Börn og minningar
Jamm...ætli það sé ekki best að blogga smá. Hmm...það sem drifið hefur á daga mína síðan síðast. Ég man eiginlega ekki eftir neinu nema tannatöku HMs. Ég uppgötvaði mér til hálfgerðrar skelfingar að tönnin sú þriðja er að kíkja úr efri gómi, þannig að það er ekki furða þó greyjið litla láti aðeins í sér heyra. Ég bíð spennt eftir Bonjella sendingu frá Íslandi, skilst að það geti bjargað nætursvefni foreldra....ohhh get ekki beðið.
Annars er hann voða góður, er bara aðeins að láta til sín taka. Rekur upp ógurleg öskur stundum, svona þegar hann er að láta vita af sér. He he he, ótrúlegt hvað þessi litlu kríli eru mannaleg svona snemma, hann ekki nema sex og hálfs mánaða gamall og lætur stundum eins og skapvont gamalmenni. Hann er ekkert mikið að færa sig úr stað. Veltur sér reyndar oft fram og til baka en er ekki farinn að mjaka sér áfram né aftur á bak. Maður bíður spenntur eftir því eins og öðrum framförum í þroska. Í dag "dansaði" hann í fyrsta skipti. Það var ótrúlega fyndið og sætt.
Stóri bróðir er auðvitað líka að þroskast og breytast. Ótrúlegt að bráðum séu 10 ár síðan hann fæddist. Hann byrjaði um mánaðarmótin í klúbb. Það er svona eldri deild í dagvistinni, voða flott. Hann bara varð 2 árum eldri daginn sem hann byrjaði...he he he, gelgjan alveg að drepa hann stundum. Alltaf að setja vax í hárið og svona. Samt er ekki kominn áhugi á hinu kyninu ennþá, það kemur víst fyrr en síðar.
Úff, ég man svo vel eftir því sjálf hvernig var að vera 10 ára. Þá var ég skotin í strák í annað skipti á ævinni. Hann hét Árni Heimir og hljóp eins og stelpa og spilaði á píanó. Ég man að hann var alltaf í flauelsbuxum með pínu feit læri og í Nokia stígvélum. Já, og í úlpu með svona loðkragahettu ...hehehe, æðisleg tíska. Maður var alveg alvöru skotinn...fékk rosa fiðrildi í magann og fór alveg í kleinu þegar viðkomandi var nálægt. Svo var ég reyndar líka alltaf skotin í Svenna síðan úr Ísaksskóla. Já og Fidel, hann var nú voða sætur, solítið svona súkkulaði týpa...hehehe og besti vinur hans og Svenna (og Tedda) og bekkjarfélagi okkar var enginn annar en handboltahetjan Ólafur Stefánsson, mér fannst nú ekkert varið í hann.
Já, það rifjast margt upp:
moonboots, skærgrænar grifflur, legghlífar, eyrnaskjól, Grýlurnar, gamli góði Hlunkurinn, mjólkurbúðin í Tónabæ, Tónabíó, Words don´t come easy, Billy Jean is not my lover, Á vellinum dansa þeir vikivaka, brennó, fallin spýta, "eina króna", gloss með jarðarberjabragði, sjónvarpsleysi á fimmtudögum, Dallas á miðvikudögum, Húsið á sléttunni, Stundin okkar, Sunnudagshugvekjan, Löður, Lög unga fólksins, Rás 2 byrjar, Tívolíið á Klambratúni, Bóbó á Holtinu og rónarnir á Hlemmi, balletttímar í Skúlatúninu, packmannspilakassar, litað hársprey, tjullpils, ruslapokakjólar og svartur varalitur, leikfimitímar hjá Jónínu Ben, kaupmaðurinn á horninu, 50 aura kúlur....
Maður sér það þegar maður lítur til baka að góðar minningar eru gulls ígildi.
Það er málið, að búa til góðar minningar fyrir börnin sín.
laugardagur, apríl 23, 2005
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|