þriðjudagur, október 19, 2004

úr Morgunblaðinu

Fimmtudaginn 14. október, 2004 - Aðsendar greinar

Guðrún Lilja Hólmfríðardóttir

Opið bréf til fórnarlamba kynferðislegrar misnotkunar

Kæru fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar og aðstandendur.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég tjái mig opinberlega.

Ég vil hér með votta okkur mína dýpstu samúð vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í íslensku þjóðfélagi með skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar í stöðu hæstaréttardómara.

Ég segi okkur af því að ég er þolandinn í "Prófessorsmálinu".

Þegar niðurstaða Hæstaréttar í því máli lá fyrir missti ég alla trú á íslenskt réttarkerfi og er nú öll von úti um að hún komi aftur.

Huggun mín er hvað þjóðin, sem Jón Steinar kallaði reyndar götulýð, sýndi mér mikinn og einarðan stuðning á þessum erfiða tíma. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þann stuðning og að uppgötva að almenningur í landinu er réttsýnn og með sterka siðferðiskennd.

Sú vitneskja gerir mér bærilegt að lifa með þeirri misnotkun og óréttlæti sem ég var beitt.

Fyrir nokkrum árum samþykkti ég að tjá mig um málið í þáttaröðinni "Sönn íslensk sakamál" og var viðtal við mig tekið upp.

Þegar Jón Steinar Gunnlaugsson frétti af gerð þáttarins var framleiðsla hans stöðvuð af Ríkissjónvarpinu en útlagður kostnaður við gerð hans greiddur.

Ég var látin skrifa undir þagnareið og get því ekki tjáð mig frekar um málið.

Þegar ég heyrði að Jón Steinar Gunnlaugsson væri búinn að sækja um stöðu hæstaréttardómara vildi ég ekki trúa að nokkur heilbrigður maður mundi skipa hann í stöðu sem krefst hlutleysis og sanngirni.

Nú er búið að koma því þannig fyrir að maður sem hefur m.a. úthúðað ungri stúlku í fjölmiðlum og reynt að ræna hana mannorði sínu, fyrir það eitt að leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum, er kominn í æðstu dómarastöðu í íslensku réttarkerfi. Ég vil einnig benda á að Jón Steinar var dæmdur í Hæstarétti í mars 2002 fyrir að valda mér miska í opinberri umfjöllun sinni. Hann var einnig dæmdur til að greiða mér 100 þúsund krónur í miskabætur. Það er nefnilega þannig að Jóni Steinari nægir ekki að vinna sín mál. Dæmin sýna að hann virðist jafnframt verða að kasta skít í aðra og reyna að eyðileggja mannorð þeirra til að upphefja og réttlæta sjálfan sig. Þessi maður sem nú er orðinn hæstaréttardómari er sami maðurinn og lét búa til skýrslu um geðheilsu mína. Hún var keypt hjá háttsettum geðlækni sem hlaut ríflega þóknun fyrir. Geðlæknirinn hafði þó aldrei séð mig, hvað þá talað við mig. Vó þessi skýrsla þungt í niðurstöðu Hæstaréttar þegar þeir sýknuðu föður minn fyrir kynferðislega misnotkun á mér. Ég hef stundum spurt sjálfa mig hvað Jón Steinar hafi keypt margar svona skýrslur um saklaust fólk. Ég skil ekki hvernig Jón Steinar getur sofið á næturnar, vitandi það að hann er búinn að taka þátt í slíkri misnotkun á mér og jafnvel öðrum.

Kæru fórnarlömb og aðstandendur, þið eigið samúð mína alla.

Mitt eina ráð til ykkar er:

Ekki kæra kynferðislega misnotkun. Ekki nema að gerandinn sé lágt settur í þjóðfélaginu. Þið getið ekki búist við réttlátri málsmeðferð og dómsniðurstöðu meðan æðstu ráðamenn þjóðarinnar skipa menn eins og Jón Steinar sem dómara í Hæstarétt fyrst og fremst á pólitískum forsendum. Mann sem hefur notað vafasamar aðferðir til að fá fellda ranga dóma og hefur að mínu mati ekki til að bera þá réttsýni og siðferðiskennd sem dómarar við æðsta dómstól Íslands þurfa að búa yfir.

Maður er bara orðlaus...