fimmtudagur, júní 23, 2005

Hann á afmæli í dag
hann á afmæli í dag
hann á afmæli hann Smári
hann á afmæli í dag

Hann er þrjátíuogþriggja í dag
Hann er þrjátíuogþriggja í dag
Hann er þrjátíuogþriggja hann Smári
Hann er þrjátíuogþriggja í dag

Veiiii!

sunnudagur, júní 19, 2005

Mamma er löngu farin....nenni ekki að blogga þessa dagana, ekki að það hangi sérstaklega saman sko.

sunnudagur, júní 12, 2005

Jæja, lítið bloggað meðan mamma er í heimsókn. Alltaf er hún jafn óheppin með veður. Í þriðju heimsókn hennar til kóngsins köben fær hún ekkert nema leiðindaveður en góðan félagsskap. Já það er eins gott að voga sér ekki að vera neikvæður á meðan Pollýanna þykist hér ráða ríkjum.

Annars er þetta helst; HM hættur á brjósti fyrir tveimur dögum og mamman orðin frjáls ef svo má segja. Vei!

Allir kátir og enginn reiður, það er nú fyrir öllu.

Mig langar á Duran Duran og U2 tónleika...buuu-huuuu..

Túrúlú!

mánudagur, júní 06, 2005

Hvar er amman?

Ég horfi oft á morgunsjónvarpið á TV2, Go´morgen Danmark. Þátturinn er ágætur út af fyrir sig, þægilegur í morgunsárið meðan maður nuddar stýrurnar úr augunum og fær sér kaffi. Mér finnst samt ferlega asnalegt hvernig fólk er ráðið í þáttinn. Þau standa sig reyndar alveg með prýði þau sem eru þarna en það vantar alveg jafnvægi í þetta. Kvenkynið er ungt, fallegt og sexý en karlkynið komið með grátt í vanga eða ýstrubelg og kynþokkinn á undanhaldi. Annars er mér alveg sama um kynþokkan, þarf það endilega að vera skilyrði fyrir því að vera í sjónvarpi? Já, að minnsta kosti gildir það um konur. Auk þess er ég viss um að meiri hluti áhorfenda á þessa þætti a.m.k. eru konur! Eru það þær sem vilja endilega hafa þessar ungu sexý konur á hverjum morgni? Ég held einhvernvegin ekki. Það eru frekar þeir sem stjórna og ráða fólkið á sjónvarpsstöðinni, ég leyfi mér að fullyrða að það séu karlmenn. Svo þegar maður fer að hugsa málið er þetta víðar svona. Ég væri alveg til í að hafa svo sem eins og eina ömmu í þættinum, gráhærða, mjúka og hrukkótta. Rosalega væri það kósý. Hún gæti til dæmis kennt okkur yngri konunum að prjóna, hekla og sauma, ekki veitir af og áhuginn er örugglega fyrir hendi.

Hvað kom annars fyrir kvennabaráttuna? Ég man svo vel eftir því þegar ég var lítil þegar kvennalistinn var og hét og verið var að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Þá hugsaði ég með mér hvað ég væri nú heppin að þegar ég yrði fullorðin yrðu kynin jöfn og búið væri að leiðrétta ójafnréttið. Konur myndu sko alveg fá sömu laun og karlar og þær væru líka bankastjórar og forstjórar. Annars getur maður svo sem líka kennt sjálfum sér um að einhverju leyti er það ekki? Það er nú ekki eins og maður sé að gera mikið í málunum sjálfur. Frekar situr maður frústreraður í sófanum og bíður eftir því að aðrir berjist fyrir rétti sínum.

Við ættum kannski bara að taka okkur saman stelpur og mæta með kröfuspjöldin niðrí bæ og berjast fyrir ömmu. "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!"

Ha?!

fimmtudagur, júní 02, 2005

Gott á mig!

Var að koma úr fýluferð alla leið niðrá Islandsbrygge. Við ætluðum að fara að skoða vöggustofuna hans HMs en það var ekki búið að opna hana. Þetta kostaði mikla göngu í grenjandi rigningu. Stákarnir héldu svo áfram í aðra fýluferð í bíó, ætluðu á Star Wars en hún var svo ekki sýnd fyrr en eftir tvo og hálfan tíma, þannig að þeir fengu sér bara sjeik og komu svo heim. Ég ákvað að labba heim og fékk út úr þessu hinn ágætasta göngutúr í skítaveðri.

Það besta við svona fýluferðir er að koma heim aftur...ahhh og fá sér kaffibolla og hlýja sér aðeins undir teppi.

P.S. Fíla eða fýla...hmmm fýla held ég.

miðvikudagur, júní 01, 2005

oj...

Grár dagur og ég læt mér leiðast. Kem engu í verk enda heilinn bara hálfvirkur út af svefntruflunum.

Sá litli vaknaði oft í nótt eins og undanfarnar nætur. Nú á að fara að taka á honum stóra sínum og gera eitthvað í málunum. Samkvæmt fræðunum á barn á hans aldri að geta sofið í gegnum nóttina í 11 til 12 tíma. Vá, ef það væri hægt væri ég önnur manneskja. Skrítið hvað maður venst þessu samt ótrúlega.

Ég er hætt að gefa honum brjóst á næturna og á daginn, hann sem sagt fær bara brjóst á morgnana og á kvöldin. Hann virðist bara vera sáttur við þetta sem betur fer. Spurning að fara að grípa til aðgerða og leggja í prógramm til að hann læri að sofna sjálfur, þá á hann að fara að sofa í gegnum nóttina líka.

Það er örugglega best að drífa bara í þessu áður en hann fer að geta sest eða staðið upp í rúminu og hvað þá áður en hann fer að tala. Frekar er ég til í að leggja á mig nokkur erfið kvöld og nætur en að halda þessu áfram endalaust. Við verðum að fá að sofa á næturna sérstaklega þegar ég er byrjuð í skólanum. Svo er auðvitað betra fyrir barnið sjálft að fá almennilega hvíld og djúpan svefn.

Legg málið í nefnd og fundinn verður heppilegur tími í prógrammið sem fyrst.