föstudagur, júlí 13, 2007

Mikið er nú gott að vera komin heim í kotið mitt litla. Nú klæjar mig í fingurna að fara að gera eitthvað fyrir hann blessaðan. Ég vona bara að skattmann standi við sitt þetta árið eins og vanalega og ausi yfir mig dálítið af þúsundköllum svo að hægt verði að fegra kotið aðeins.

Ferðasagan er stutt. Við fengum sól hvern einasta dag. Fórum eiginlega ekki neitt að skoða nema jólahúsið, Vaglaskóg og Akureyri. Átum eins og svín, meðal annars urriða veiddan af Smára og Benna í Ljósavatni...ekki ónýtt það. Bústaðurinn var góður, Benni sagði að hann væri flottari en íbúðin okkar ha ha ha! Geðveikt að hafa örbylgjuofn og slátruðum við 8 örbylgjupopppokum léttilega! Potturinn stóð líka fyrir sínu. Ég varð nánast ástfangin af Akureyri og nágrenni. Þvílík dásemd!

Og ég er búin að panta að næsta ferðalag verði barnlaust...eins yndislegir og strákarnir mínir eru þá er kominn tími á kærustuparsferð og það fyrir löngu. Ég get svarið það að á því 13 og hálfa ári sem við Smári höfum verið saman höfum við aldrei farið tvö í ferðalag. Þá tel ég ekki með eina sumarbústaðarferð þegar ég var kasólétt af Benna. Hann var eiginlega með.