Þegar þetta er skrifað er ekki enn komið í ljós hverjir ráðherrar Samfylkingarinnar eru. Það var svo sem ekki neitt sem kom á óvart í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins nema kannski að flokkurinn færi með ráðuneyti heilbrigðismála. Ó mæ god segi ég nú bara, ekki bara við því að þeir eru með þetta ráðuneyti heldur að Guðlaugur Þór er orðinn heilbrigðisráðherra. Úr öskunni í eldinn segi ég nú bara. Nú verða heldur betur stigin skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Æ, mér líst ekkert á þetta. Menntamál og heilbrigðismál eru máttarstólpar velferðar í þjóðfélaginu og þar verður að tryggja að allir eigi greiðan aðgang að þjónustu á tillits til efnahags eða stéttar. Ég vil samt ekki banna einkaframtök, það má bara ekki verða til þess að hægt sé að græða á heilbrigðis- og menntaþjónustu eins og hverju öðru fyrirtæki. Það er sjálfsagt að bjóða upp á möguleika í menntakerfinu eins og Hjallastefnan er gott dæmi um. Kannski er líka skuggahlið á því þegar fólk er farið að geta keypt sér menntun eins og er jafnvel að gerast með einkareknu háskólana á Bifröst og HR.
Ég veit ekki alveg hvernig einkavæðing á að ganga upp í heilbrigðiskerfinu ef einkastofur bjóða upp á aðgerðir sem kosta mikinn pening en lítinn biðtíma og ríkið býður upp á lengri biðtíma og lægri kostnað. Þýðir það þá ekki að efnameira fólk getur keypt sér betri heilsu á kostnað heilsu efnaminna fólks?
Það verður spennandi að sjá hvernig spilað verður úr hlutunum þetta kjörtímabil og bara hversu lengi þessi svokallaða frjálslynda umbótastjórn á eftir að starfa saman. Mér fannst algjörlega lýðræðislega rétt að þessir flokkar mynduðu ríkisstjórn en hef áhyggjur af heilsu Samfylkingarinnar í kjölfarið. Ég hefði helst viljað sjá vinstristjórn en samt ekki því ég hef litla trú á því að Samfó, VG og Framsókn geti starfað saman...því miður því miður.
Gaman að sjá að það virðist vera lýðræði í gangi hjá Samfylkingunni því það hefur tekið mun lengri tíma að ákveða hverjir verða ráðherrar. Þarna er fólk að tala saman.
Eins og ég var komin með mikið ógeð á pólitík eftir kosningabaráttuna hefur fréttaþorsti fréttamanna undanfarna daga kitlað hláturtaugar mínar mjög.
Hlakka til að heyra stjórnarsáttmálann á morgun. Vonandi eru betri tímar og bjartari framundan á Íslandi í velferðar-, umhverfis- og jafnréttismálum. Ég ætla að reyna að vera bjartsýn þó ég verði að viðurkenna að trú mín á stjórnmálamönnum er afar takmörkuð. Látum verkin tala.
Nú er ég búin að skrifa svo mikið og ég nenni varla að tala um ráðherraskipan Samfó sem er komin núna en ég verð að segja að ég er MJÖG ánægð með að tími Jóhönnu sé loksins kominn!
þriðjudagur, maí 22, 2007
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|