Þá er ferlið komið í gang. Raunveruleika- og óraunveruleikatilfinningar skiptast á og hausinn verður bara hálf skrítinn og þreyttur við að meðtaka þetta allt saman. Í stuttu máli var ég skoðuð hátt og lágt og frædd um aðgerðina og spurð sömu spurninganna af þessum og hinum starfsmanni spítalans. Þetta tók u.þ.b. fjóra tíma af deginum og svo kom ég bara heim og lagði mig. Ég hélt, eins og undanfarið, þegar ég vaknaði að þetta hefði allt saman bara verið draumur.
Það á að fjarlægja annan eggjastokkinn, það er á hreinu. Ef í ljós kemur eitthvað meira í aðgerðinni, gæti meira verið fjarlægt en það er víst frekar ólíklegt. Það bendir allt, enn sem komið er, til þess að þetta sé góðkynja æxli, sem kallast tvíburabróðir, jafnvel tvö kíló að þyngd. Ég fékk þá útskýringu að þetta væru ruglaðar frumur í eggjastokknum sem bara settu allt í gang eins og þær ættu að búa til barn. Svo bara stækkar þetta og stækkar og því stærra sem þetta er, því meiri líkur eru á því að þetta sé góðkynja, því illkynja verður víst ekki stórt, eða á a.m.k. erfiðara með það. Svo eru fleiri punktar sem benda til að þetta sé góðkynja; þetta er hreyfanlegt, ég er ung og ég hef ekki verið veik. Ég fer svo í tölvusneiðmyndatöku á morgun þar sem hægt verður að rannsaka þetta betur.
Það er ekki laust við að ég kvíði fyrir þessu en hlakka líka til að losna við þetta. Þetta er bara viðameiri aðgerð en ég gerði mér grein fyrir. Svipað og keisaraskurður, skorið á sama stað og svipað langur tími fer í að jafna sig. Það var ekki alveg á prógramminu hjá mér. Góðu fréttirnar eru þær að þó að eggjastokkurinn verði tekinn, hefur það engin áhrif á frjósemi né hormónastarfsemi. Fjúkk, því við erum ekki alveg til í að hætta kannski alveg strax að framleiða börn.
Já og svo eitt í lokin: Mikið var ég hissa á því að maður þarf að borga fyrir að leggja á bílastæðum spítalans...HNEYKSLI SEGI ÉG, HNEYKSLI!!!
|