föstudagur, apríl 29, 2005

Skrýtna tilvera

Stundum er svo erfitt að skilja tilganginn með lífinu. Hversvegna eru ástvinir okkar teknir frá okkur of snemma? Reynum að njóta á meðan er.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag,
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir, sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir, sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

En það er margt um manninn á svona stað,
og meðal gestanna sífelldur þys og læti.
Allt lendir í stöðugri keppni um að koma sér að
og krækja sér í nógu þægilegt sæti.

En þó eru sumir, sem láta sér lynda það,
að lifa úti' í horni, óáreittir og spakir,
því það er svo misjafnt, sem mennirnir leita að,
og misjafn tilgangurinn, sem fyrir þeim vakir.

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl,
þó deilt sé um, hvort hótelið sjálft muni græða.
En við, sem ferðumst, eigum ei annars völ.
Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn,
og viðbúnaður, er gestirnir koma í bæinn,
og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn.
En áhyggjan vex, er menn nálgast burtferðardaginn.

Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss,
að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss,
er dauðinn, sá mikli rukkari, réttir oss
reikninginn yfir það, sem var skrifað hjá oss.

Þá verður oss ljóst, að framar ei frestur gefst
né færi á að ráðstafa nokkru betur.
Því alls, sem lífið lánaði, dauðinn krefst,
í líku hlutfalli og Metúsalem og Pétur.

Tómas Guðmundsson.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sumir fara en aðrir koma í stað...

Bæti hér með Siggu litlu frænku minni við linkana góðu. Hún er reyndar ekkert lítil lengur nema síður sé, gengur með sitt annað barn. Gæti maður orðið stærri? Það er bara ég sem er svona gömul, ég man nebblega svo vel eftir henni þegar hún var lítil...pínulítil með bleyju og skrækan róm og kleip allt og beit. Hún er sem betur fer hætt á bleyjunni og að bíta og vonandi að klípa en röddin liggur enn hátt. Velkomin kæra frænka!

Hún Ausa mín önnur enn "minni" frænka er greinilega hætt þannig að hún fer út af listanum.

Já og næstum búin að gleyma...Rúna vinkona, AKA múgímama, bætist við líka.

Sjúbbdírarírei!

mánudagur, apríl 25, 2005

Mér finnst að það ætti að banna að hafa fiskbúðir lokaðar á mánudögum...

laugardagur, apríl 23, 2005

Börn og minningar

Jamm...ætli það sé ekki best að blogga smá. Hmm...það sem drifið hefur á daga mína síðan síðast. Ég man eiginlega ekki eftir neinu nema tannatöku HMs. Ég uppgötvaði mér til hálfgerðrar skelfingar að tönnin sú þriðja er að kíkja úr efri gómi, þannig að það er ekki furða þó greyjið litla láti aðeins í sér heyra. Ég bíð spennt eftir Bonjella sendingu frá Íslandi, skilst að það geti bjargað nætursvefni foreldra....ohhh get ekki beðið.
Annars er hann voða góður, er bara aðeins að láta til sín taka. Rekur upp ógurleg öskur stundum, svona þegar hann er að láta vita af sér. He he he, ótrúlegt hvað þessi litlu kríli eru mannaleg svona snemma, hann ekki nema sex og hálfs mánaða gamall og lætur stundum eins og skapvont gamalmenni. Hann er ekkert mikið að færa sig úr stað. Veltur sér reyndar oft fram og til baka en er ekki farinn að mjaka sér áfram né aftur á bak. Maður bíður spenntur eftir því eins og öðrum framförum í þroska. Í dag "dansaði" hann í fyrsta skipti. Það var ótrúlega fyndið og sætt.

Stóri bróðir er auðvitað líka að þroskast og breytast. Ótrúlegt að bráðum séu 10 ár síðan hann fæddist. Hann byrjaði um mánaðarmótin í klúbb. Það er svona eldri deild í dagvistinni, voða flott. Hann bara varð 2 árum eldri daginn sem hann byrjaði...he he he, gelgjan alveg að drepa hann stundum. Alltaf að setja vax í hárið og svona. Samt er ekki kominn áhugi á hinu kyninu ennþá, það kemur víst fyrr en síðar.

Úff, ég man svo vel eftir því sjálf hvernig var að vera 10 ára. Þá var ég skotin í strák í annað skipti á ævinni. Hann hét Árni Heimir og hljóp eins og stelpa og spilaði á píanó. Ég man að hann var alltaf í flauelsbuxum með pínu feit læri og í Nokia stígvélum. Já, og í úlpu með svona loðkragahettu ...hehehe, æðisleg tíska. Maður var alveg alvöru skotinn...fékk rosa fiðrildi í magann og fór alveg í kleinu þegar viðkomandi var nálægt. Svo var ég reyndar líka alltaf skotin í Svenna síðan úr Ísaksskóla. Já og Fidel, hann var nú voða sætur, solítið svona súkkulaði týpa...hehehe og besti vinur hans og Svenna (og Tedda) og bekkjarfélagi okkar var enginn annar en handboltahetjan Ólafur Stefánsson, mér fannst nú ekkert varið í hann.

Já, það rifjast margt upp:
moonboots, skærgrænar grifflur, legghlífar, eyrnaskjól, Grýlurnar, gamli góði Hlunkurinn, mjólkurbúðin í Tónabæ, Tónabíó, Words don´t come easy, Billy Jean is not my lover, Á vellinum dansa þeir vikivaka, brennó, fallin spýta, "eina króna", gloss með jarðarberjabragði, sjónvarpsleysi á fimmtudögum, Dallas á miðvikudögum, Húsið á sléttunni, Stundin okkar, Sunnudagshugvekjan, Löður, Lög unga fólksins, Rás 2 byrjar, Tívolíið á Klambratúni, Bóbó á Holtinu og rónarnir á Hlemmi, balletttímar í Skúlatúninu, packmannspilakassar, litað hársprey, tjullpils, ruslapokakjólar og svartur varalitur, leikfimitímar hjá Jónínu Ben, kaupmaðurinn á horninu, 50 aura kúlur....

Maður sér það þegar maður lítur til baka að góðar minningar eru gulls ígildi.
Það er málið, að búa til góðar minningar fyrir börnin sín.

föstudagur, apríl 15, 2005

Ljúfa líf...

Mikið var hressandi að fá sér rauðvínstár í góðum félagsskap í gærkveldi. Takk fyrir mig. Gott í dag líka að chilla á legepladsen með litlu gríslingana, kjafta við mann og annan og grilla puslur. Veðrið lék við okkur, ekki of heitt og ekki of kalt, yndislegt. Þetta er gott samfélag hér, hver perlan á fætur annarri. Mikið er ljúft þetta kollegílíf, þess verður saknað þegar því líkur og annað tekur við.

Þetta verður dúndurgott sumar, finn það á mér.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hugsi....kabúmm!!!

Jæja, haldið´ekki að stúlkunni hafi tekist að ná sér í betalingsseðil í ræktina. Næsta skref er svo að taka passamyndir og borga. Vá, þetta er svo erfitt. Svo byrja, það er nú enn annað. Svona er ég núna...allt er svo erfitt...kann ekki að framkvæma, bara hugsa og hugsa og hugsa þangað til hausinn springur.

Talandi um sprengingu...þessa sögu kom frumburðurinn með um daginn. Sagðist hafa lesið þetta í sögubók í skólanum, sko í faginu sögu!
Í seinni heimstyrjöldinni eignaðist par nokkuð stúlkubarn hér í Kaupinhávn. Vegna þess hve mikið var af sprengingum og látum var hún skírð í flýti Raqueta Bombardina.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Suma daga er brunnurinn bara tómur...

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Svefnleysi

Þá er tíminn enn einu sinni á flugi. HM orðinn hálfs árs. Eftir annað hálft ár verður hann orðinn eins árs. Vá hvað ég er góð í reikningi! Greyjið litla er alltaf vaknandi á næturna og aumingja mamman líka. Veit ekki alveg hvers vegna hann er að vakna svona oft, kannski að hann vilji bara hafa það kósý og fá sér sopa. Kannski eru fleiri tennur á leiðinni, veit ekki. Er búin að prófa að gefa honum pela fyrir nóttina í von um að hann svæfi betur. Hann drakk alveg 250 ml í gærkvöldi plús brjóst svona klukkutíma seinna en var samt alltaf að vakna. Ég held að þetta sé sem sagt ekki hungur. Svo vildi hann ekki pelann í kvöld. Æ, svo ætlaði ég að byrja á að venja hann á að sofna sjálfur í rúminu með grát aðferðinni en við gáfumst upp. Er hann ekki of lítill? Hann kann ekkert að sofna sjálfur því hann sofnar alltaf á brjóstinu. Ég er að verða steikt, nei ég meina steiktari í hausnum á þessu svefnleysi. Ég þrái SVO 8 tíma svefn! Svo er hann á góðri leið með að flytja í rúmið okkar á alla 140 sentímetrana okkar, svo við sofum eins og spítukallar og herðarnar bólgnar. Ég sofna bara alltaf þegar ég gef honum og næ ekki að flytja hann aftur í rúmið hans.

Já, þetta er vesenið sem er í gangi núna. Voðalega þætti mér vænt um reynslusögur og ráðleggingar frá ykkur stelpur.

góða nótt (vonandi) !

sunnudagur, apríl 03, 2005

Sól og vor

Jæja loksins kom vorið. Ég ætla að rifja upp gömul kynni mín við hana sól.

föstudagur, apríl 01, 2005

Nú er ég orðin stór.


Þegar ég var lítil/unglingur fannst mér alveg geggjað að foreldrar mínir hefðu lifað Bítla tímabilið fyrir heilum tuttugu árum. Semsagt in the eighties voru tuttugu ár frá the sixties. Nú eru tuttugu ár frá the eighties....vá, og ég er oft að segja Benna frá hinum og þessum lögum og hljómsveitum sem voru vinsælar þegar "við pabbi þinn vorum unglingar". Æji, þetta er voða skrítið eitthvað.