föstudagur, maí 21, 2004

Ævintýri gærdagsins.

Ja hérna hér! Bara kommentamet í gangi sem sennilega verður seint slegið. Það er svo gaman þegar manni er komið á óvart. Ekki nóg með að ég hafi eignast frænku í gær, heldur hafði ég ekki hugmynd um að uppvöskunarvani minn myndi taka slíkum stakkaskiptum á einum degi eins og raunin varð. Ég auðvitað blótaði því í sand og ösku þegar allt í einu fór að flæða ógeðslegu drulluvatni í eldhúsvaskinn minn. Þetta var á að giska gömul og feit sósa, blönduð uppvöskunarsápu og lyktin alveg eftir því. Hún náði meira að segja að breiða sér um alla íbúðina við ófögnuð þeirra sem þar búa. En á sömu mínútu og vatnið tók að streyma í vaskinn með óhreina leirtauinu gerðist nefninlega alveg stórmerkilegur hlutur. Ég ákvað að aldrei skyldi nokkuð liggja í vaskinum. Sem sagt allt þvegið upp jafn óðum. Þetta hefur þá kosti í för með sér að ég er alveg eldsnögg að vaska upp og get þessvegna sleppt því að blóta og gráta uppþvottavélina mína sem varð eftir á Íslandi. Svona geta leiðindi verið dulbúin gleði. Hvernig var þetta nú aftur...fátt er jafn slæmt að ei boði nokkuð gott...eða eitthvað svoleiðis? Snýst þetta ekki bara um viðhorf?

Sjáum svo bara til hversu lengi nýji uppvöskunarvaninn endist...