mánudagur, mars 21, 2005

Ævintýri Kjarvals á loppemarkaðnum.

Jamms...komið að bloggstund. Þetta hefur verið ágætis helgi í heildina litið. Í stuttu máli tiltekt, göngutúr, gestir og loppemarked. Rosalegur loppemarked í Bella Center. Vá vá og aftur vá. Mig langaði í svo mikið af dóti. Sá þarna meðal annars eeeeldgamlan síma, svona með snúningsapparati, viðarkassi sem maður hengir á vegg. Ógeðslega mikið af flottum myndum og plakötum frá öllum mögulegum tímum, geeeðveikt flotta lampa og ljós, pendúlklukkur og eldhúsklukkur, silfur og postulín....ég hefði léttilega getað fyllt eins og einn sendiferðabíl af dóti sem mig langaði í.

Svo gerðist eitt voða furðulegt. Smári rakst á listaverk hjá einum sölukarlinum. Þetta var málverk af Snæfellsjökli og undirskrift listmálarans var Jóhannes. Okkur þótti þetta líkjast Kjarval verki en án þess að vera neinn sérfræðingur efast ég um að hún sé ekta. Karlinn hafði komist yfir þetta verk ásamt nokkrum öðrum eftir einhvern frægan færeyskan málara fyrir slikk. Hann ætlaði að selja verkið á 100 kall en þá hafi einhver Íslendingur bent honum á að þetta gæti verið mjög verðmætt. Giska á últra heiðarlegt gamalmenni, skrítið að viðkomandi hafi ekki bara keypt myndina á 100 kall og látið svo meta hana. Mér fannst mjög spúkí að það vantaði ártal og undirskriftin hjá Kjarval er vanalega JS Kjarval en ekki Jóhannes. Svo var myndin eitthvað svo "flöt", vantaði einhvernvegin Kjarval effektana. Samt hefði nú verið svolítið kúl að hafa hana uppi á vegg hjá sér þó hún væri ekki ekta. Þetta var ótrúlega furðulegt atriði eitthvað, frekar ævintýralegt. Við gátum sko alveg ímyndað okkur að verkið gæti alveg hafa lent á einhverju háaloftinu hjá einhverjum Dananum sem vissi ekkert um Kjarval, enda var það frekar illa farið. Kjarval var kannski hér í Kaupmannahöfn ungur að árum og málaði þetta fyrir til dæmis gistingu. Hann þekkti svo vel íslenska náttúru að hann hafði jökulinn alveg í hausnum, þurfti öngva fyrirmynd.

Það er sko alveg á hreinu að ég ætla á næsta stóra loppemarked og þá með pening í buddunni. Skilst að maður geti fylgst með hvar og hvenær þeir eru á www.aok.dk