miðvikudagur, janúar 05, 2005

Einn af þessum góðu dögum.

Við HM sváfum, með hléum að vísu, til ellefu í dag og drifum okkur svo í heilsubótargöngu í kringum vatnið eftir hádegissnarl. Veðrið var bara gott, bjart og ekki of kalt. Þetta er bara liggur við Mallorca veður miðað við frostið á klakanum. Mér finnst pínu skrítið að grasið skuli vera svona fagurgrænt um miðjan vetur. Það kannski breytist því það á bara eftir að koma almennilegur vetur hér, því ef ég man rétt eru janúar, febrúar og mars verstu vetrarmánuðirnir hér. Nú ef illa viðrar hreyfir maður sig bara inni. Ég verð að lokka hana Röggu Dís, fimleikadís, fegurðardís og íþróttakennaradís með mér í VTG þegar hún kemur heim. (Vá! Þrýstingurinn!)

Ekki bara var göngutúrinn ánægjulegur, heldur brá ég mér í Døgn Netto og verslaði smá. Eins og venjulega keypti ég miklu meira en þessa örfáu hluti sem mig vantaði. Þetta voru samt þvílíkt góð kaup. Ég hélt að kassagæjinn hefði gert mistök en það var ekki. Þetta var semsagt fullur innkaupapoki, nánar tiltekið þetta: uppvöskunarlögur, brauð, 3 paprikur, kæfa, gulrótarpoki, stór jógúrtdolla, pakki með 10 kertum, líter af mjólk, hálfur annar líter af vatni, tvær perur og hvítlauksbrauð. Kannski ekki mjög dýrar vörur en mér fannst 88 krónur ekki mikið fyrir þetta. Vonandi gleymi ég engu en nú stend ég við þetta að versla í Netto og Fakta, ég sé að það borgar sig, ekki spurning.

Svo fjárfesti ég í gær í vigt í fyrsta sinn á ævinni. Það er planið að vigta sig einu sinni í viku og mæla líka sentímetrana. Svo verður líka haldin matardagbók og kaloríurnar reiknaðar út samviskusamlega. Gaman gaman gaman. Húrra fyrir mér!

Ta ta!