laugardagur, maí 26, 2007

Æ já bara voða lítið að segja núna. Dagurinn í dag átti að fara í allskonar aktivítet en það varð ekkert úr því sökum þreytu. Ég ætla ekkert að hafa móral yfir því. Sem betur fer er þetta löng helgi. Það er ýmislegt sem við þurfum að gera við íbúðina áður en við setjum hana á sölu og eins gott að koma sér í gírinn. Mér finnst bara einhvernveginn aldrei tími til neins þegar ég er að vinna 100% vinnu. Hvernig verður þetta þá þegar ég er byrjuð í fjarnáminu líka? Maður var náttúrulega orðinn ansi góðu vanur úti í Danmörku og það er erfitt að aðlagast allt öðruvísi lífi hér á Íslandi. Það er samt ekki bara það...mér hefur alltaf fundist ég þurfa meiri tíma þegar ég er í vinnu. Kannski finn ég þetta bara af því ég hef enn ekki komist í draumastarfið. Ég held að þegar maður er í skemmtilegu, gefandi og vel launuðu starfi sé róðurinn léttari. Ég stefni þangað, veit bara ekki enn hver þessi vinna er en kemst að því með tíð og tíma.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Þá er það færsla dagsins. Hmmm það sem er mér efst í huga núna er megrun, megrun og aftur megrun. Mér var loksins ofboðið þegar mér var litið í spegilinn um daginn og tók þá ákvörðunina á staðnum og hef staðið við hana síðan. Nú er sko engin miskunn og skal tekið duglega á mataræðinu. Þetta bara gengur ekki lengur. Ekki bara út af aukakílóunum, heldur líka bara líðan. Ég er sko alveg komin með nóg af hausverk, sleni og drullu. Ég er búin að skipta um skoðun svona 120 sinnum undanfarið um hvernig ég eigi að fara að þessu, þ.e. hvaða aðferð ég ætti að nota. Herbalife, danski "kúrinn" eða bara kommon sens. Ég held að ég endi bara á kommon sens sem felst aðallega í að drekka fullt af vatni, meira af ávöxtum og grænmeti, sleppa fitu og sykri eins og ég get. Borða líka fisk oftar og reyna að hreyfa mig meira og minnka brauðát. Markmiðið er að láta kíló fjúka á viku og ég er að pæla í að skrá vigtina niður hjá mér vikulega og halda jafnvel matardagbók og skrá niður hitaeiningarnar. Ég hef gert það áður og það svínvirkaði. Hei vá hvað það myndi virka vel ef ég hefði þetta hér á síðunni. En samt ég get ekki hugsað mér að upplýsa hvað ég er þung...

miðvikudagur, maí 23, 2007

Er einhver þarna í Kaupmannahöfn sem getur og vill leigja út íbúðina sína tveimur fullorðnum Íslendingum og tveimur börnum af sama þjóðerni frá 14. til 20. júní? Þetta er fyrir frænku hans Smára. Góðri umgengni og skilvísri greiðslu heitið.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Þegar þetta er skrifað er ekki enn komið í ljós hverjir ráðherrar Samfylkingarinnar eru. Það var svo sem ekki neitt sem kom á óvart í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins nema kannski að flokkurinn færi með ráðuneyti heilbrigðismála. Ó mæ god segi ég nú bara, ekki bara við því að þeir eru með þetta ráðuneyti heldur að Guðlaugur Þór er orðinn heilbrigðisráðherra. Úr öskunni í eldinn segi ég nú bara. Nú verða heldur betur stigin skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Æ, mér líst ekkert á þetta. Menntamál og heilbrigðismál eru máttarstólpar velferðar í þjóðfélaginu og þar verður að tryggja að allir eigi greiðan aðgang að þjónustu á tillits til efnahags eða stéttar. Ég vil samt ekki banna einkaframtök, það má bara ekki verða til þess að hægt sé að græða á heilbrigðis- og menntaþjónustu eins og hverju öðru fyrirtæki. Það er sjálfsagt að bjóða upp á möguleika í menntakerfinu eins og Hjallastefnan er gott dæmi um. Kannski er líka skuggahlið á því þegar fólk er farið að geta keypt sér menntun eins og er jafnvel að gerast með einkareknu háskólana á Bifröst og HR.
Ég veit ekki alveg hvernig einkavæðing á að ganga upp í heilbrigðiskerfinu ef einkastofur bjóða upp á aðgerðir sem kosta mikinn pening en lítinn biðtíma og ríkið býður upp á lengri biðtíma og lægri kostnað. Þýðir það þá ekki að efnameira fólk getur keypt sér betri heilsu á kostnað heilsu efnaminna fólks?
Það verður spennandi að sjá hvernig spilað verður úr hlutunum þetta kjörtímabil og bara hversu lengi þessi svokallaða frjálslynda umbótastjórn á eftir að starfa saman. Mér fannst algjörlega lýðræðislega rétt að þessir flokkar mynduðu ríkisstjórn en hef áhyggjur af heilsu Samfylkingarinnar í kjölfarið. Ég hefði helst viljað sjá vinstristjórn en samt ekki því ég hef litla trú á því að Samfó, VG og Framsókn geti starfað saman...því miður því miður.
Gaman að sjá að það virðist vera lýðræði í gangi hjá Samfylkingunni því það hefur tekið mun lengri tíma að ákveða hverjir verða ráðherrar. Þarna er fólk að tala saman.
Eins og ég var komin með mikið ógeð á pólitík eftir kosningabaráttuna hefur fréttaþorsti fréttamanna undanfarna daga kitlað hláturtaugar mínar mjög.
Hlakka til að heyra stjórnarsáttmálann á morgun. Vonandi eru betri tímar og bjartari framundan á Íslandi í velferðar-, umhverfis- og jafnréttismálum. Ég ætla að reyna að vera bjartsýn þó ég verði að viðurkenna að trú mín á stjórnmálamönnum er afar takmörkuð. Látum verkin tala.
Nú er ég búin að skrifa svo mikið og ég nenni varla að tala um ráðherraskipan Samfó sem er komin núna en ég verð að segja að ég er MJÖG ánægð með að tími Jóhönnu sé loksins kominn!

Góðan og margblessaðan daginn!

Í dag er fyrsti dagurinn í bloggátakinu mínu. Ég ætla að prófa að blogga núna á hverjum degi í heila viku og athuga hvernig það gengur. Þetta var semsagt færsla dagsins jeeee...
Kannski kemur meira...úúú spennandi!

mánudagur, maí 21, 2007

oohhh ekki er þetta veður að hjálpa...snjór hér og yfir 20 stiga hiti úti!

Nei, ég skal hætta þessu væli. Rétt hjá "vinkonu", ég ætla að reyna að lifa í núinu og njóta líðandi stundar. Hægara sagt en gert en ég reyni. Hver ertu annars dularfulla kona? Nú er ég að drepast úr forvitni.

laugardagur, maí 19, 2007

Jæja fórum í dag með HM að gefa öndunum í fyrsta skipti. Honum fannst það ekkert smá gaman. Í dag er svona týpískt gluggaveður...ohh ég hata það. Ég vakna og held að það sé æðislegt veður og svo er bara ískalt...arrrgg.

Ég er alveg gjörsamlega með DK á heilanum núna og er að pæla í leiðum til að flytja út aftur alveg á fullu. Við ætlum að reyna að fara til Köben í heimsókn við tvö í lok sumars eða í haust. Mér finnst ég bara frekar eiga heima innanum öll reiðhjólin, fúlu Danina, heitu sumrin, nálægðina við önnur lönd, Arababúðirnar, ströndina, alla parkana, ódýrari matinn og vínið og æ ég veit ekki, bara fullt í viðbót sem erfitt er að orða. Hér líður mér einhvernvegin eins og ég sé bókstaflega úti á þekju og mér þykir slæmt að vera svona háð bíl og þoli ekki hvað er dýrt að lifa hérna. Auðvitað eru líka kostir hér og gallar úti...en ég veit ekki, mér finnst bara kostirnir stærri úti þegar allt kemur til alls.

mánudagur, maí 14, 2007

Nei nei ekki aldeilis af baki dottin. Boggeddí blogg. Sko það er bara svo hrikalega mikið að gerast í hausnum á mér og fullt af því er bara stöff sem er óblogghæft, því miður. Oft langar mig mikið til að láta bara allt flakka og skrifa allt sem mér dettur í hug en það gengur ekki...neibbs!

Aftur á móti það sem ég get sagt er að við Smári erum búin að ákveða að selja íbúðina og leita okkur að stærri íbúð. Við erum búin að fá fasteignasala til að skoða og meta og eftir svona smá lagfæringar og endurbætur hér og þar ættum við (vonandi) að fá ágætis prís fyrir kofann. Það kom bara "smá" babb í bát uppá tímaáætlunina að gera; Smári brenndist á kosninganótt. Greyjið hann ætlaði að poppa handa mér, ég var endalaust búin að væla í honum að poppa. Það vildi ekki betur til en svo að hann gleymdi pottinum með olíunni í á hellunni aðeins of lengi. Samt var það fáránlega stutt, þetta er þvílíkt öflug eldavél. Þannig að hann er handlama karlanginn. Þetta er annars stigs bruni á tveimur fingrum og smá blettur í lófanum líka...og auðvitað hægri höndin, -hvað annað? Já, þannig að það tekur þá aðeins lengri tíma en áætlað var að selja og kaupa.

Svo erum við alveg í söknunarferli með Kaupmannahöfn, erum eiginlega að drepast, -okkur langar svo út aftur. Meira að segja Benna langar! Gefum Íslandi aðeins meiri séns og sjáum svo til, var eiginlega niðurstaðan. Já já allt í gangi bararabbarbara...

mánudagur, maí 07, 2007

Dóra hvar er síðan þín?

föstudagur, maí 04, 2007

Jahérna, það gengur á ýmsu, það er ekki hægt að segja annað. Þegar við skötuhjúin runnum í hlað í lok vinnudags í gær kemur frumburðurinn hlaupandi að bílnum og æpir eitthvað á pabba sinn og þeir rjúka svo inn í hús. Ég hélt að það væri kveiknað í en nei nei ég mæti Smára á leið minni inn þar sem hann heldur á dauðri rottu ojjjjjjj. Dísús kræst, djöfulsins viðbjóður! Kattarófétið hafði sem sagt fært björg í bú og verið að leika sér að bráðinni í dágóðan tíma áður en hún drapst!

Jæja, ekki nóg með það heldur beið okkar bréf frá starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar þar sem stóð að okkur verður úthlutað sumarbústað í júlí! Eitthvað sem við áttum alls alls ekki von á að fá. Jibbí, við erum rosalega ánægð með þetta. Við sem vissum ekkert hvernig færi með sumarið, þá er þetta amk á dagskrá.

Semsagt OJJJJJ og VEIII

þriðjudagur, maí 01, 2007

Hvað á ég eiginlega að segja í dag. Kosningar, Júróvisíon æ nenni ekki að tala um það. Vorið er að koma, vei! Hitastigið hækkar um örfáar gráður og maður tryllist úr gleði. Hef samt aldrei tíma til að njóta þess því ég er lokuð inni á skrifstofu frá 9-5 og svo um helgar er ég svo löt og þreytt að ég nenni engu. Mig dreymir um að mála myndir, skrifa sögur, föndra og vera með börnunum mínum og liggja þess á milli í sólbaði og fá borgað fyrir þetta allt saman svo ég geti keypt mér það sem mig langar í.