Aumingja forsetinn!
Jahérna hér! Þetta er nú meiri hringavitleysan sem farin er af stað í fjölmiðlum heima. Forsetinn bara skilinn út undan og sá sem ber ábyrgð á því skilur ekkert í hvers vegna forsetinn var reiður yfir því. Kennir honum frekar um að hafa ekki verið heima. Það var gaman að sjá að ég var ekki sú eina með plottkenninguna: Mr. Oddson reynir að gera lítið úr forsetanum svo hann geti seinna krækt í stólinn. Er það skrítið að maður hugsi svona? Það mátti alveg vita það fyrirfram að Mr. Oddson og kompaní myndu furða sig á viðbrögðum forsetans. Hvernig var listinn aftur? Já, viðbrögðin voru sérkennileg, óskiljanleg, einkennileg, furðuleg...ohhhh ég er örugglega að gleyma einhverju úr orðaforðabiblíu Mr. Oddsonar & kó. Gaman að sjá hvað þeir eru annars duglegir, hinir velgreiddu og velsnyrtu sveinar Mr. Oddsonar, að standa vörð um sinn mann með orðaforðabiblíuna góðu í rassvasanum. Ætli þeir séu með æfingar? Fyrst sá ég Halldór Blöndahl í Kastljósinu og hugsaði með mér....æji, Dabbi minn var þetta nú smart múf? Svo fór ég að hlusta á hann og hugsa málið betur. Þetta var kannski ekki svo vitlaust múf eftir allt saman, því það er nefninlega takmarkað hvað maður nennir að hlusta á HB. Hann byrjaði auðvitað á því að svara ekki því sem hann var spurður að og sagðist auk þess leiðast svona tal. Þá er það komið á hreint, HB leiðist að svara spurningum. Hann er alls ekki kominn í viðtal til þess. Hann er kominn til að segja það sem hann ætlar að segja, skiptir engu máli hvort það komi málinu við eða ekki. Það kemur málinu til dæmis alls ekki við hvort forsetinn hafi verið á landinu eða ekki. Það er aftur annað mál sem má tala um í öðru samhengi. Þetta er svo ódýrt bragð hjá MR. Oddsyni & kó, að rugla okkur með því að tala um eitthvað allt annað. Ég vona bara að það séu ekki margir sem falla fyrir þessu eldgamla trikki. Barnaleg hegðun. Það breytist ekki að það er MR. Oddson sem átti að láta forsetann vita af þessum ríkisráðsfundi og sýna honum þá kurteisi að leyfa honum sjálfum að ráða því hvort hann kæmi hingað á 7 mínútna fund eða ekki. "Hversvegna ætti forsetinn að koma hingað á 7 mínútna fund?", spurði Mr. Oddson fjölmiðlana. Svolítið seint að spyrja að því svona eftirá og kannski árangusríkara að spyrja bara forsetann sjálfan. Svo var það fyrrverandi meintur eftirsóttasti piparsveinn landsins, Guðlaugur Þór. Hann er einn sá lærðasti í orðaforðabiblíu Mr. Oddsonar og alltaf gaman að sjá hann þylja upp tuggurnar og klisjurnar úr henni. Svo er hann líka alveg útskrifaður úr strategíu-tækni flokksins. Ætli þetta gæti ekki verið hluti af henni (?):
*snúa vörn í sókn með því að beina talinu annað
*finna veikan punkt hjá andstæðingnum og tala bara um það, helst eitthvað gamalt, best ef það er úr stjórnartíð þeirra
*finnast allt furðu sæta ef einhver gagnrýni er á lofti um ágæti flokksins og bræður hans (sjá orðaforðabiblíu Mr. Oddsonar)
*aldrei að viðurkenna mistök eða biðjast afsökunnar
*flokkurinn talar sem ein rödd
Ég spái því að innan við viku fari hjólið aftur af stað...
miðvikudagur, febrúar 04, 2004
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|