miðvikudagur, maí 12, 2004

Brúðkaup skrúðkaup!
Það er gjörsamlega hvorki kveikjandi á sjónvarpinu né opnandi dagblað hér án þess að verið sé að fjalla um blessað konunglega brúðkaupið. Á hverjum degi eru einhverjir viðburðir sem mögulegt og ómögulegt er að fjalla um. Í kvöld var til dæmis eitt fréttaskotið notað í að fjalla um einhver krakkagrey sem voru sett í að tína upp rusl á Strikinu og nágrenni til að allt verði nú nógu hreint fyrir heimsviðburðinn mikla. Auðvitað fengu þau svo ferð í skemmtigarð í verðlaun (frá skólunum). Myndavélar sjónvarpsstöðvanna keppast við að ná þessum geypilega merkilegu atburðum á filmu, foreldrar Mary í bæjarferð, Mary og Frederik fara siglingakeppni, beinar útsendingar frá galakvöldverðum og fleira og fleira. Meira að segja var heill sjónvarpsþáttur sem hét Brev til Mary , þar sem Ástralskar konur giftar Dönum voru að gefa henni góð ráð og bla bla bla. Eins og venjulegar konur eigi eitthvað sameiginlegt með verðandi krónprinsessu...hahh!!!
Þessar konur höfðu auðvitað ekkert nema jákvætt að segja um Danmörku og danskir karlmenn voru sko þeir myndarlegustu í heimi...je sjor! Ein þeirra hélt því meira að segja fram að Danir væru svo opnir fyrir útlendingum...hún hlýtur að hafa fengið borgað fyrir að segja þetta.
Við skötuhjúin brugðum okkur í bæjarferð og rákumst á fyrnarstóra blómaskreytingu á Amagertorgi. Hún átti víst að vera risastór hjörtu, að sjálfsögðu til heiðurs brúðarparinu, en mér fannst hún frekar líkjast rössum, hahahah! Kaupmannahafnarkommúna leggur víst til 100 milljónir danskar í meðal annars rassaskreytingar úr blómum! Auk þess eru skattgreiðendur til dæmis að borga fyrir malbik sem verður lagt á Kóngsins Nýja Torg svo að konunglega hersingin geti keyrt þar í gegn á brúðkaupsdaginn. Það er nefninlega verið að endurnýja allt torgið og framkvæmdir standa meira að segja sem hæst þessa dagana. Svo verður malbikið rifið upp aftur á mánudaginn til að hægt sé að halda áfram með framkvæmdirnar. Hvað ætli það kosti nú? Allt í allt erum við að tala um 142.500.000 danskar krónur af opinberu fé sem er látið í þessa, afsakið orðbragðið, helvítis vitleysu. Þetta er auðvitað afsakað með því að þetta sé svo góð markaðssetning fyrir Danmörku en það fyndna við þetta er að það koma bara 20 ástralskir túristar í tilefni brúðkaupsins, gamlar kerlingar. Æji brúðkaup skrúðkaup...mikið verð ég fegin þegar þetta er yfirstaðið. Ég er fyrir löngu búin að fá mig fullsadda af þessu rugli.