fimmtudagur, september 29, 2005

Baktal

Voðalega finnst mér ömurlegt þegar fólk þarf að úthúða öðru fólki, eins og ég rakst á á netinu áðan. Nánar til tekið var verið að tala eða frekar skrifa um Jónínu nokkra Benediktsdóttur á þekktum, íslenskum net-fjölmiðli . Mér finnst enginn eiga skilið svona umtal í fjölmiðlum. Það er ekki hægt að stjórna því sem fólk talar um sín á milli en það er hægt að hafa siðferðislegar reglur um svona lagað í fjölmiðlum. Nú getur vel verið að þær séu til og hugsanlega leyfi ekki að meinyrði, illt umtal eða slúður séu birt á netinu, ég þekki það ekki en vona að í okkar litla og nútímalega landi séu þessar reglur til í einhverri mynd.

Mér finnst eiginlega brjóstumkennanlegt að þetta fólk, sem mér sýnist vera fáir aðilar sem skrifa oft, hafi virkilega ekkert annað betra við tímann að gera en að velta sér upp úr annara manna vandamálum og ætti kannski frekar að nota tímann í að einbeita sér að bæta sitt eigið líf. Væri heimurinn ekki betri og friðsamari ef allir nýttu tíma sinn og orku í það?

Ég viðurkenni að ég hef tekið þátt í baktali, bæði með því að tala og að þeigja. Ef út í það er farið, veit ég ekki hvort er verra. Ég held að það sé best að hlusta á samviskuna sem er ég trúi að sé inni í okkur öllum og baktala ekki aðra. Það framkallar bara neikvæðar hugsanir og best að kæfa það strax í fæðingu. Það er ekki nema sanngjart að gefa þeim sem rætt er um tækifæri til að verja sig. Þannig að maður ætti ekki að segja neitt um aðra sem maður myndi ekki segja við aðra.

Mér varðar bara akkúrat ekkert um einkalíf fólks sem ég í ofanálag þekki ekki neitt og hef ekki einu sinni séð. Þetta Baugsmál virðist vera voðalega ljótt allt saman og greinilega miklar tilfinningar í gangi. En við hin, "almenningur", eigum auðvitað rétt á upplýsingum um viðskiptalegar fréttir af þessu máli. Ég held að fjölmiðlar ættu að hlusta á samviskuna og birta ekki baktal í fjölmiðlum en sinna frekar upplýsingaskyldu sinni sem við eigum kröfu á og birta það sem máli skiptir en ekki eitthvað ómerkilegt slúður. Eða er almenningur kannski ekki samviska fjölmiðlanna lengur, heldur eigendur þeirra?

Ég ætlaði að setja linkinn á þetta baktal um Jónínu í textann en hætti við, því þá finnst mér ég vera að taka þátt í þessu rugli.

Nú er hver ábyrgur fyrir sjálfum sér!