Mánudagur til mæðu
Við fórum alla leið upp í IKEA í dag til að kaupa tvo hluti og þeir voru svo ekki til! OHHH pirr! Ekki nóg með það, heldur tók ferðalagið allt of langan tíma. Við ætluðum nefninlega að vera voðalega sniðug og fara frekar í IKEA í Tåstrup en ekki i Glostrup eins og áður, til að vera fljótari. Vorum sem sagt í stuttu máli lengur. Svo náði ég ekki að fara í DDV til að stíga á vigtina...svekk.
En fussumsvei, skítt með það, því að nefninlega ég, Regína Hjaltadóttir, er búin að missa hvorki meira né minna en 1,3 kíló á fyrstu vikunni minni. O hvað ég er stolt af þessum árangri. Þetta er fínt pepp og best að halda áfram. Mig langar ekki einu sinni að svindla. Ég neita því þó ekki að súkkulaðiþörfin hefur sko kallað en þá hugsa ég bara nei ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó, ég ætla að verða mjó....heilaþvottur, það er sko málið. Djöfull væri ég samt til í að spóla áfram, mér finnst tíminn eiginlega silast áfram og ég vil helst bara missa kílóin öll á nó tæm. Þannig gengur það víst ekki...no pain no gain.
Já fyrst maður er kominn á enskar nótur þá er ekki úr vegi að koma með smá tilkynningu. Ég tók um það ákvörðun í vikunni að ég ætla fara í ensku í háskólanum næsta haust. Eins og Danske Bank segir: "Gør det du er bedst til". Ég vaknaði bara einn morgunninn og sá ljósið. Þetta var eitthvað svo einfalt allt í einu. Ég ætla bara að læra það sem mér finnst skemmtilegt, lífið er allt of stutt í eitthvað annað. Mig langar að verða framhaldsskólakennari og þá bara geri ég það. Einfalt mál. Ég hlakka þvílíkt til að byrja. Rosalegur léttir er að vera búin að taka ákvörðunina.
Annars var helgin góð. Við Smári enduðum hana með því að fara út að borða og HM fór í sína fyrstu pössun á meðan. Við fórum á indverska staðinn á Amagerbrogade og fengum vondan forrétt en góðan mat. Það var líka bara kominn tími til að við færum eitthvað að kærustuparast enda héldum við upp á 11 ára kærustuparaafmælið okkar í leiðinni. En aumingja HM þótti erfitt að láta passa sig. Grét alveg svakalega í klukkutíma og vildi ekki sjá platmjólkina sem ég skildi eftir handa honum því ekkert gekk að mjólka mig. Hann var alveg náfölur greyjið og aldrei hef ég áður séð hann svona úrvinda af þreytu, greyjið litla. Mér fannst ég ægilega vond að hafa skilið hann svona eftir. Svona er maður bara mikil ungamamma. Þetta þýðir samt ekki að ég eigi ekki eftir að láta hann í pössun aftur, ég er alveg búin að jafna mig á þessu og hann er örugglega búinn að steingleyma öllu.
Well læt þetta duga í bili...túrúlú!
mánudagur, febrúar 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|