föstudagur, apríl 30, 2004

Ég var alveg búin að ákveða að gera þetta ekki...en hér kemur það nú samt. Þið sem eruð að lesa síðuna mína, segið eitthvað, kommenterið, ha....? Mér finnst þetta voða desperat eitthvað, maður á eiginlega ekki að þurfa að biðja um þetta, en skítt með það.

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Lokakafli framhaldssögunnar o.fl.

Jess....það gekk! Fékk frest á verkefninu. Þannig að næsta vika fer í að plana auglýsingaherferð fyrir íslenskt lambakjöt í á stórkaupmannahafnarsvæðinu. Hver veit nema þetta leiði til frekari verkefnavinnu fyrir Guldfoss A/S? Jafnvel lokaverkefnis, hmmmm...? Spennandi og skemmtilegt.

Hef annars komist að því að bloggsíður eru tímaþjófar. Þær gefa samt meira af sér en aðrir slíkir, til dæmis sjónvarpsgláp.

Fávitinn ég er búin að fatta hversvegna ekkert bólaði á Tvíhöfða um daginn. Þeir byrja klukkan 7 en ekki 6, á ísl. tíma, eins og ég hélt. Sýnir bara hvað ég er vön að rísa snemma úr rekkju.

Já, og Bandaríkjamenn! Haldiði bara áfram að saka aðrar þjóðir um mannréttindabrot á meðan þið komið fram við alla með virðingu eins og írakska stríðsfanga og Guantanamo fanga svo dæmi séu tekin. Ég hef líka tekið eftir því að heimurinn er mun friðsamari eftir að þið réðust inn í Írak. Alveg eins og Hr. Runni lofaði. God bless America!

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Framhaldssagan

Fundurinn gekk vel...ekkert nema almennilegheitin. Fæ vonandi samtal við deildarstjórann á morgun. Spennan magnast.

Miðvikudagur til máttar

Undur og stórmerki gerast enn. Jebb, þetta er satt...þegar þetta er ritað er klukkan 07:56 og ég komin á fætur! Bíð bara eftir þýðum röddum míns elskulega Tvíhöfða sem ég myndi elska enn meira ef þeir spiluðu skemmtilegri tónlist, þeir nenna greinilega ekki að velja lögin sjálfir. Ég er sannarlega kona en ekki kálhaus. Ég er aðeins að fá mér kaffi og pára pínu áður en ég held út í æfintýri dagsins. Hljómar spennandi, er það líka smá. Ég á nebbla að fara á fund með einum kennaranum mínum í hádeginu. Hún ætlar að hjálpa mér, þessi elska, að reyna að bjarga málunum í sambandi við þetta blessaða prófverkefni sem á að skila á föstudag. Það er víst uddannelsesleder sem tekur ákvörðun um undantekningu á skilafresti, þannig að ég býst við að þurfa að tala við hann líka. Ég er frekar vongóð um að þetta fari vel, ef ekki þá bara fuck them! Hei hvar er Tvíhöfði, klukkan orðin 08:05 og ekki heyrist píp!

Bæ ðe vei...eftir langar vangaveltur ákvað ég að verkefnið skyldi fjalla um markaðssetningu íslensks lambakjöts í DK. Mér finnst sko ekki veita af að gera betur í því. Danir vita varla að það er til, hvað þá hvað það er ógeðslega gott....og hollt maður!

Kannski að ég rapporteri seinna í dag eða í kvöld hvernig fór á fundinum...

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Þetta er rosalegt!

Það er varla að maður þori að kaupa í matinn lengur. Það er alltaf í fréttum að maturinn hér í DK sé mengaður af allskonar ógeði og hvað svo með það sem nær ekki í fréttirnar? Dæmi: lax sem ekki mátti selja á Ítalíu þótti sko alveg boðlegur Dönum þó hann innihaldi listerian, salmonellusýktur kjúklingur sem Svíar sættu sig ekki við sömuleiðis (var reyndar ákveðið í dag að stoppa það af skv. DR), í vetur voru sýndar ógeðslegar vídeóupptökur af illa þrifnum svínabúum um gjörvallt DK, eggin eru kamfílóbakter- og salmónellusýkt og í økológískri mjólk fundust einhverjir gerlar sem ollu magakveisum. Þetta er víst allt helv. peningunum að kenna, svona fer þegar samkeppnin gengur út á lægsta verðið en ekki gæðin. Þið þarna á klakanum vitið bara ekki hvað þið eruð heppin að búa í þessu sterilíseraða landi. Frekar er ég til í að borga aðeins meira fyrir matinn og vera örugg með að verða ekki veik eða bara drepast af því að borða hann en að kaupa ódýran og eitraðan mat. En ég sagði líka aðeins meira, ekki miklu meira eins og það er heima á Íslandi.

mánudagur, apríl 26, 2004

Kona eða...?

Well, well. Eftir frekar slappa byrjun á deginum, sem sagt sofið allt of lengi, dreif ég mig loksins í skólann. Ég þurfti auðvitað fyrst að dúllast í sturtu, borða tykmælk með múslí og klára að hlusta á Tvíhöfðann minn, fyrst svona langt var liðið á daginn. Mig var að dreyma svo þægilegan draum að ég gat bara alls ekki vaknað eins og ég ætlaði að gera kl. 9. Í stuttu máli gerðist draumurinn að mestu leyti í skipi þar sem lestar stoppuðu, afi var nebbla þarna í aðalhlutverki, töluvert yngri en í raunveruleikanum og var að fíflast með okkur barnabörnunum. Mig langaði ekkert að draumurinn endaði. En fór sem sagt á fætur seint og síðarmeir og var alveg að guggna á því að fara í skólann, klukkan væri hvort eð er orðin svo margt. "Auli", hugsaði ég svo, "ertu maður eða mús"? Það gengur nebbla ekki að draga hlutina svona á eftir sér endalaust. Ég er búin að vera með grjót í maganum út af lélegri mætingu í skólanum og komin eftir á með allt. Þarf til dæmis að væla í einum kennaranum til að fá séns á að lengja skilatíma á prófverkefni sem á að skila á föstudaginn. Því miður var sá kennari ekki við, þannig að það bíður morgundagsins. Ég hitti aftur á móti enskukennarann minn sem er eiginlega algert bich en hún var svo bara voða næs þegar ég útskýrði málið fyrir henni. Ég er reyndar með ágætis afsökun fyrir frammistöðuslappleikanum þrátt fyrir allt.

Ég er búin að vera að velta fyrir mér einhverju í staðin fyrir "ertu maður eða mús"? sem ætti betur við konur. Þó að við konur séum auðvitað menn líka sko, finnst mér samt flottara að geta sagt "ertu kona eða....?". Það fyrsta sem mér datt í hug var "ertu kona eða kýr?", svo fannst mér það ekki passa því kýr eru talsvert stórar og öflugar skepnur, auk þess mjög duglegar. Það verður eiginlega að vera orð sem byrjar á "kái" og lýsir litlu dýri, ekki samt kaunguló. Svo finnst mér doldið flott "ertu kona eða krús?", bara af því það rímar við mús en það gengur eiginlega ekki merkingarlega séð. Þetta hlýtur að detta inn einn daginn.

Var að skoða bloggið mitt í skólanum og þá var ekki svona stórt letur....skrýtið, þá er tölvan mín eitthvað duló.

sunnudagur, apríl 25, 2004

Snilld!

Mikið djöfull var gaman í gærkvöldi. Við skötuhjúin skelltum okkur nefninlega á tónleika hér á kollegíinu. Þar var á ferð Steintryggur nokkur, samansettur af Sigtryggi Baldurssyni ex-mola og Steingrími Guðmundssyni. Með þeim voru snilldardídjei sem skratsaði og gerði allskonar kúnstir, hollenskur strengjaleikari sem lék á alls konar hljóðfæri og ekki má gleyma Ólafi ósýnilega sem meðal annars brá sér í gerfi básúnuleikara og afríkansks og grænlensks söngvara. Reyndar hétu þeir þetta kvöld Kvintett Ólafs ósýnilega, honum til heiðurs. Þetta voru sko langbestustu ókeypis tónleikar sem ég hef farið á í laaaaaangan tíma. Ég vissi ekki að Sigtryggur væri svona fyndinn. Auðvitað voru Íslendingarnir sannir Íslendingar og mættu seint en það var líka allt í lagi því þeir byrjuðu bara þegar salurinn var orðinn hæfilega fullur. Það var voða heimilisleg og kósí stemmning með tilheyrandi fíflalátum og tæknimistökum, en þá var bara byrjað aftur...ekkert mál. Steintryggur spilaði alls konar taktmikla tónlist blandaða saman frá öllum mögulegum þjóðum. Ætli megi ekki kalla þetta heimstónlist. Við vorum svo heilluð að við keyptum diskinn fyrir 150 kall strax á öðru lagi. Fengum hann svo auðvitað áritaðann þegar þeir vour búnir að spila og hlupum svo heim og hentum disknum í tækið því við vildum bara meira og meira...alvöru aðdáendur sko! Skrítið og skemmtilegt fannst mér þegar annar helmingurin, Sigtryggur, kom til okkar og þakkaði okkur fyrir komuna. Nei, fyrirgefðu kallinn minn, ÞAKKA ÞÉR!!!

Blogg um blogg frá...

Jæja, eins og minn fjölmenni lesendahópur hefur komið auga á, hef ég breytt útliti síðunnar allnokkuð. Var það fyrst og fremst gert af uppgjöf, mér tókst nebbla alls ekki að koma inn linkum á hina síðuna. Þeir fjærsýnu í mínum lesendahópi geta þó glaðst ægilega og sleppa jafnvel við að setja upp gleraugun við lesturinn. Fyrir minn smekk finnst mér þetta fullstórt, sjáum hvað setur, það er aldrei að vita að maður bara venjist þessu. Jafnvel að það leynist einhver trikk til að minnka letrið, hver veit? Maður er bara rétt að byrja. Ég ætla a.m.k. ekki að eyða meiri tíma í að hræra í templeitinu í dag. Ég á örugglega eftir að bæta inn fleiri linkum þegar á líður, þetta voru svona þeir helstu sem mér datt í hug í bili.

laugardagur, apríl 24, 2004

Söngur og frænka
Fór á Norðurbryggju til að hlusta á frænku og spúsa hennar syngja í fallegasta kór í heimi. Hann er svo ótrúlega samstilltur og hreinn, algerlega fullkominn finnst mér. Kom mér á óvart hversu góður hljómburður var þarna, var reyndar skoða þetta hús í fyrsta skipti. Þetta var algerlega gæsahúðar- og tár í augun dæmi. Það er líka svo uppfrískandi að heyra þjóðleg íslensk lög sungin af algerri snilld. Ég er meira að segja svo heppin að fá að heyra aftur í þeim á morgun þar sem þau ætla að syngja í St. Pouls kirkju hér í kóngsins köbenhavn. Hjúkk...því ég missti af nokkrum lögum hjá þeim í dag.

Var annars að velta því fyrir mér hvort ekki hefði mátt gera betur í að vekja athygli Íslendinga í DK á þessu. Mætingin var ekki upp á marga fiska. Það er alls ekki erfitt að hafa uppá stórum hópi Íslendinga, t.d. þeim sem búa hér á kollegíinu og öllum hinum kollegíunum. Það þarf ekki að kosta mikið að útbúa plaköt eða "flæera" og dreifa. Allavega er ég alveg til í svoleiðis sjálfboðavinnu. Hmm....kannski verkefni fyrir markaðsfræðina?

föstudagur, apríl 23, 2004

Hjaaaááálp!!!!
Þetta gengur ekki lengur. Það er ekkert gaman að hafa enga linka á bloggsíðunni minni. Ég er búin að gera alveg eins og á að gera en ekkert gengur...kannski að ég breyti þá bara útlitinu/templatinu þó mig langi ekkert til þess. Það er þó skárra að hafa linkana þó útlitið sé ljótt.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Eitthvað jákvætt.
Til dæmis þetta: sólin skín, ég á góða fjölskyldu, góða vini, það er engin hungursneyð hér, ekki stríð, það vex líf inní mér, ég hef góða heilsu, ég er í skóla, ég er örugglega að gleyma einhverju...

mánudagur, apríl 19, 2004

Nú er nóg komið af neikvæðum skrifum - inn með það jákvæða!

sunnudagur, apríl 18, 2004

Ég er alltaf jafn hissa á því hvað Dönum er sama um dönskuna sína og nenna ekki að rækta hana. Ég var alveg að missa það á afmælisdegi drottningar, 16. apríl, þegar þegnar hennar söfnuðust saman fyrir Amalíuborg eins og vaninn er. Þeir sungu Happy Birthday to you!!! Danir eiga sinn eigin danska afmælissöng, lag og texta. Hvað er eiginlega að þessu fólki...ég skil þetta ekki. Maður hefði nú haldið að einhver íhaldssemi fengi nú að njóta sín þegar sjálf táknmynd íhaldsseminnar á afmæli. Ekki nóg með þetta, heldur sagði sonurinn þegar við vorum að hneykslast á þessu hér á heimilinu að það væri alltaf sungið Happy Birthday þegar einhver ætti afmæli á fritidshjem hjá honum....púff, sorglegt.

föstudagur, apríl 16, 2004

Pirr
Árskort = kort sem gildir í ár....ehh neei. Ekki í henni Danmörku. Árskort er ekki það sama og árskort. Dæmi: 1. Árskort í Tívolí gildir sko bara árið 2002, 2003, 2004 og svo framvegis. Auðvitað á þetta að heita sæsonkort, því það gildir jú bara þann tíma sem Tívolíið er opið - ekki í ár! 2. Eeen ef maður kaupir árskort í dýragarðinn, þá gildir það í ár frá því þú keyptir það því þar er jú opið allan ársins hring.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

L-pillan
Ég vildi óska að það væri til læripilla. Í hvert skipti sem ég nennti ekki að læra, sem er reyndar á hverjum degi, tæki ég bara taka inn L-pilluna og wúalla, alveg í stuði til að læra! Þær væru að sjálfsögðu ókeypis. Skólarnir gætu til dæmis séð til þess að maður fengi svoleiðis. Þetta væri hreinlega bara í fjárlögunum, menntamálaráðuneytið sæi um dreyfinguna. Það væri náttúrulega beinn hagur skólanna að nemendurnir væru alltaf í lærustuði. Vá, hvað heimurinn yrði miklu gáfaðri, kannski það gáfaður að aldrei yrðu aftur stríð! Auðvitað mættu engar aukaverkanir vera og maður yrði ekkert háður þeim. Þær kæmu bara til gagns þegar mann vantaði smá læruhvatningu. Kannski verkefni handa Kára?

-segi svona...

Hmmmm...
Það er alveg agalegt að fjórði hver Dani er smitaður af herpes-kynsjúkdóminum. Enn verra er þó að nú á að setja í gang forvarnartilraun sem gengur út á að bólusetja stúlkur á aldrinum 10-17 ára gegn herpes. Finnst heilbrigðisyfirvöldum það líklegt að 10 ára stelpur séu farnar að stunda kynlíf og hversvegna bara stelpur en ekki strákar?

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Jess, jess, jess....
Grillaðar nautalundir með rjómasveppasósu, fersku salati, kartöflum, maísbaunum, skolað niður með dýrindis Chile rauðvíni. Bara á venjulegu þriðjudagskveldi.

Elsku besti tvíhöfðinn minn! Ég veit að þú lest þetta ekki en ég verð að segja að þú ert lang, lang, lang bestur. Það er enginn sem kemur deginum jafn vel af stað eins og þú. Æ lovjú men!

mánudagur, apríl 12, 2004

Paradoks
Hér í DK eru útlendingalögin orðin það ströng að Danir þurfa að flytja til annarra landa til að mega búa með sínum útlenska ægtefælle. En svo eru allir að pissa á sig út af þessari (bloody) Mary sem Friðrik krónprins, eins og ALLIR vita, er að fara að giftast þann 14.maí. Hún er ástralskur ríkisborgari og fær nokkrar danskar millur, takk fyrir, frá danska ríkinu fyrir að búa hér og giftast Frikka. Kannski eins gott að hún fái smá pening í staðinn fyrir að þurfa að skipta á áströlskum ríkisborgararétti í danskan OG nótabene skrifa undir plagg þar sem hún afsalar sér forræði yfir tilvonandi börnum þeirra!!! Væntanlega til að tryggja að hið bláa blóð haldist örugglega innan hallarveggjanna. Ég gæti ælt. Undarlegt, eins miklir útlendingahatarar og rasistar sem Danir eru, dýrka þeir samt konungsfjölskylduna eins og maður dýrkaði Duran Duran í gelgjunni. Konungsfjölskyldan er ekkert nema samansafn af útlendingum! Man ekki alveg hvernig þetta var með sjálfa hennar hátign Margréti, hvort hún sé hálfur Þjóðverji og hálfur Pólverji. Maðurinn hennar er örugglega þýskur að ég held. Prins Jóakim er giftur henni Alexöndru sem er hálf kínversk og hálf ensk. Annars gæti mér ekki verið meira sama hver er hvaðan, bara að fólk sé vel innrætt, það er auðvitað aðalmálið.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Óhugnaður í hverfinu.
Morð var framið í næstu götu á laugardagsnótt. Þrír ungir strákar börðu 32 ára gamlan mann til dauða. Þeir voru allir gestir á knæpu nokkurri og þegar átti að loka henni neituðu hinir ungu að yfirgefa staðinn. Hinn 32 ára gamli gestur blandaði sér í málið og hjálpaði barþjóninum að koma þeim út. Stuttu seinna snéru hinir þrír til baka til að eiga orð við gestinn 32 ára. Fóru þau samskipti þannig að þeir börðu hann til óbóta og fannst hann meðvitundarlaus með blæðandi höfuðsár. Hann lést nokkrum klukkustundum seinna. Hann lætur eftir sig tvö ung börn og eiginkonu. Tveir árásarmannanna, 17 og 18 ára, hafa gefið sig fram við lögreglu en sá þriðji er eftirlýstur.

Þetta er ótrúlega óhugnalegt, sonurinn gengur þarna framhjá á hverjum degi á leið heim úr fritidshjem. Ég hef áræðanlega mætt fórnarlambinu og/eða morðingjunum einhverntíma á förnum vegi.

Úff púff!
Jæja, nú er nóg komið! Ég er búin að þræla í þrjá eða fjóra klukkutíma að laga og bæta bloggið. Tókst ekki alveg sem skyldi en mér tókst þó að bjarga hlutunum eftir að hafa eyðilagt síðuna alveg. Kem ekki hlekkjum í gang, þó leiðbeiningarnar séu ótrúlega einfaldar....grrr. Er heldur ekki sátt við að kommentadæmið sé fyrir ofan póstinn....furðulegt. Laga þetta seinna, nú er ég alveg með ofnæmi.

Gleðilegan pásk!
Jæja, sjáum til hversu gleðilegur þessi dagur verður. Ég er hér ein í koti með syninum, ljósinu mínu. Hann hefur það kósí uppí rúmi með páskaegg sér við hlið og skiptist á að horfa á teiknimyndir og spila í geimbojinum sínum. Kallinn farinn að vinna ólaunaða vinnu sér til skemmtunar. Hann er línumaður á Parken, eða réttara sagt snúrumaður. Starfið fellst í því að éta klukkan tvö (eins gott að það sé eitthvað almennilegt þegar verið er að draga fjölskyldumenn á hátíðardegi frá fjölskyldunni sinni), elta síðan kvikmyndatökunemann haldandi á snúrunni svo hann flækist ekki í henni og detti eins og fífl og myndin á risaskjánum verði ekki bara ský. Kúl að fá frítt á völlin annars, verður örugglega góð mæting í dag á frídegi. Völlurinn tekur víst um 50.000 manns, þokkaleg stemmning það!
En auminginn ég sit hér ein í koti, fékk ekkert íslenskt páskaegg að þessu sinni....púúhúúú. Það liggur við að ég hlakki (fyndið orð:hlakki) til að fara í skólann á þriðjudaginn. Best að fara að þvo....eða kannski ekki alveg strax...

föstudagur, apríl 09, 2004

Sól
Loksins loksins...sól og næstum því stuttermabolsveður. Ég ætla út í garð að lesa og borða jarðarber. Ekki veitir af að kíkja aðeins í námsbækurnar, nú fara prófin að nálgast. Kannski að maður fái smá lit á smettið í leiðinni. Best að draga soninn með mér út...úff, hægara sagt en gert.