Úff, það er ekkert grín að setjast niður og ætla að blogga eitthvað núna. Maður er svo uppgefinn í þessum hita og með gesti og alles. Bjúgurinn og brjóstsviðinn alveg að slá í gegn hjá mér og aukin þreyta. Það fer líka að styttast í fæðinguna, ó mæ god, ca. 8 vikur þangað til.
laugardagur, júlí 31, 2004
fimmtudagur, júlí 29, 2004
Jæja, þar kom að því.
Loksins kom sumarið í Köben! Mér finnst þetta vera fyrsti alvöru sumardagurinn, steikjandi hiti og ekki skýhnoðri á himni, meira að segja fyrir hádegi! Ef ég hefði mátt ráða áttu maí, júní og júlí að vera heitastir og svo frekar svalt í ágúst og september. Það hefði hentað óléttri konunni mjög vel. Hiti, bjúgur og þungur líkami fara ekki alveg nógu vel saman. Mér dettur samt ekki í hug að fara að blóta þessu yndislega veðri, a.m.k. ekki strax, maður er nú einu sinni búinn að vera að bíða eftir þessu í allt "sumar".
Hilsen,
ég er farin út í garð í smá sólbað áður en tengdó og Viktoría koma.
Skrifaði Regína klukkan 13:37 |
miðvikudagur, júlí 28, 2004
Ég, þessi friðelskandi manneskja er komin í morðham. Mig langar að slátra þessum vinnukörlum hérna fyrir utan. Djöfulsins hávaði á hverjum einasta morgni, maður er í fríi og á að fá að vakna þegar manni sýnist en ekki klukkan sjö eða átta við læti í vinnuvélum! AAARRRRRGGGGG!!!!
Skrifaði Regína klukkan 06:37 |
mánudagur, júlí 26, 2004
It´s a wonderful, wonderful life
Ohh, hvað er betra en að endurheimta kvefið sitt gamla. Það var búið að vera í nefi mínu og lungum í þrjá mánuði og hvarf svo bara einn daginn. Ég var ekki fyrr búin að venjast því að vera kveflaus en það bara birtist aftur í allri sinni dýrð . Stelandi frá mér svefni, góðu skapi og almennri vellíðan. Ég gæti ekki verið ánægðari með hlutskipti mitt, sérstaklega þegar ég á von á gestum eftir 2 daga.
Skrifaði Regína klukkan 13:15 |
sunnudagur, júlí 25, 2004
Jæja, löngu orðið tímabært að taka til í linkunum. Sjaldbloggarar fá að fjúka og inn koma í staðinn nokkrar kollegíkerlingar, misbloggglaðar, sjáum bara til, ég hendi þeim bara út sem blogga of sjaldan fyrir minn smekk! Hohohoho....
Hef svo ákveðið að leyfa furðukörlunum í Croisztans að hanga þarna á hægri vængnum.
Skrifaði Regína klukkan 15:07 |
fimmtudagur, júlí 22, 2004
22. júlí
Í dag er sá dagur ársins sem minnir mig á hversu stutt lífið er eða getur verið. Dagurinn sem ég leyfi mér að vera væmin, heimspekileg, hugsi, sorgmædd, dramatísk. Í þriðja skiptið upplifi ég þennan furðulega dag sem þó er aldrei eins, ekkert frekar en aðrir dagar. Hræðileg lífsreynsla getur þrátt fyrir allt skilið eitthvað jákvætt eftir sig, það skil ég betur og betur eftir því sem tíminn líður. Sagt er að tíminn lækni öll sár, ég veit ekki hvort það sé satt. Hann leggur kannski til sárasmyrsl og plástur en ég efast um að sárið grói nokkurntíma. Ætli maður fái ekki snyrtilegt ör í besta falli.
Einmitt vegna þess hversu lífið er stutt borgar sig að vanda sig. Vanda sig í samskiptum við aðra. Ætti maður ekki að koma fram við fólk eins og það væri í síðasta skipti sem maður sæji það? Á þessum degi fyrir fjórum árum ákvað ég að gera það. Ég er ekki fullkomin frekar en nokkur annar. Þó maður nái ekki að gera það í hvert einasta skipti, eru einhver skipti betri en engin. Það er hollt að hugsa til þess að við manneskjurnar erum allar eins í raun. Öll þráum við það sama, hamingju. Við erum öll í hamingjuleit, við notum bara mismunandi aðferðir. Vitneskjan um þetta, held ég að sé mikilvæg uppistaða í hamingjuuppskriftina, sé hún yfirhöfuð til.
Skrifaði Regína klukkan 16:31 |
þriðjudagur, júlí 20, 2004
nei ó nei o nei...stuðið ekki komið. Þvert á móti, andleysi og almennur leiðindadoði. Kannski á maður ekkert að vera að blogga um það. Mér er skítsama, læt það bara flakka. Eina leiðin er uppávið úr þessu, vonandi.
Skrifaði Regína klukkan 19:22 |
sunnudagur, júlí 18, 2004
Djö...var búin að skrifa einhvern slatta um ekkert og tókst að þurrka það út. Ég er of fúl núna til að gera það aftur. Ætlaði að bæta inn fullt af nýjum linkum og allt. Geri það bara á morgun ef ég verð í stuði.
Stuðkveðjur,
Reg.
Skrifaði Regína klukkan 20:05 |
föstudagur, júlí 16, 2004
Lengi má gott bæta!
Hei kúl, komnir nýjir fídusar í Bloggerinn. Nú getur maður farið að leika sér með allskonar stílbrigði.
Ég var annars að velta því fyrir mér um daginn hvað Ísland gæti verið enn yndislegra land en það er, bara með smá "lagfæringum". Ég er ekki ein af þeim sem lifi í þeirri blekkingu að Ísland sé ömurlegt og allt betra í útlöndum, það eru auðvitað kostir og gallar við alla staði, í misjöfnu hlutfalli. Ég held að kostirnir við Ísland séu þrátt fyrir allt fleiri en gallarnir. Ef ég ætti að skrifa óskalista yfir það sem betur mætti fara, liti hann einhvervegin svona út:
- Vildi óska að það væru betri strætósamgöngur, hann gengi oftar, það væru fleiri leiðir, skólafólk , börn og gamalmenni fengju ókeypis í strætó. Þetta sparar auðvitað bílaútgjöldin, minnkar umferðina, mengunina og stressið. Plús að það mætti gera meira ráð fyrir hjólafólki úti í umferðinni. Það væri líka svalt ef lestir væru til.
- Leikskólar væru helst ókeypis eða að minnsta kosti væru gjöldin tekjutengd. Maður á ekki að þurfa að fara á hausinn við að eiga barn/börn á leikskólaaldri.
- Grænmetis og ávaxtamarkaðir út um allt og það ÓDÝRT!!! -Skilar af sér hamingjusamara og heilbrigðara fólki, sparar heilbrigðiskerfinu geðveikan pening sem má þá nota t.d. í menntamál í staðinn, eykur langlífi og skilar þ.a.l. meiri pening í þjóðarbúið.
- Mig vantar almennilega útvarpsstöð með alvöru dagskrárgerð, playlistar og Björgvin Halldórsson bannaðir takk fyrir!
- LÆGRA MATVÖRUVERÐ!
- Júlí á alltaf að vera heitur að minnsta kosti.
- Blómstrandi líf úti á landi, þar á að vera eftirsóknarvert að búa.
- Tannlækningar ættu að vera ókeypis.
- Enginn lifir undir fátæktarmörkum, eldri borgarar, öryrkjar og aðrir sem ekki geta séð fyrir sér sjálfir eiga að hafa mannsæmandi pening á milli handanna.
- Virkjanir bannaðar á Íslandi.
- Ódýrara áfengi og blóm líka og skór.
- Sjálfstæðisflokkurinn væri minnsti flokkur landsins.
-ég man ekki fleira í bili...
Skrifaði Regína klukkan 10:26 |
þriðjudagur, júlí 13, 2004
mánudagur, júlí 12, 2004
Alltaf endalaus gleði úti, grátt og blautt. Ég er hætt að fylgjast með veðurspám, nennusiggi. Hér eru annars stórtækar heimilisaðgerðir í gangi, ekki bara hin hefðbundna tiltekt, heldur líka í hillum og skúffum og skápum. Ohhh, hvað það verður ljúft þegar því er lokið. Þá verður ekkert rusl og ég veit upp á hár hvar hver einasti hlutur verður. Jess! Já, það er svei mér þá að verða kósí hérna. Gardínurnar loksins komnar upp sem ég er örugglega búin að vera mánuð að sauma, eða ekki sauma hehehe...
Hugmyndirnar snjöllu eru enn í hausnum á mér og ég hef sett mér það markmið að byrja á annarri þeirra þegar mér finnst nóg komið af heimilisaðgerðum. Hlakka til!
Skrifaði Regína klukkan 11:32 |
laugardagur, júlí 10, 2004
Það kveiknaði á ljósaperunni!
Ahhh...ég fékk svo góða hugmynd að mig verkjar! Hún er bara algert leyndarmál því að ég veit að henni verður stolið ef ég kjafta frá, hún er það brillijant. Namm, hvað ég hlakka til. Ótrúlegt að enginn hafi fattað að gera þetta áður. Hei, bíddu, þær eru reyndar tvær. Skyldar en þó ólíkar. Brillijant segi ég....heheheh.
-En það er langur vegur frá góðri hugmynd og útkomunni sjálfri. Ég verð að vanda mig og síðast en ekki síst framkvæma! Ekki bara hugsa, heldur gera! Þarf líka að fá aðstoð frá góðu fólki. Sem betur fer þekki ég fullt af svoleiðis. Kannski verð ég fræg, eða lúser. Hverjum er ekki sama? -Ég fæ a.m.k. prik hjá sjálfri mér fyrir að hafa framkvæmt. Kannski tekur þetta nokkra mánuði eða nokkur ár. Hverjum er ekki sama? -Bara að ég klári þetta.
Nú er ég farin aftur að sofa.
Skrifaði Regína klukkan 05:36 |
föstudagur, júlí 09, 2004
Er veður afstætt?
Mikið skelfing er gott þegar himininn hættir að gráta og jafn skelfilega leiðinlegt þegar hann byrjar aftur og aftur og aftur. Ætlar þetta engan endi að taka?
- Annars á maður ekkert að vera að ergja sig á því sem maður ræður ekki við. Á Íslandi tók ég stundum til bragðs, í slæmum veðrum, að draga fyrir alla glugga, setja suðræna tónlist undir geislann, opna rauðvínsflösku og elda einhvern rétt frá heitu landi. Það var sko alveg gott veður hjá mér, bara ef ég vildi það!
Skrifaði Regína klukkan 18:01 |
sunnudagur, júlí 04, 2004
Ó, mig auma!
Líkamlegir kvillar hafa rænt mig blogggleðinni. Ég reyni að hugsa til Beethovens, Rosewelt og Christofers Reeve sem létu ekkert stoppa sig og áttu meira að segja miklu erfiðara en ég.
Ég hrekk í gang áður en ég veit af.
Skrifaði Regína klukkan 13:04 |
föstudagur, júlí 02, 2004
Gamla landið
Stóri himininn, ferska loftið, sumarlyktin, kyrrðin, sjórinn, krían, fjöllin, bíltúr út úr bænum, Flatey og Breiðafjörðurinn, amma og afi, fólkið mitt, miðbærinn, garðurinn minn, nammið, vatnið, skyrið, harðfiskurinn, kjötsúpan hennar mömmu, flatkökur með hangikjöti, fjölskylduboð, jólin...
Skrifaði Regína klukkan 15:04 |