laugardagur, júní 30, 2007

Einu sinni var Pétur. Hann var frábær strákur, ótrúlega hæfileikaríkur og ótrúlega góður. Hann datt niður af húsþaki og dó þegar hann var bara tvítugur. Ég, jafnaldri hans og margir fleiri fengum sjokk. Ég þekkti hann ekki náið en nóg til að reiðast og syrgja dauða hans mikið. Þetta allt saman rifjaðist upp fyrir mér núna í vikunni þegar ég sá myndband sem vinir hans gerðu í minningu hans eftir að hann dó. Þar sá ég upptöku af honum þar sem hann birtist ljóslifandi fyrir mér og ég mundi eftir honum eins og ég hefði hitt hann í gær, þó það séu 13 ár síðan. Það rifjaðist upp fyrir mér líka hvað það er ósanngjarnt þegar ungir krakkar deyja í blóma lífsins og framtíðin bíður eftir þeim. Svo margt sem þeir eiga eftir að upplifa en fá ekki tækifæri til. Og ástvinir standa eftir með minninguna og spurninguna AF HVERJU??? "Þeir sem Guðirnir elska, deyja ungir" Hvaða huggun er það? Ég hef aldrei skilið þessa setningu. Á maður þá bara að hugsa, jæja þetta er allt í lagi guðirnir elskuðu hann svo mikið að hann varð að deyja ungur? Hvaða bull er það? Á það að fá mann til að líða betur? Það er ekkert sem breytir ósanngirninni, sorginni og örvæntingunni þegar ungir krakkar deyja eða hver sem er, þegar út í það er farið. En að sama skapi verður maður að sætta sig við að ekki er hægt að breyta því sem orðið er og eins gott að lifa með því. Og halda minningunni á lofti, þannig lifa þeir sem deyja áfram í okkur.