mánudagur, júní 06, 2005

Hvar er amman?

Ég horfi oft á morgunsjónvarpið á TV2, Go´morgen Danmark. Þátturinn er ágætur út af fyrir sig, þægilegur í morgunsárið meðan maður nuddar stýrurnar úr augunum og fær sér kaffi. Mér finnst samt ferlega asnalegt hvernig fólk er ráðið í þáttinn. Þau standa sig reyndar alveg með prýði þau sem eru þarna en það vantar alveg jafnvægi í þetta. Kvenkynið er ungt, fallegt og sexý en karlkynið komið með grátt í vanga eða ýstrubelg og kynþokkinn á undanhaldi. Annars er mér alveg sama um kynþokkan, þarf það endilega að vera skilyrði fyrir því að vera í sjónvarpi? Já, að minnsta kosti gildir það um konur. Auk þess er ég viss um að meiri hluti áhorfenda á þessa þætti a.m.k. eru konur! Eru það þær sem vilja endilega hafa þessar ungu sexý konur á hverjum morgni? Ég held einhvernvegin ekki. Það eru frekar þeir sem stjórna og ráða fólkið á sjónvarpsstöðinni, ég leyfi mér að fullyrða að það séu karlmenn. Svo þegar maður fer að hugsa málið er þetta víðar svona. Ég væri alveg til í að hafa svo sem eins og eina ömmu í þættinum, gráhærða, mjúka og hrukkótta. Rosalega væri það kósý. Hún gæti til dæmis kennt okkur yngri konunum að prjóna, hekla og sauma, ekki veitir af og áhuginn er örugglega fyrir hendi.

Hvað kom annars fyrir kvennabaráttuna? Ég man svo vel eftir því þegar ég var lítil þegar kvennalistinn var og hét og verið var að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Þá hugsaði ég með mér hvað ég væri nú heppin að þegar ég yrði fullorðin yrðu kynin jöfn og búið væri að leiðrétta ójafnréttið. Konur myndu sko alveg fá sömu laun og karlar og þær væru líka bankastjórar og forstjórar. Annars getur maður svo sem líka kennt sjálfum sér um að einhverju leyti er það ekki? Það er nú ekki eins og maður sé að gera mikið í málunum sjálfur. Frekar situr maður frústreraður í sófanum og bíður eftir því að aðrir berjist fyrir rétti sínum.

Við ættum kannski bara að taka okkur saman stelpur og mæta með kröfuspjöldin niðrí bæ og berjast fyrir ömmu. "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!" "bedstemor i TV!"

Ha?!