fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Ég er oft í hálfgerðum vandræðum með hversu persónulegt ég vil hafa þetta blogg mitt. Núna er komið upp mál sem ég hef aðeins þurft að hugsa mig um hvort ég ætti nokkuð að vera að skrifa um. Eftir smá umhugsun ákvað ég að gera það...í "versta" falli fengi ég kannski bara stuðning og jafnvel reynslusögur frá öðrum.

Málið er að á mánudaginn fór ég til kvensjúkdómalæknis og þá kom í ljós að ég er með æxli við eggjastokkinn. Læknirinn gat ekki með sínum tækjum mælt nákvæmlega stærðina né séð frá hvorum eggjastokknum þetta er. Hún sagði samt að þetta væri a.m.k. kíló og er svipað að stærð eins og legið þegar kona er gengin 16 vikur á meðgöngu. Það eru 85-90% líkur á því að þetta sé góðkynja og ég held að það komi ekki í ljós fyrr en ég verð skorin upp. Ég bíð núna eftir að spítalinn kalli mig í aðgerð.

Ég er þess vegna kannski svolítið skrítin þessa dagana og get ekki beðið eftir að komast í aðgerðina. Það er samt rosalegur léttir að hafa fengið þessa skoðun eftir að spítalinn neitaði að taka við mér fyrir nokkru! Ég veit núna a.m.k. hvað er í gangi því ég vissi að eitthvað væri þarna, ég finn svo greinilega fyrir þessu.

Ég hef ekkert verið veik og líður þannig séð vel. Þetta er bara ónotatilfinning sem ég vil endilega losna við og komast í aðgerðina sem fyrst svo hægt sé að skera þetta burt. Þá vitið þið hvar ég er ef ég skyldi nú hverfa aðeins frá blogginu.