Alger óléttudagur.
Nú er svefnleysi farið að segja til sín. Það er bara vesen að skipta um svefnstellingu og ómögulegt að velta sér á hina hliðina án þess að vakna. Svo þarf auðvitað að pissa svona tvisvar til fjórum sinnum á nóttu, þannig að ég er eiginlega hætt að vakna úthvíld. Þá er ekkert annað að gera en að leggja sig í tíma og ótíma, njóta þess að gera það á meðan maður getur. Dagurinn fór semsagt bara í bókalestur og leggingar án svefns þó. Ég er nefninlega að lesa svo spennandi bók, Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð. Mér finnst það slá svolítið á fæðingakvíðann að lesa um fæðingar annara (og minnar).
Svo er ég farin að pæla í því hvað ég vil og ekki vil. Ég ætlaði að fæða í vatni en var eiginlega hætt við það en nú er ég eiginlega komin á það aftur. Svo er sonurinn alveg æstur í að vera viðstaddur, ég ætla að kanna hvað þær segja uppi á spítala. Hann er rosalega spenntur að fá að sjá fylgjuna...ha ha ha, ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Ég þori eiginlega ekki að fæða heima út af því hvernig gekk síðast og út af þessum mögulega litningagalla. Annars væri það eflaust best, kannski næst. Þetta hringsnýst allt í höfðinu á mér en samt gaman og spennandi.
Í svefnherberginu bíða fyrstu fötin sem ég keypti um daginn.
|