föstudagur, júní 11, 2004

Ég er nú meiri kerlingin!

Í gær átti ég von á gesti, þó ekki beint auðfúsugesti (er það ekki skrifað svona?). Í skóla sonar míns tíðkast nefninlega að kennarinn heimsæki nemendur sína í svona hyggeligt spjall eða skole/hjemmesamtale, eins og þetta kallast. Reyndar kannast aðrar íslenskar mæður ekki við þetta sem eiga börn í sama skólanum. Kannski er þetta bara í hans bekk....en allavega ég sem sagt stóð í þeirri meiningu að hann Jan kennari ætti að koma í heimsókn klukkan 15:45 í gær. Ég var fyrir löngu búin að fá miða heim þar sem ég átti að merkja við þann tíma dagsins sem hentaði best og fékk svo meldingu til baka þar sem fyrrgreindur heimsóknartími var tilgreindur. Ég, eins og sannri húsmóður sæmir, stóð á haus allan daginn og þreif allt hátt og lágt fyrir heimsóknina góðu. Var eiginlega að brenna á tíma, því ég náði rétt svo að skúra kl. 15:40. Ég sem var búin að ákveða að það ætti ekki að vera greinilegt að ég væri að þrífa áður en hann kæmi með því að allt væri angandi í skúringasápulykt. Þetta átti að vera voða "kasúal", átti að líta út fyrir að það væri alltaf svona hreint hjá mér...hahaha....það sem manni dettur í hug. Svo leið og beið og aldrei kom Jan. Mér datt í hug að hann væri kannski enn með gömlu adressuna mína og hefði bara farið húsavilt svo að ég ákvað að hringja í hann þegar klukkan var orðin fjögur. Hann svaraði ekki, svo að ég ákvað að vera bara fegin eftir allt saman, ég var hvort eð er ekkert búin að hlakka til að fá kennarann í heimsókn, finnst það satt best að segja hálfasnalegt. En u.þ.b. fimm mínútum seinna hringir hann og ég spyr hvernig standi á því að hann hafi ekki komið. Þá var það ég sem misskildi þetta allt saman. Það var ég sem átti að koma í skólann og hann lét mig sko vita af því að hann hefði setið og beðið eftir okkur...æ æ æ. En fyrst ég var í símanum gat hann alveg gengið frá þessu símleiðis. Sem betur fer var erindið ekkert hrikalega mikilvægt. Hann var bara ánægður með stákinn og hann plumar sig vel í skólanum og er góður og duglegur strákur.
Það getur komið sér ágætlega að vera útlendingur stundum og hvað þá að vera með lækkaða greindarvísitölu í þessu ástandi. Jan var ekkert súr, sagði bara að svona nokkuð gæti alltaf gerst. Eins gott að vera í náðinni hjá Jan.