fimmtudagur, september 29, 2005

Baktal

Voðalega finnst mér ömurlegt þegar fólk þarf að úthúða öðru fólki, eins og ég rakst á á netinu áðan. Nánar til tekið var verið að tala eða frekar skrifa um Jónínu nokkra Benediktsdóttur á þekktum, íslenskum net-fjölmiðli . Mér finnst enginn eiga skilið svona umtal í fjölmiðlum. Það er ekki hægt að stjórna því sem fólk talar um sín á milli en það er hægt að hafa siðferðislegar reglur um svona lagað í fjölmiðlum. Nú getur vel verið að þær séu til og hugsanlega leyfi ekki að meinyrði, illt umtal eða slúður séu birt á netinu, ég þekki það ekki en vona að í okkar litla og nútímalega landi séu þessar reglur til í einhverri mynd.

Mér finnst eiginlega brjóstumkennanlegt að þetta fólk, sem mér sýnist vera fáir aðilar sem skrifa oft, hafi virkilega ekkert annað betra við tímann að gera en að velta sér upp úr annara manna vandamálum og ætti kannski frekar að nota tímann í að einbeita sér að bæta sitt eigið líf. Væri heimurinn ekki betri og friðsamari ef allir nýttu tíma sinn og orku í það?

Ég viðurkenni að ég hef tekið þátt í baktali, bæði með því að tala og að þeigja. Ef út í það er farið, veit ég ekki hvort er verra. Ég held að það sé best að hlusta á samviskuna sem er ég trúi að sé inni í okkur öllum og baktala ekki aðra. Það framkallar bara neikvæðar hugsanir og best að kæfa það strax í fæðingu. Það er ekki nema sanngjart að gefa þeim sem rætt er um tækifæri til að verja sig. Þannig að maður ætti ekki að segja neitt um aðra sem maður myndi ekki segja við aðra.

Mér varðar bara akkúrat ekkert um einkalíf fólks sem ég í ofanálag þekki ekki neitt og hef ekki einu sinni séð. Þetta Baugsmál virðist vera voðalega ljótt allt saman og greinilega miklar tilfinningar í gangi. En við hin, "almenningur", eigum auðvitað rétt á upplýsingum um viðskiptalegar fréttir af þessu máli. Ég held að fjölmiðlar ættu að hlusta á samviskuna og birta ekki baktal í fjölmiðlum en sinna frekar upplýsingaskyldu sinni sem við eigum kröfu á og birta það sem máli skiptir en ekki eitthvað ómerkilegt slúður. Eða er almenningur kannski ekki samviska fjölmiðlanna lengur, heldur eigendur þeirra?

Ég ætlaði að setja linkinn á þetta baktal um Jónínu í textann en hætti við, því þá finnst mér ég vera að taka þátt í þessu rugli.

Nú er hver ábyrgur fyrir sjálfum sér!

miðvikudagur, september 28, 2005

Don´t worry, be happy!

æ hvað þetta er eitthvað grár dagur. Ég fór ekki í skólann því Smári og HM eru veikir og maður er í því að hugsa um liðið og þrífa. Þetta var eiginlega ekki heppilegur tími fyrir veikindi því það er nóg að gera í skólanum og hópavinna í gangi og allt. Svo er ég líka eitthvað slöpp en samt ekki beint veik...óþolandi, getur þetta ekki bara verið annað hvort eða?

Ég reyni bara að brosa og hugsa jákvætt, setti Spilverkið í spilarann og svo Abbey Road og eldaði svo grjónagraut handa okkur. Maður á víst ekki að vera upptekinn af því sem maður getur ekki breytt og ég get víst ekki breytt því að Smári sé veikur og dagurinn hafi þess vegna ekki farið í það sem ég vildi. Þess vegna ætla ég ekki að sóa orku í að svekkja mig á því, frekar bara að nota tímann í að njóta þess að vera heima með yndislegustu strákum í heimi og fegra heimilið.

Svei mér þá, kíkir ekki bara sólin akkúrat núna á milli skýjanna. It´s a sign!

mánudagur, september 26, 2005

Klukk

Loksins var ég klukkuð, hjúkk að ég var ekki skilin útundan mar. Hmmm, já fimm staðreyndir um mig sem ekki allir vita. Ókei:

  1. Ég fæ mér morgunmat áður en ég bursta tennurnar.
  2. Ég er óforbetranlegur nautnaseggur.
  3. Ég þoli ekki sjálfstæðisflokkin og fæsta sem eru í honum. (sorrý Sigurlaug)
  4. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða ógeðslega fræg leikkona og söngkona.
  5. Mig dreymir um að eiga hús í Flatey á Breiðarfirði, eitt stykki á Spáni, eitt í Hafnarfirði, kannski eitt í Reykjavík, veit það ekki og eitt í Danmörku. Þetta er bara svona til að byrja með svo ég þurfi aldrei að búa of lengi á sama staðnum því ég er flökkukind og flækingssál. Ég veit að þetta er óraunhæft já já en ef maður á ekki sína drauma hvað á maður þá?
Ja hérna... ég hélt að ég yrði í algjörum vandræðum með þetta en ég gæti sko alveg haldið áfram. Kannski að ég komi með framhald seinna.

þriðjudagur, september 20, 2005

Já já, ég hef bara ekkert að segja...gaman að segja frá því.

fimmtudagur, september 15, 2005

Fyrir ekki svo löngu síðan fannst mér sólarhringurinn heldur langur. Núna er hann allt of stuttur.

þriðjudagur, september 13, 2005

já já, þið segið það....

sunnudagur, september 11, 2005

geeegt agera

Jeminn, ég er alveg að drepast úr stressi. Það er rosa pressa í gangi í skólanum. Mikið af mikilvægum verkefnum, stór próf í desember og svo þarf ég að finna fyrirtæki til að skrifa ritgerð fyrir, fyrir 1. nóvember. Vá þrisvar sinnum "fyrir" í einni setningu. Svo er maður náttúrulega tveggja barna móðir, stundum held ég reyndar að ég sé þriggja barna móðir....hehemm, best að fara ekki nánar út í það. Stundum finnst mér þetta allt saman óyfirstíganlegt en veit samt innst inni að ef ég vil láta þetta ganga upp þá geri ég það bara. Ég verð orðin róleg um leið og ég er búin að finna fyrirtæki og ákveða hvað ég ætla að skrifa um, þarf semsé að ákveða það líka fyrir 1. nóv. Ég er a.m.k komin á smá skrið, búin að kaupa tvær bækur og aðeins byrjuð að lesa. Og í sambandi við ritgerðina er ég að pæla í íslensku fyrirtæki sem er líka í Danmörku...svona uppá framtíðarvinnu á Íslandi. Sneeeðugt hmm?

þriðjudagur, september 06, 2005

hmm..jæja, bara 400 grömm farin þessa vikuna. Enda er ég búin að svindla doldið og verð að viðurkenna að ég er orðin ansi þreytt á því að þurfa að borða svona mikið grænmeti. En það þýðir ekkert að gefast upp....takmarkinu skal náð!

sunnudagur, september 04, 2005

Hasar

Jæja, fórum loksins út saman fjölskyldan í dag. Við skelltum okkur á sirkus Arena. Voða löng sýning en flott. Tókum lest heim og ekki vildi betur til en að allir farþegar voru beðnir að yfirgefa lestina því það var einhver yfirgefin taska í henni. Úúú, hasar. Það skrítna var að þetta snerti mig ekki, ég var ekkert stressuð eða hrædd. Hugsaði bara um hvar væri best að ná strætó heim.

föstudagur, september 02, 2005

Veikindi

oj...hér eru allir búnir að vera veikir í nokkra daga. Uppköst og niðurgangur og þesskonar skemmtilegheit. Namm. Ég er öll að skríða saman sem betur fer, held að ég treysti mér meira að segja út í búð. Uppvaskinu er nánast slátrað og allt að færast í eðlilegt horf á heimilinu. Kannski að það verði meira að segja elduð íslensk kjötsúpa í kvöld. Nammi namm!