Æfingin skapar meistarann.
Í dag er einn af þessum dögum þegar mér verður ekkert úr verki. Því meira sem ég hugsa um hvað ég á eftir að gera, því síður geri ég það. Einhvernvegin tekst mér að láta daginn líða án þess að hafa gert neitt nema drukkið kaffi, étið eitthvað, sinnt unganum og jú kannski farið nokkrum sinnum á klósettið. Ég nenni ekki einu sinni út í búð, þó að veðrið sé fallegt kveikir það ekki einu sinni löngun til að fara út. En svo, ef ég þekki mig rétt, verð ég komin með svo mikið samviskubit í kvöld að ég fer að hugsa um allt það sem ég ætla að gera á morgun, ælta sko að bæta fyrir letina í dag. Það er samt engin trygging fyrir því að eitthvað verði úr áætlununum góðu...kannski að morgundagurinn verði bara endurtekning á þessum degi.
Hvað varð af því "að njóta líðandi stundar"? Best að gefast ekki upp á að æfa sig í því. Þetta hlýtur að koma ef ég æfi mig bara nógu mikið. Ætli það sé ekki svipað eins og þegar ég var að byrja að læra á bíl. Þá fannst mér alveg óhugsandi að ég ætti einhverntíma eftir að ná tökum á því, það var allt of erfitt. Of margir hlutir að hugsa um í einu. Svo kom auðvitað að því að ég fór að keyra eins og herforingi, án þess að hugsa um tuttugu hluti í einu. Undirmeðvitundin sá um meirihlutann af því. Hún er nefninlega alveg magnað fyrirbæri sem ég held að við nútímafólkið vanmetum og kunnum kannski ekki alveg að notfæra okkur betur. Við hljótum að geta til dæmis kennt undirmeðvitundinni að njóta líðandi stundar. Ef undirmeðvitundin væri læs, gæti ég til dæmis skrifað henni þetta bréf:
Kæra undirmeðvitund Regínu.
Viltu gjöra svo vel að læra eftirfarandi:
Njóta líðandi stundar.
Vera jákvæð og bjartsýn.
Ekki borða óhollan mat né drekka óholla drykki.
Vera þolinmóð við börnin þín.
Rækta líkama og sál á hverjum degi (nema kannski á sunnudögum).
Hmm...dettur ekki fleira í hug í bili...enda er bara hafragrautur í hausnum mínum.
Með fyrirfram þakklæti,
þín Regína.
þriðjudagur, mars 29, 2005
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|