laugardagur, maí 29, 2004

Það að vera ligeglad

Mig langar til að leiðrétta algengan misskilning sem ríkir hjá Íslendingum, það er að segja þeim sem ekki hafa búið hér í DK. Þeir halda nefninlega að Danir séu svo ofboðslega næs og svo glaðir eitthvað og segja því títt: " Danir, æji já þeir eru svo ligeglad" - með bros á vör. Ég hélt einu sinni að það að vera ligeglad væri mjög jákvætt í fari fólks. Þá væri það alltaf glatt og brosti framan í lífið, sama hvað á gengi. Einmitt þarna liggur hnífurinn í kúnni, það er alls ekki merkingin sem felst í þessu orði að vera ligeglad. Svo ég taki merkinguna bara beint uppúr tölvuorðabókinni minni þá er hún svona:
ligeglad
lo., hk. eins
kærulaus
• jeg er fuldstændig l.: mér er nákvæmlega sama

Sem dæmi úr raunveruleikanum má til dæmis nefna þetta. Par með eitt barn sem átti að fá íbúð hér á kollegíinu á ákveðnum degi, var skyndilega sagt með nánast engum fyrirvara að ekkert yrði af því fyrr en tveimur vikum seinna. Eins og við mátti búast var búið að gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. segja upp þáverandi íbúð í samræmi við fyrri dagsetningu. Þá var Dananum alveg nákvæmlega sama = ligeglad, þegar honum var sagt frá aðstæðum og barnafjölskyldan hefði engan samastað í 2 vikur!!! -"sådan er det bare" svaraði Daninn eins og honum einum er lagið. Það sér það hver maður í hendi sér að þetta viðhorf hefur ekkert með gleði að gera. Þetta er nú bara eitt lítið dæmi um hversu ligeglad Danir eru. Vonandi hef ég leiðrétt þennan misskilning í eitt skipti fyrir öll. (Ekki nema ég hafi verið sú eina sem misskildi þetta, hahahahha.)