudduna til að æfa sig í því. Það fer ekki mikið fyrir grautaráti hjá honum...er búin að prófa þá nokkra en hann vill þá ekki. Ég ætla að prófa að gefa honum kartöflu aftur. Ég held að hann sé bara svona ánægður með brjóstið sitt að hann hafi bara ekki áhuga á öðru. Málið er bara að hann er farinn að bíta mig með þessum hvössu tönnum sínum og ég er orðin ansi þreytt á því. Er jafnvel að spá í að venja hann af brjóstinu. Það var alls ekki planið að gera það svona snemma en ég er samt ekki að meika þessar tennur. Anyways, allt gengur annars eins og í sögu með hann. Hann er voða duglegur að fara að sofa á kvöldin, sofnar svona um 8 eða 9...alger draumur. Eins og hann, alger draumur, litla krúttið mitt.

Af okkur hinum er svo það að frétta að frúin er búin að fara einu sinni í heimaleikfimi og líkaði bara vel. Stefnt er á fleiri leikfimitíma í nánustu framtíð. Húsbóndinn er búinn með fyrstu önnina á skólanum og er búinn að vera í páskafríi síðan á föstudaginn.

Best að hafa þetta ekki lengra í bili. Það eru ekki allir sem nenna að lesa langar færslur.

Ble

mánudagur, mars 07, 2005

Video video

Vá hvað það var yndislegt að fara út í morgun í vorloftið og sólina. Munur að ganga ekki um samanhertur á 120, heldur með bakið beint, bros á vör og gleði í hjarta. Við HM skelltum okkur í servicebutikken og fræddumst þar um mataræði ungabarna og fengum meira að segja með okkur bók með uppskriftum og leiðbeiningum. Svo fórum við í El- Giganten og tékkuðum á videotækjum, ódýrasta tækið kostaði 699 svo við héldum áfram í Fötex þar sem ég hafði heyrt af ódýrara tæki. Viti menn það var til og keypt med det samme á 549 krónur! Mikið er ég glöð. Af fyrri reynslu þori bara ekki að jinxa og skrifa hér til hvers ég ætla að nota það.

föstudagur, mars 04, 2005

Óhapp

Mikið er gott að gera tossalista. Enn betra að strika yfir það sem maður gerir af honum. Listinn fer minnkandi hjá mér og þar með eitthvað af lóðunum á herðunum. Aahhh...dugleg stelpa.

Æji, ég hélt að hjartað í mér myndi rifna í gær. Við vísitölufjölskyldan fórum á kulturfest í skólanum hans Benna í gærkveldi. Höfðum hugsað okkur að græða ódýran mat og sleppa við að elda. Við fórum í fyrra en þá vorum við ekki nógu snemma í því og misstum eiginlega af öllum góða matnum. Ég er að tala um tyrkneskan, pakistanskan og svoleiðis mat, heimalagaðann að sjálfsögðu...mmmm. Í stuttu máli var þetta ekki góður matur og alveg voðalega illa skipulagt, þannig að við fórum bara frekar snemma heim.
En þetta með hjartað. Benni fór inn í salinn aftur þegar við vorum á leiðinni út úr skólanum til að skila gosflösku og vildi ekki betur til en að hann hljóp á stóran strák og datt kylliflatur með hvelli á gólfið. Og allir fóru að hlæja....ooohh...greyjið. Mig langaði að öskra á alla og segja þeim að hætta að hlæja...æji hvað ég vorkenndi honum. Þessi stóri sem hljóp á hann eða öfugt, lyfti honum svo upp með fötunum (skilst þetta?) og hljóp í burtu. Æ æ æ ég fæ alveg illt þegar ég hugsa um þetta. Við fórum bara í sjoppu og keyptum okkur súkkulaði og héldum svo heim í Simpsons-kúr undir teppi. Nú er hann í tur, kappklæddur með bekknum , vona að það verði gaman hjá honum í dag. Æji stóra dúllan mín.

mánudagur, febrúar 28, 2005

Kvarti kvart

Þá er ég aðeins farin að kíkja út eftir margra daga inniveru. Ekki laust við að maður sé að klikkast á þessu. Æ, hvað er ég annars að kvarta undan einhverri flensu þegar þetta eru ekki alvarlegri veikindi en það.
Úti er ógeðslega kalt en daginn er farið að lengja sem betur fer. Það styttist óðum í sumarið, get varla beðið eftir því að geta farið að kvarta undan hita frekar en kulda...hahaha...alltaf getur maður kvartað undan einhverju.
Jæja, andleysið er þvílíkt þessa dagana svo þetta verður ekki lengra í bili.
Segi bara að lokum að ég er búin að bæta aðeins við myndum í albúm 2.

Vi ses!

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Pestarbæli

Jæja, þar kom að því að veikindin komu í heimsókn. Byrjuðu á Benna sem var veikur allt vetrarfríið greyjið en er orðinn frískur núna. Litli bróðir er búinn að vera lasinn í þrjá daga, var kominn með 38.5 í gær er er hressari í dag. Er bara alger krúsídúlla, veikur í fyrsta skipti á ævinni. Svo er Smári orðinn slappur en ekki kominn með hita ennþá, vonandi sleppur hann.

Ég líka 7-9-13!

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Fleiri myndir...

Ég er í dugnaðarkasti og má ekkert vera að því að blogga núna. Ætlaði bara rétt að henda inn þessum myndum sem ég er búin að sitja sveitt við að minnka og færa svo í albúmið. OOhhhh...sumar, hiti, bíddu hvað er nú það?

Gleðilegt sumar!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Svakalegur sunnudagur.

Svakalega var gott veður í dag.
Svakalega fór ég í góðan göngutúr í dag.
Svakalega steikti ég góðar lummur úr hafragraut í fyrsta skipti í dag.
Svakalega er ég heppin að eiga svona svakalega sæta, góða og yndislega stráka.
Svakalega er svakalegt skrítið orð núna.

laugardagur, febrúar 19, 2005

ein í koti

buhuuu...ég er ein heima í kvöld og ég nenni því ekki...buhuu...

föstudagur, febrúar 18, 2005

loksins!

Þá er ég loksins búin að drullast til að henda inn eitthvað af myndum og ég lofa að vera duglegri héðan í frá. Þetta er hluti af desembermyndum, flestar teknar á Íslandinu.

Wúalla...

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

já, grunaði ekki Gvend...fyrsta tönnin er farin að láta á sér kræla. Gvöð hvað ég er montin!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Í fréttum er þetta helst:

Ja hérna. Það er bara allt að verða vitlaust í DK.
Ógurlegt lestarslys sem á ekki að geta gerst og þetta var lest sem maður hefur oftar en einu sinni stigið upp í. Sem betur fer lést enginn að ég held.
Svo var sjálfsmorð Eriks úr Krøniken í sjónvarpsfréttum sama kvöld og þátturinn var og á forsíðum blaðanna og höfundur krafinn skýringa. Skilst að baunaheimilin séu alveg í uppnámi og fólk spyr sig hví, hví? Höfundur gaf þá skýringu að þetta væri raunveruleiki, sjálfsmorð gerðust líka í alvörunni...núúú...haaaa??? Þetta var stórfrétt í einu blaðinu en smá frétt að móðir hefði verið drepin fyrir framan börnin sín...í alvörunni sko. Er allt raunveruleikaskyn flogið út í buskann eða hvað? Maður spyr sig.
Nú svo þetta með hana Henriettu Kjær, fjölskyldu- og neytendaráðherra. Hennar ferli er mögulega lokið af því að hún borgaði sófann og gardínurnar með gúmmítékka. Reyndar er maðurinn hennar að taka á sig sökina en það skiptir líklegast engu máli. Ekki nóg með það, heldur tóku þau lán á háum vöxtum, sem hún sem ráðherra hafði ráðið fólki frá að gera...æ hún er í vondum málum. Svo situr dómsmálaráðherra Íslands þægilega í sínum stól, brosandi út að eyrum, þó hann hafi brotið lög. HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ ??? Hvernig er hægt að láta menn komast upp með svona? Skilettekki....arrrggg...ég er brjáluð!

Af mér er það svo að frétta að ég er hætt í þessu hundleiðinlega DDV drasli. Fékk nóg af þessu og er búin að úða í mig sælgæti, kökum og kóki síðan og hefur aldrei liðið betur.
Kíló eru kúl og rokka feitt!

Krass búmm bamm sklabúmm!

p.s. á einhver baby-alarm sem hann/hún er hætt/ur að nota?

laugardagur, febrúar 12, 2005

Speki dagsins.

Þegar manni langar í súkkulaði, þá fær maður sér súkkulaði,
þegar manni langar í bjór, þá fær maður sér bjór,
þegar manni langar í sígarettu, þá fær maður sér sígarettu
....og ekkert helvítis samviskubit!

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Bla

Jæja, aðeins búin að taka til á síðunni. Óvirkir fengu að fjúka og komast ekki aftur á blað fyrr en það verður eitthvað aksjón í gangi. Bætti svo Elínu kollegíbúa, skólastelpu og pössunardömu við...jíííhaaa. Alltaf gaman að því...

Díses, ég er alveg í ruglinu. Er nebbla með súkkulaðifráhvarfseinkenni, ekki gaman.

Við HM og þrjár aðrar ungamæður skriðdrekuðumst í babybíó í morgun og sáum Meet the Fockers..alveg ágætismynd bara. Langar eiginlega að sjá hana aftur heima í DVD. Gvööð ég er svo þreytt núna...merkilegt hvað maður þarf alltaf eitthvað að vaka þegar maður er að drepast úr þreytu..hmmm

ZZzzz...

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Bööömmer

Fúlt...kílóið plús einn þriðji er komið aftur. Þetta er eitthvað skrítið og veldur ei kátínu. Bööö er að missa móðinn. Hvernig getur þetta staðist? Kannski best að láta vigtina alveg vera, allavega er ég alveg í fílu út í hana. Kúkalabbavigt...ullllll og grett!!!

Fruss

mánudagur, febrúar 07, 2005

Mánudagur til mæðu

Við fórum alla leið upp í IKEA í dag til að kaupa tvo hluti og þeir voru svo ekki til! OHHH pirr! Ekki nóg með það, heldur tók ferðalagið allt of langan tíma. Við ætluðum nefninlega að vera voðalega sniðug og fara frekar í IKEA í Tåstrup en ekki i Glostrup eins og áður, til að vera fljótari. Vorum sem sagt í stuttu máli lengur. Svo náði ég ekki að fara í DDV til að stíga á vigtina...svekk.

En fussumsvei, skítt með það, því að nefninlega ég, Regína Hjaltadóttir, er búin að missa hvorki meira né minna en 1,3 kíló á fyrstu vikunni minni. O hvað ég er stolt af þessum árangri. Þetta er fínt pepp og best að halda áfram. Mig langar ekki einu sinni að svindla. Ég neita því þó ekki að súkkulaðiþörfin hefur sko kallað en þá hugsa ég bara nei ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó....heilaþvottur, það er sko málið. Djöfull væri ég samt til í að spóla áfram, mér finnst tíminn eiginlega silast áfram og ég vil helst bara missa kílóin öll á nó tæm. Þannig gengur það víst ekki...no pain no gain.

Já fyrst maður er kominn á enskar nótur þá er ekki úr vegi að koma með smá tilkynningu. Ég tók um það ákvörðun í vikunni að ég ætla fara í ensku í háskólanum næsta haust. Eins og Danske Bank segir: "Gør det du er bedst til". Ég vaknaði bara einn morgunninn og sá ljósið. Þetta var eitthvað svo einfalt allt í einu. Ég ætla bara að læra það sem mér finnst skemmtilegt, lífið er allt of stutt í eitthvað annað. Mig langar að verða framhaldsskólakennari og þá bara geri ég það. Einfalt mál. Ég hlakka þvílíkt til að byrja. Rosalegur léttir er að vera búin að taka ákvörðunina.

Annars var helgin góð. Við Smári enduðum hana með því að fara út að borða og HM fór í sína fyrstu pössun á meðan. Við fórum á indverska staðinn á Amagerbrogade og fengum vondan forrétt en góðan mat. Það var líka bara kominn tími til að við færum eitthvað að kærustuparast enda héldum við upp á 11 ára kærustuparaafmælið okkar í leiðinni. En aumingja HM þótti erfitt að láta passa sig. Grét alveg svakalega í klukkutíma og vildi ekki sjá platmjólkina sem ég skildi eftir handa honum því ekkert gekk að mjólka mig. Hann var alveg náfölur greyjið og aldrei hef ég áður séð hann svona úrvinda af þreytu, greyjið litla. Mér fannst ég ægilega vond að hafa skilið hann svona eftir. Svona er maður bara mikil ungamamma. Þetta þýðir samt ekki að ég eigi ekki eftir að láta hann í pössun aftur, ég er alveg búin að jafna mig á þessu og hann er örugglega búinn að steingleyma öllu.

Well læt þetta duga í bili...túrúlú!

föstudagur, febrúar 04, 2005

Bloggedí blogg...

Bloggleti mikil hefur hrjáð mig undanfarið. Er líka búin að vera í sjálfsheilaþvotti og það fer mikil orka í það. Ég byrjaði ekkert í DDV-inu af fullum krafti fyrr en á þriðjudaginn var. Þetta er aðeins meira vesen en ég átti von á en venst örugglega með tímanum. Ég er alveg til í að fórna nokkrum kílóum í það. Mér finnst ég vera heppin að vera heimavinnandi til að hafa tíma í þetta. Þetta krefst nefninlega svolítils skipulags og tíma. Þegar maður þarf að borða 2x 300 grömm af grænmeti á dag, er nauðsynlegt að það sé fjölbreytt og gott. Um daginn var ég tildæmis 45 mínútur að jórtra á hvítkálssalati, nenni því sko ekki aftur. Þetta er samt líka gaman, mér finnst ég alltaf vera að borða eitthvað gott og verð þægilega södd af matnum. Málið er bara að halda áfram og trúa því að þetta beri árangur. Þetta virðist allavega virka, ég veit ekki hvað margar "fyrir" og "eftir" myndir ég er búin að sjá. Mér finnst þær mjög mótíverandi. Svo ætla ég auðvitað að vera pía í sumar sem er aðal ketsjið.

Allt gott að frétta að öðru leyti. Kallinn í skólanum, frumburðurinn líka og HM vex og dafnar eins og vera ber. Hann er reyndar eitthvað að vesenast á nóttunni núna og sefur stutta dúra í einu. Ég er að pæla í hvort ég ætti að byrja að gefa honum smá oggu ponsu graut áður en hann fer að sofa. Æji mér finnst voða erfitt að fá ekki almennilegan svefn þó ég geti lagt mig á daginn þegar hann sefur væri ég líka til í að gera eitthvað annað, auk þess nær maður einhvernveginn aldrei þreytunni almennilega úr sér með svona stuttum lúrum. Ég hugga mig bara við það að þetta er stutt tímabil á æfinni og svo margar dýrmætar stundir sem ég upplifi með ungabarn sem koma aldrei aftur og eins gott að reyna að njóta þess bara.

Ég verð að fara að koma með fleiri myndir, ég má bara ekki vera að því núna. Ætla að næla mér í nætursvefn...hvenær ætli hann vakni núna?

Góða nótt.
R.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Dagur í lífi drottningarinnar.

Voðalega var ég bissí í gær við að hafa það notalegt. Dagurinn var tekinn snemma og með stæl þegar við Ragga Dís röltum með stubbana okkar í vagni í baby-bíó á Fiskerorvet. Myndin byrjaði klukkan tíu þannig að við vorum farnar úr húsi rúmlega níu. Eitthvað sem gerist ekki mjög oft hjá mér. Mikið hressandi var það. Mættum svo í bíóið á tilteknum tíma og við manni blasti haf af barnavögnum, númeruðum og röðuðum hlið við hlið. Þetta var skemmtileg upplifun þó myndin hafi eiginlega verið alveg glötuð. Það er einhver undarleg stemmning að sitja með ungann sinn í fanginu og horfa á eitthvað kynlífsdót, passaði ekki alveg. Ég hefði ekki einu sinni fílað myndina ef ég hefði séð hana heima hjá mér og ekki með barnið. Það var samt aukaatriði í sjálfu sér, bara gaman að drífa sig í þetta.
Svo röltum við aðeins um í mollinu og keyptum auðvitað eitthvað smotterí fyrir grísina. Þeim langaði svooo í nýtt dót og smá föt. Stoppuðum líka á Pizza Hut þar sem batteríin voru hlaðin bæði hjá mæðrum og börnum.
Áður en við vissum af var klukkan orðin 3 og við héldum heim á leið. Nú var ekkert annað að gera fyrir þreyttu mjaltakonurnar en að leggja sig eftir allt erfiðið og undirbúa sig fyrir átök kvöldsins, saumaklúbb. Hann var líka svona glimrandi fínn eins og alltaf. Étið og hlegið til um það bil miðnættis.
Svo á ég að halda í næstu viku og er strax búin að ákveða hvað ég ætla að hafa...ohhh spennó!

Chao!


mánudagur, janúar 24, 2005

Afsakið hlé!

Já, bara ekkert að segja undanfarið.
Hér gengur lífið sinn vanagang og allt í lagi með það. Ég stóð við gefið loforð fyrir viku síðan. Þetta virðist vera spennandi og gott mál. H&M stóð sig eins og hetja hjá pabba sínum í 3 tíma á meðan mamman steig á vigtina í fituklúbbnum og "lét sig inspirerast" af fyrrverandi fitubollu. Þetta virkar ef maður bara fer eftir þessu, hún missti 36 kíló og sýndi okkur nokkrar "fyrir" myndir. Gaman að því. Ég ætla að taka svona "fyrir" mynd líka og svo "eftir" mynd.
Jebbs, ég er bjartsýn og ákveðin og þá eru mér engin takmörk sett. Víííí...

Ta ta í bili.

mánudagur, janúar 17, 2005

Meiri börn, mont og megrun.

Jebbs, eins og glöggir lesendur taka eftir er baby-bomban farin af stað á ný. Ég bíð spennt eftir næstu óléttufrétt, þetta er nefninlega svo smitandi. Gaman gaman, aldrei of mikið af íslenskum kollegíbúum.

Já, börnin eru yndisleg. Sérstaklega mín...hahaha, þetta segja nú allir. Ég er samt alveg sérstaklega stolt af syni mínum hinum eldri í dag. Við vorum nebbla í skole-hjemsamtale, eða bara foreldraviðtali áðan. Í stuttu máli hefði það ekki getað gengið betur. Það voru bara jákvæðir punktar, ekki arða af neikvæðu! Ohhh, þetta yndi stendur sig eins og hetja. Kennarinn átti bara ekki orð, spurði hvar hann hefði eiginlega lært ensku. Bara af sjónvarpinu, tölvunni og mér, sagði ég bara. Svona klárir og duglegir strákar fá sko að velja sér kvöldmat og eftirrétt í verðlaun. Pabba-borgari og ís mmm...

Og að síðustu, þetta. Þá er það ákveðið, frá og með næsta mánudegi verður blaðinu snúið við og hana nú (sagði hænan þegar hún lá á bakinu, var það ekki þannig?) !
Nú er ekki aftur snúið fyst ég er búin að birta það á netinu!

föstudagur, janúar 14, 2005

Innipúki.

Eftir tveggja daga inniveru er ég sannarlega orðin að púka!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Sådan er det bare...

Helli kakóinu út fyrir, hitti ekki í munninn þegar ég fæ mér kaffisopa, ætla að leggja mig í hálftíma en sef svo í tvo og hálfan, missi myndavélina á gólfið, rek tána í þröskuldinn og sletti sósu út um alla veggi.

Nú eru u.þ.b. þrír og hálfur tími eftir af þessum degi og ég bíð spennt eftir næsta slysi!

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Hálfnað verk þá hafið er...

...en gaman væri líka að klára það einhverntíman! Ég er með svo mörg járn í eldinum að mér tekst aldrei að klára neitt. Nei, nei kannski smá ýkjur. Þetta mjakast allt saman. Það er bara hörkudjobb að vera svona heimavinnandi. Kannski að maður sé að ætla sér um of, veit ekki. Ég ætla svo oft að klára að gera eitthvað á kvöldin, eins og núna í kvöld ætla(ði) ég að klára að ganga frá þvottinum en ég bara nenni því ekki. Ég ætlaði líka að gera það í gærkvöldi, nennti því ekki heldur. Jeminn hvað þetta er áhugavert!

HM dafnar heldur betur vel, er orðinn algjör bolti, 7,2 kíló. Hann er þvílíkt búinn að hanga á brjóstinu í 4 daga og er greinilega að vinna upp meiri forða. Mér finnst hann hafa breyst svo mikið, er að missa hárið og svona. Hann er pínu slappur núna með kvef og smá illt í mallakút. Ohh, kannski ljótt að segja en mér finnst börn svoooo sæt þegar þau eru lasin!

Ég verð að fara að henda inn myndum bráðum, bara nenni ekki núna. Það tekur á að framleiða mjólk get ég sagt ykkur. Ekki auðvelt heldur að vera svona mikil jussa eins og ég er, berandi tugi aukakílóa allan daginn. Djxxxll er ég búin að fá mikið ógeð á þeim.

Jæja, best að fara að sinna lösnum grís...


Chao!

sunnudagur, janúar 09, 2005

Árið

Ég er með góðan fílíng fyrir þessu ári. Merkilegt að maður skuli upplifa áramót sem einhver tímamót, þannig séð kemur bara ný tala og nýtt dagatal og næsta ár er bara næsti dagur. Samt fæ ég alltaf fiðring í magann um þetta leiti og finn að það er kominn nýr kafli í lífinu. Ég fer að hugsa um hvað ég ætla að gera og hvað ég ætla ekki að gera. Svo hugsa ég líka til baka og reyni að læra eitthvað af fortíðinni en ég er ekki enn búin að læra að lifa í nútíðinni, njóta líðandi stundar, nema kannski í smá stund.
Ætli það sé ekki bara efst á óskalistanum í ár að læra að lifa í núinu? Maður kemst nú samt ekki hjá því að hugsa aðeins fram á veginn, gera smá plön fram í tímann. Það er auðvitað möst að hafa eitthvað að stefna að, ég held að það sé fín þunglyndisforvörn. Nú, svo ef maður klikkar á einhverju, þá er amk alveg víst að maður lærði eitthvað á því, þannig að engu er tapað. Það er erfitt að finna ballans í þessu með að hugsa í núinu en smá fram líka.
Til dæmis ætla ég að forðast eins og ég get að hafa áhyggjur og vera stressuð, þá er ég til dæmis ekki að njóta líðandi stundar, heldur einmitt að eyða líðandi stundu í að hugsa um einhverja ókomna stund sem kemur hvort sem ég er stressuð og áhyggjufull eða ekki. Alger tímasóun.

Jaaá, auðvelt að segja en erfitt að gera. Kannski bara spurning um þjálfun, jafnvel margra ára.


föstudagur, janúar 07, 2005

Skrítið...

..mig dreymir oft sama drauminn, alveg frá því ég var lítil. Hann er þannig að ég á að fara að leika í leikriti og kann ekki textann. Þetta er alveg hræðilega vond tilfinning og enginn trúir mér þegar ég er að reyna að segja frá þessu, í draumnum sko. Í þetta sinn átti ég að leika álfkonuna í Gosa. Allt í einu var klukkutími í sýningu og ég vissi ekkert um búninginn og hafði ekki hugmynd um hvað ég átti að segja eða gera í leikritinu. Þetta hlýtur að þýða eitthvað fyrst mig dreymir þetta svona aftur og aftur.

Hmmmm?

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Danir! -Farið nú að læra landafræði!

Það er greinilegt að Danir hugsa kalt til okkar...takið eftir, þið sem hafið tök á, Íslandi á veðurkortinu hjá TV2. Vatnajökull og allir hinir jöklarnir hafa runnið saman í einn risajökul sem nær yfir nánast allt landið nema Reykjanes, Snæfellsnes og Vestfjarðakjálkann.

OOhhh, loksins þegar við fengum að vera með á veðurkortinu....

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Einn af þessum góðu dögum.

Við HM sváfum, með hléum að vísu, til ellefu í dag og drifum okkur svo í heilsubótargöngu í kringum vatnið eftir hádegissnarl. Veðrið var bara gott, bjart og ekki of kalt. Þetta er bara liggur við Mallorca veður miðað við frostið á klakanum. Mér finnst pínu skrítið að grasið skuli vera svona fagurgrænt um miðjan vetur. Það kannski breytist því það á bara eftir að koma almennilegur vetur hér, því ef ég man rétt eru janúar, febrúar og mars verstu vetrarmánuðirnir hér. Nú ef illa viðrar hreyfir maður sig bara inni. Ég verð að lokka hana Röggu Dís, fimleikadís, fegurðardís og íþróttakennaradís með mér í VTG þegar hún kemur heim. (Vá! Þrýstingurinn!)

Ekki bara var göngutúrinn ánægjulegur, heldur brá ég mér í Døgn Netto og verslaði smá. Eins og venjulega keypti ég miklu meira en þessa örfáu hluti sem mig vantaði. Þetta voru samt þvílíkt góð kaup. Ég hélt að kassagæjinn hefði gert mistök en það var ekki. Þetta var semsagt fullur innkaupapoki, nánar tiltekið þetta: uppvöskunarlögur, brauð, 3 paprikur, kæfa, gulrótarpoki, stór jógúrtdolla, pakki með 10 kertum, líter af mjólk, hálfur annar líter af vatni, tvær perur og hvítlauksbrauð. Kannski ekki mjög dýrar vörur en mér fannst 88 krónur ekki mikið fyrir þetta. Vonandi gleymi ég engu en nú stend ég við þetta að versla í Netto og Fakta, ég sé að það borgar sig, ekki spurning.

Svo fjárfesti ég í gær í vigt í fyrsta sinn á ævinni. Það er planið að vigta sig einu sinni í viku og mæla líka sentímetrana. Svo verður líka haldin matardagbók og kaloríurnar reiknaðar út samviskusamlega. Gaman gaman gaman. Húrra fyrir mér!

Ta ta!

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Komin heim!

Gleðilegt ár allir og gleðileg jól svona eftir á. Ég náði ekki að senda jólakortin í ár, komst ekki lengra en að skrifa utan á umslögin svo að ég nota þau bara aftur á næsta ári. En semsagt allir sem ég þekki fá jóla- og nýárskveðju svona rafræna og hugræna.

Mikið er ólýsanlega gott að vera komin aftur heim í Kaupinhávn. Heim í MÍNA STURTU, MITT RÚM , MINN SÓFA og allt bara. Það er nú það besta við ferðalög, að koma aftur heim. Mér fannst nú bara svona la la að vera á Íslandi í þetta sinn en förum ekki nánar út í það. Ég er held ég ekkert að flýta mér þangað aftur.

Jamm svo bara hversdagurinn tekinn við. Kallinn og frumburðurinn í skólanum og við HM heima að taka upp úr töskunum og hafa það huggulegt. Það verður nóg að gera næstu mánuðina við prófalestur og hollustuát...ekki veitir af því ég held bara svei mér þá að ég sé búin að setja persónulegt met í líkamsfitumagni...bjakk. Sumarið kemur áður en maður veit af svo það er best að byrja strax í dag ætli maður að vera boðlegur á bikiní.

Kveðja, Regína bolla.