mánudagur, október 06, 2008

Jæja, ætli maður reyni ekki að æla einhverju út úr sér...

Yndilslegi litli ljóshærði strákurinn minn varð fjögurra ára í gær. Ekkert smá stoltur og ánægður með það og naut dagsins alveg í tætlur. Hann var alveg svoleiðis að rifna úr hamingju ennþá í morgun hoppandi og skoppandi í leikskólann. Mikið er dásamlegt að eiga börn og rosalega hlakka ég til að eignast mitt þriðja. Fyrir þá sem ekki vita er von á því í heiminn í apríl.

Hvað getur maður annað sagt....jú jú allt virðist á leið til andskotans en ég er hamingjusöm. Ég er fegin því að þessi kreppa kemur ekki eins illa við mig og hún virðist vera að leika aðra grátt. Ég ætla líka bara að einbeita mér að því að horfa á björtu hliðarnar og hafa trú á því að þetta lagist allt með tímanum sem ég veit að það gerir. Það er líka gott að hafa í huga að landið okkar er frábært, við eigum nóg af heitu og köldu vatni, ódýrt rafmagn, fisk í sjónum og frábært fólk. Sama hversu kreppan verður erfið eigum við alltaf eftir að geta hitað og lýst húsin okkar og haft nóg að borða. Við eigum flest öll fjölskyldu og vini í kringum okkur sem hjálpast að þegar erfiðleikar eru. Maður verður bara að taka einn dag í einu og vera bjartsýnn.