22. júlí
Í dag er sá dagur ársins sem minnir mig á hversu stutt lífið er eða getur verið. Dagurinn sem ég leyfi mér að vera væmin, heimspekileg, hugsi, sorgmædd, dramatísk. Í þriðja skiptið upplifi ég þennan furðulega dag sem þó er aldrei eins, ekkert frekar en aðrir dagar. Hræðileg lífsreynsla getur þrátt fyrir allt skilið eitthvað jákvætt eftir sig, það skil ég betur og betur eftir því sem tíminn líður. Sagt er að tíminn lækni öll sár, ég veit ekki hvort það sé satt. Hann leggur kannski til sárasmyrsl og plástur en ég efast um að sárið grói nokkurntíma. Ætli maður fái ekki snyrtilegt ör í besta falli.
Einmitt vegna þess hversu lífið er stutt borgar sig að vanda sig. Vanda sig í samskiptum við aðra. Ætti maður ekki að koma fram við fólk eins og það væri í síðasta skipti sem maður sæji það? Á þessum degi fyrir fjórum árum ákvað ég að gera það. Ég er ekki fullkomin frekar en nokkur annar. Þó maður nái ekki að gera það í hvert einasta skipti, eru einhver skipti betri en engin. Það er hollt að hugsa til þess að við manneskjurnar erum allar eins í raun. Öll þráum við það sama, hamingju. Við erum öll í hamingjuleit, við notum bara mismunandi aðferðir. Vitneskjan um þetta, held ég að sé mikilvæg uppistaða í hamingjuuppskriftina, sé hún yfirhöfuð til.
fimmtudagur, júlí 22, 2004
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|