O sei sei.
Margt hefur á dagana drifið hjá Regínu, hinni heima"vinnandi" húsmóður. Já vinnandi í gæsalöppum því mér verður alls ekkert úr verki. Það er svo merkilegt að þegar maður hefur nógan tíma gerir maður ekki neitt. Æji, ég geri þetta bara á morgun, segi ég alltaf og á meðan safnast rykið fyrir og óhreinataushrúgan staflast upp þangað til ekki eru til nærbrækur né sokkar til að vera í...oj bara. Það er helst að þegar rignir eins og í dag að maður hreyfi á sér sitjandann, annars er hann bara kyrr á teppi úti í garði á góðviðrisdögum.
Í vikunni fengum við minnsta næturgest sem nokkurntíma hefur sést hér á þessu heimili og þó víðar væri leitað. Nýfæddur og yfirgefinn kettlingur. Kallinn heyrði í honum harmakveinin og tók hann heim þar sem hann hugðist bjarga lífi hans. Mamma hans, flækingslæðan, hafði ungað út út sér 5 kettlingum í húsasundi einu hér í nágrenninu. Kettlingagreyjið var það nýr að hann var ennþá með naflastrenginn og auðvitað staurblindur. Við hugsuðum um hann eins og ungabarn, fengum lánaða sprautu hjá einni nágrannakonunni til að geta komið ofan í hann mjólk, vöfðum hann í handklæði og settum hann ofan á ofninn til að halda á honum hita. Sonurinn varð svo glaður greyjið og var alveg búinn að ákveða að kisi litli væri sko frændi hennar Flixu, kisu sem við áttum á Íslandi. Hann var meira að segja farinn að hlakka til þegar þau myndu hittast á Íslandi. Dramatískast var þó þegar þeir feðgar fóru að skila kisa. Það var gert með miklum trega. Við vorum alveg búin að ákveða að halda honum, jafnvel þó að dýralæknirinn vildi aflífa hann, því hann ætti ekki möguleika á að verða eðlilegur köttur, hvað sem það nú þýðir. Það sem gerði útslagið var að við vildum ekki að taka sénsinn á að ég fengi bogfrymilsótt, því þá gæti ég misst fóstrið. Málið er að þessi sótt er mun algengari hér í DK en á Íslandi, gat nú verið. Einhver sagði okkur að læðan myndi afneita kettlingnum sínum, því nú væri manneskjulykt af honum. Æji, við ætluðum bara að vera góð.
Meira um viðburði liðinna daga á morgun...
Hér á hægri væng er komin Sigga Lísa, nágranni, Hafnfirðingur, kennari, bumbulína og ég veit ekki hvað og hvað.
föstudagur, júní 04, 2004
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|