sunnudagur, nóvember 25, 2007

Jæja, kerlingin bara mætt á svæðið. Komin heim í faðm fjölskyldunnar í litla yndislega kofann á Sogaveginum. Fékk sem sagt að fara heim í gær og bara við ágætis heilsu. Aðgerðin heppnaðist víst vel; ekkert grunsamlegt sást og þeir náðu æxlinu í heilu lagi, sem var víst frekar mikið atriði. Verra hefði verið ef það hefði sprungið og sýkt kviðarholið. Ég mæti svo í heftatöku á föstudaginn og þá fæ ég líka svar úr ræktuninni. Þetta fór bara eins og best verður á kosið.

Ég hef það bara ágætt, hélt satt að segja að ég yrði miklu meira kvalin og á rosalegum verkjalyfjum. Ég finn auðvitað fyrir þessu, bæði innvortis og svo fyrir skurðinum en get ekki sagt að ég kveljist beint. Svo tek ég bara panodil og vostar -ótrúlegt alveg! Ég verð samt að passa mig að ætla mér ekki um of, ég er fljót að þreytast ef ég er of lengi á fótum og svo má ég ekki lyfta neinu, beygja mig niður eða teygja mig upp.

Maður er náttúrulega í góðu yfirlæti á Hótel Smára og ekki hægt að kvarta. Á sömu stofu á spítalanum lá kona sem var mikið veik og að ég held með krabbamein. Ég prísa mig sæla að hafa bara þurft að fara í þessa litlu aðgerð miðað við hvað hún er að ganga í gegnum aumingja konan.

Nú verð ég bara að halda andanum uppi og reyna að fá ekki "the blues" sem er víst algengt hjá konum í mínum sporum. Hringingar og heimsóknir eru sko vel þegnar. Ef ég sef þá bara svara ég ekki. Ég á eftir að vera ein alla daga á meðan strákarnir eru í sínum stofnunum, þannig að það er bara gott mál að fá símtal eða heimsóknir.