sunnudagur, maí 23, 2004

Þetta verða allir sem finnst indverskur matur góður að prófa:

7-800 g lambakjöt, bein- og fituhreinsað
3 laukar, saxaðir
3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
4-5 cm bútur engifer, saxaður
1 msk karríduft, gjarna Madras (rajah)
2 tsk garam masala
1 tsk kardimommur, malaðar
1 tsk kanell
1/2 tsk chillipipar, eða eftir smekk
50 g smjör
300 ml hrein jógúrt
1/2 l vatn
2 kjúklingakraftteningar
2 msk tómatþykkni (paste)
sítrónusafi
e.t.v. salt og pipar

Skerið kjötið í gúllasbita. Setjið lauk, hvítlauk, engifer og krydd í matvinnsluvél eða blandara og látið ganga þar til allt er orðið að mauki. Bræðið smjörið á stórri pönnu og brúnið kjötið vel á öllum hliðum. Takið það upp með gataspaða og setjið á disk. Setjið kryddaða laukmaukið á pönnuna og látið það krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærið oft á meðan. Hrærið svo jógúrt, vatni, teningum og tómatþykkni saman við, setjið kjötið aftur út í, leggið lok yfir og látið malla í um hálftíma. Takið þá lokið af pottinum og sjóðið í hálftíma í viðbót, eða þar til kjötið er meyrt og sósan hefur þykknað. Smakkið til með nýkreystum sítrónusafa og e.t.v. pipar og salt.

Þetta er algjört nammi og auðvitað hefur maður góð hrísgrjón með og svo geri ég alltaf gúrkusalat með sem er svo frískandi á móti karríinu:

Afhýða gúrku og skera fínt niður. Setja í skál og salta. Merja ca hálfan hvítlauksgeira, bæta honum í og hreinni jógúrt. Svo smá svartan pipar og sítrónusafa. Gott að láta þetta vera í ískápnum svona hálftíma, klukkutíma áður en hún er borðuð en samt ekki nauðsynlegt.

Verði ykkur að góðu og segið mér svo hvernig ykkur fannst!