fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Mikið er nú gott að vera til í dag. Margra mánaða fargi af herðum mínum er létt. Mér tókst í fyrsta skipti að skila af mér verkefni, -ekki á síðustu stundu. Nú er ég búin að láta "barnið" frá mér og það er dálítið erfiður viðskilnaður. Ekkert er hægt að bæta og breyta, það verður ekki aftur snúið. Líkaminn er greinilega ekki búinn að ná þessu því hann er alveg jafn samanhertur af vöðvabólgu, hausverk og almennum einkennum streitu. Það tekur dálítinn tíma að meðtaka að ég sé búin að skrifa. Líf mitt hefur undanfarið algjörlega gengið út á það, dag og nótt. Hugurinn stanslaust við verkefnið, ætti ég að gera þetta svona eða hinsegin? Ætti ég að sleppa þessu, eða bæta hinu við? Ég gerði a.m.k. það sem ég gat á þessum stutta tíma sem ég gaf mér og ég stend og fell með því, sama hvað ég hefði og hefði ekki átt að gera. Sem betur fer er þó tækifæri á að bæta sig í munnlega prófinu og möguleiki á að hækka sig í einkunn. En ég ætla að gefa mér frí fram á mánudag og byrja þá að undirbúa vörnina. Ég hlakka bara til, það verður svo frábært að ljúka þessu af, sama hvernig fer. Auðvitað er aðalmálið að ná, en ég er svolítið orðin metnaðargjarnari en það og langar alveg að fá meira en 6 fyrir verkefnið. Ég þori bara ekki að gera ráð fyrir neinu. Allt fyrir ofan 7 er bónus.

Jæja, best að setja á sig maskara, sem hefur verið frekar sjaldgæfur viðburður undanfarna daga, og drífa sig í bæjinn í lunch með Smára húsmóður...