sunnudagur, janúar 09, 2005

Árið

Ég er með góðan fílíng fyrir þessu ári. Merkilegt að maður skuli upplifa áramót sem einhver tímamót, þannig séð kemur bara ný tala og nýtt dagatal og næsta ár er bara næsti dagur. Samt fæ ég alltaf fiðring í magann um þetta leiti og finn að það er kominn nýr kafli í lífinu. Ég fer að hugsa um hvað ég ætla að gera og hvað ég ætla ekki að gera. Svo hugsa ég líka til baka og reyni að læra eitthvað af fortíðinni en ég er ekki enn búin að læra að lifa í nútíðinni, njóta líðandi stundar, nema kannski í smá stund.
Ætli það sé ekki bara efst á óskalistanum í ár að læra að lifa í núinu? Maður kemst nú samt ekki hjá því að hugsa aðeins fram á veginn, gera smá plön fram í tímann. Það er auðvitað möst að hafa eitthvað að stefna að, ég held að það sé fín þunglyndisforvörn. Nú, svo ef maður klikkar á einhverju, þá er amk alveg víst að maður lærði eitthvað á því, þannig að engu er tapað. Það er erfitt að finna ballans í þessu með að hugsa í núinu en smá fram líka.
Til dæmis ætla ég að forðast eins og ég get að hafa áhyggjur og vera stressuð, þá er ég til dæmis ekki að njóta líðandi stundar, heldur einmitt að eyða líðandi stundu í að hugsa um einhverja ókomna stund sem kemur hvort sem ég er stressuð og áhyggjufull eða ekki. Alger tímasóun.

Jaaá, auðvelt að segja en erfitt að gera. Kannski bara spurning um þjálfun, jafnvel margra ára.